Þriðjudagur 14. júní 2011

165. tbl. 15. árg.
Hefur einhver efni á að aka veginn til framtíðar?

S amtök ferðaþjónustunnar hafa lýst áhyggjum yfir því að Íslendingar ferðist minna um landið en áður. Samtökin rekja það meðal annars til hárra skatta á eldsneyti. Ríkisstjórnin hefur engan skilning á því að veik króna og hátt heimsmarkaðsverð á olíu kunni að vera nægur skellur fyrir íslenska bíleigendur.

Þegar norræna velferðarstjórnin komst til valda var hún því fljót að grípa til aukinnar skattheimtu af eldsneyti. Á ráðuneytisskrifstofu í Reykjavík sjá menn ekki annað en að þar með fái pakkið á stóru jeppunum verðskuldaða hirtingu – því var nær að nota hagstætt gengi til að kaupa bíl sem hentar íslenskum aðstæðum, veðri og vegum.

Auðvitað hafa skattar víðtækari áhrif en á þá sem greiða þá. Hinir skattpíndu greiða þá ekki annað á meðan. Þeir kaupa ekki auðvitað ekki gistingu, veitingar, veiðileyfi eða aðra þjónustu á landsbyggðinni fyrir peninginn sem tekinn er af þeim í skatt. Það er ekkert fjarstæðukennt að margir Íslendingar verði að sleppa útilegunni í ár vegna skattpíningar vinstri stjórnarinnar. Þá fækkar atvinnutækifærum á landsbyggðinni.

Undir þessari gagnrýni ferðaþjónustunnar á skattheimtu af eldsneyti leggja Samfylkingin og vinstri grænir sérstakan skatt á svefn ferðalanga, gistináttagjald. Gjaldið er sakleysislegar hundrað krónur. Svona álíka sakleysislegt og tímabundið og smávægilegt bifreiðagjald sem síðasta vinstri stjórn lagði á og hleypur nú á tugum þúsunda fyrir venjulegan heimilisbíl. Eða jafn sárasaklaust og 2% söluskattur sem nú er 25,5% virðisaukaskattur.

Í atvinnumálastefnu vinstri grænna segir í kafla um ferðaþjónustu þar sem stefnt er að því að skapa „3.800-4.300 störf í ferðaþjónustu og tengdum greinum“:

„400 störf vegna aukinna ferðalaga Íslendinga um eigið land Hvernig? Með bættum og auknum samgöngum innanlands, auknum hótel- og gistihúsarekstri, veitingahúsarekstri á landsbyggðinni og auknu menningarstarfi.“

Og svo:

„200 störf í samgöngum innanlands. Hvernig? Með auknu jafnvægi í atvinnusköpun og fólksfjölda milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins ættu að skapast skilyrði fyrir auknar flug- og landsamgöngur innanlands. Aukin ferðalög Íslendinga um eigið land örva einnig samgöngustarfsemi og bæta afkomu samgöngufyrirtækja.“

Ástæðulaust fyrir vinstri græna að láta stefnuna í ferðaþjónustu standa eina ósvikna.