Helgarsprokið 12. júní 2011

163. tbl. 15. árg.

H inar sorglegu umræður um kirkjuna og „mál Ólafs Skúlasonar“ sem svo eru nefnd í einu lagi, eru á ýmsan hátt dæmigerðar fyrir margt í íslenskri þjóðmálaumræðu. Tilfinningahiti, stór orð og horft fram hjá óspennandi grundvallaratriðum, eru algeng krydd í íslenska umræðu.

Ekki vill Vefþjóðviljinn tala mikið um „biskupsmál“ kirkjunnar, þótt leggja megi svolítið út af þeim frá almennu sjónarmiði. Hann getur nefnilega ekki frekar en aðrir vitað fyrir víst hvað gerðist eða gerðist ekki milli Ólafs og þeirra sem borið hafa hann sökum. En í því atriði er hins vegar fólgið ákveðið grundvallaratriði sem margir virðast alls ekki vilja hafa með í jöfnunni þegar rætt er um biskupsmál eða hvað kirkjan átti að gera eða gera ekki.

Grundvallaratriðið er þetta: Sakir voru ekki sannaðar á manninn og hafa ekki enn verið sannaðar að þeim kröfum sem hver sakborningur myndi vilja að gerðar væru. Þótt margir hafi eflaust sem einstaklingar gert upp með sjálfum sér hvorum beri að trúa, þá er allt annað mál hvað stofnanir geta gert. Og annað grundvallaratriði er þetta: Ásakanirnar voru ekki studdar gögnum sem hefðu getað varpað ljósi á það hvort rétt, rangt eða jafnvel hvort tveggja væri borið. Þegar bornar eru fram mjög alvarlegar ásakanir um saknæma hegðun, sem sagt er að hafi farið fram fyrir tæpum tveimur áratugum, engin sönnunargögn eru lögð fram en hlutaðeigandi sakborningur neitar eins og hann er langur til, hvað á þá að gera? Hvaða skyldur hafa þær stofnanir, sem sakborningurinn kann að starfa hjá, þá til „meðferðar málsins“?

Þetta er það sem vantar svo oft í íslenska umræðu. Mörgum finnst mjög skemmtilegt að æpa „kirkjan brást!“ og svo framvegis, en hvernig myndi hún hljóða almenna reglan sem þeir viltu að giltu í málum sem þessum? „Nú eru bornar fram ásakanir á hendur opinberum starfsmanni um meingerð sem hann er sagður hafa framið fyrir tæpum tveimur áratugum, hann neitar sök, og enginn vitnisburður annars en kærandans eru lögð fram, og skal þá stofnun sú sem hann starfar hjá…“ – Ja gera hvað? Getur kannski verið að hinn leiðinlegi sannleikur sé sá, að við þessar aðstæður sé ekkert frekar formlega hægt að gera í málinu? Með því er þó alls ekki sagt að viðbrögð þáverandi kirkjuforystu og nánustu stuðningsmanna hennar árið 1996 hafi verið í lagi. Það virðist til dæmis augljóst að mjög hart hafi verið gengið fram til varnar og þá ekki síst gagnvart þeim prestum sem vildu að kærendur fengju að koma sinni hlið málsins á framfæri með eðlilegum hætti.

En þegar kemur að því að ákveða hvaða meginregla eigi að gilda, mega menn ekki láta hafa áhrif á sig hvort svo hittist á að þeir trúa eða trúa ekki ásökunum á hendur þessum tiltekna biskupi eða hvort þeir eru hlynntir eða andvígir kirkjunni. Hvaða almenna regla á að gilda, við meðferð slíkra ásakana? Hvað ef þetta hefði ekki verið kirkjan heldur Samkeppniseftirlitið, Siglingamálastofnun, Veðurstofan eða Árnastofnun? Eða ber kirkjan meiri skyldur af því að hún er kirkja? Þetta eru allt grundvallaratriði sem mætti ræða, en virðast svo sjaldan vera rædd í upphrópanaumræðuhefðinni.

Annað dæmigert tengist núverandi biskupi Íslands. Fyrir ári hömuðust fjölmiðlar, þó fyrst og fremst kastljós Ríkissjónvarpsins á honum og kröfðu hann um ýmsar yfirlýsingar og héldu síðan úti vangaveltum um hvort hann hefði talað „nægilega“ skýrt. Nú kemur skýrsla rannsóknarnefndar, og ef menn taka mark á henni, sem Vefþjóðviljinn segir ekkert um hvort rétt sé að gera, þá hljóma „mistök“ Karls Sigurbjörnssonar í fljótu bragði ekki mjög alvarlega og virðast í litlu samræmi við fjölmiðlaákefðina í fyrra. En ætli einhver fjölmiðill leggi málin þannig upp? Er það ekki ólíklegt? Er ekki miklu vænlegri uppsláttur að segja að Karl hafi gert „mistök“, og fá svo einhvern til að segja að hann eigi að „axla ábyrgð“?

Og alveg óháð þessum kirkjumálum: Hvaða ábyrgð bera fjölmiðlamenn almennt á framgöngu sinni? Ætli til dæmis fréttamenn og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins telji sig hafa frítt spil? Að þeim hafi verið afhentir fréttatímar, fréttaskýringaþættir og umræðuþættir til frjálsrar eignar? Ætli þeim verði oft hugsað til þess að þeir starfa á ríkisfjölmiðli, að hver einasta kennitala í landinu sé skattlögð sérstaklega til að reka stofnunina sem þeir starfa hjá, og að þeir eru í öllum sínum störfum undir sérstökum lagafyrirmælum um hlutleysi? Hversu oft hefur það gerst að starfsmaður Ríkisútvarpsins hafi sætt ábyrgð vegna brota á hlutleysisreglum? Í hvert sinn sem mál er tekið í fréttir eða ekki tekið í fréttir, í hvert sinn sem valdir eru viðmælendur eða ákveðið er að tala ekki við einhvern málsaðila, þá er fréttamaður eða stjórnandi þáttar að taka ákvörðun sem verður að standast þau lög sem Ríkisútvarpið starfar eftir. Hvernig ætli þeim myndi reiða af, ef þeim yrði einn daginn gert að leggja verk sín í smásjárrannsókn rannsóknarnefndar? Ætli kynni að vera að einhver þeirra reyndist hafa „gerst sekur um mistök og vanrækslu“?

Það getur varla verið. Hversu oft hefur Ríkisútvarpið viðurkennt nokkuð slíkt um sig eða starfsmenn sína? Varla þurfa menn að efast um að útvarpsstjóri sé á vaktinni. Hann ber mesta ábyrgð allra starfsmanna stofnunarinnar. Hann veit vel að einhvern tíma kemur að því að hans störf á vaktinni verða metin. Hann virðist telja allt í miklum sóma á stofnun sinni. Rétt eins og prófastarnir.