Laugardagur 11. júní 2011

162. tbl. 15. árg.

V efþjóðviljinn þarf að hreinsa úr eyrunum, bæði eigin og annarra reyndar. Hann hefur alveg misst af húrrahrópunum yfir sjávarútvegsfrumvörpum ríkisstjórnarinnar. Þau óma vafalaust þarna úti þótt enginn virðist hafa heyrt þau.

Hvernig mætti annað vera en að fagnaðarbylgja fari um landið og miðin? Er núverandi skipan ekki „mesta óréttlæti Íslandssögunnar“, „þjófnaður aldarinnar“? Var „þjóðin“ ekki „rænd frumburðarrétti sínum“? Er ekki „lénskerfi sægreifa“ við lýði?

Þeir sem leggja til breytingar á slíku ástandi, nær sama hverjar þær eru, hljóta að njóta stuðnings hvarvetna.

En nú er þó svo komið að með frumvarpi sínu um sjávarútvegsmál er ríkisstjórnin nær því en nokkru sinni að riða til falls. Það sem er að gerast í þingheimi er það sem Egill ætlaði á efri árum með silfrinu. Í stað silfursins eru komnir „samfélagspottar“ með fiskveiðiheimildum sem þingmenn slást nú um.

Venjulegur landsbyggðarþingmaður er nú undir gríðarlegum þrýstingi úr kjördæmi sínu um að standa sig nú í þeim slagsmálum sem eru um bitana úr „samfélagspottunum“ en þeir munu einkum ætlaðir þeim sem hafa í gegnum tíðina selt veiðiheimildir sínar en vilja nú komast aftur inn í kerfið á „samfélagslegum“ forsendum.