Mánudagur 13. júní 2011

164. tbl. 15. árg.

S ennilega er landið ekki alveg sokkið svo djúpt enn, þrátt fyrir vinstristjórn og samfellda „hlutlausa“ umfjöllun Ríkisútvarpsins um þjóðfélagsmál, að mörgum þætti í lagi ef sett yrðu lög þess efnis að allir þeir sem keypt hefðu íbúð á síðustu árum skyldu bótalaust afhenda seljanda íbúðarinnar eitt herbergi hennar til frjálsra afnota. Enn þætti líklega fæstum mikið réttlæti í því.

Hins vegar er landið svo djúpt sokkið að talsverður hópur fólks sér ekki að neitt sé að því, að hluti veiðiheimilda þess fólks, sem keypt hefur þær dýrum dómum með fullkomlega lögmætum hætti, sé tekinn af því og afhentur hópi manna til frjálsrar ráðstöfunar, oft þeim sömu og seldu þær.

Það er í stuttu máli hugsunin með „strandveiðunum“, sem vekja svo mikla lukku bæði hjá þeim sem á síðustu árum seldu aflaheimildir sínar en héldu bátunum, sem og álitsgjöfum í Reykjavík. Aflaheimildir eru teknar af þeim sem hafa keypt þær og afhentar öðrum, sem í mjög mörgum tilfellum eru sömu mennirnir og seldu þær áður.

Sumir segja að ekki megi byggja áfram á núverandi aflamarkskerfi, vegna þess að um það sé „ekki sátt“. Það merkilega er, að þeir sem svo tala eru yfirleitt þeir sömu og hafa hamast við það undanfarna áratugi að níða kerfið niður og ala á öfund í garð þeirra sem hafa rekið sjávarútvegsfyrirtæki með góðum árangri. Þeir, sem styðja kröfur sínar við þá röksemd að „sátt verði að ríkja um sjávarútvegsmálin“, hvað hafa þeir gert til að stuðla að slíkri sátt? Hafa þeir einhvern tímann reynt að auka sátt um fiskveiðistjórnina? Hafa þeir viðurkennt eitthvað af kostum núverandi kerfis?

Og er ekki öruggt að þeir séu að því leyti sjálfum sér samkvæmir, að þeir muni aldrei leggja til neina breytingu á kerfinu nema verulegar líkur séu á að meiri „sátt“ verði um hana en núverandi kerfi?