A uðvitað samdi stjórnarandstaðan við ríkisstjórnina um þinglok. Hún gerir það alltaf. Hún semur alltaf við ríkisstjórnina þegar ríkisstjórnin vill.
Yfirleitt fær stjórnarandstaðan ekkert í samningunum. Nú fékk hún þó eitthvað. Hún náði út því sem óvinsælast hefði orðið í öðrum frumvörpum en sjávarútvegsmálum. Sjávarútvegsmálin halda áfram sína leið með því að skattar á sjávarútveginn hækki „aðeins“ um helming.
Ríkisstjórnin hefur komið öllum sínum hugðarefnum áfram. Það er búið að sækja um aðild að Evrópusambandinu, skattar hafa verið hækkaðir og aðrir endurvaktir, kosið var til stjórnlagaþings og þegar kosningunni var klúðrað var bara breytt um nafn á þinginu en annað haft óbreytt. Alþingi samþykkti Icesave þrisvar, það þurfti andstöðu utan þings til að stöðva það flan. Öllum málum sínum nær ríkisstjórnin fram.
Nú þarf auðvitað ekki að vera óeðlilegt að ríkisstjórn nái málum fram. Hún hefur meirihluta, meirihlutinn ræður. Það er hins vegar þannig að stjórnarandstaða hefur alltaf, þar til á þessu kjörtímabili, náð að setja mark sitt á framgang mála. Sumum málum er breytt í grundvallaratriðum, um önnur er samið, sum eru tekin í hreina gíslingu til að knýja fram samninga. Stundum fær stjórnarandstaða einhver af sínum málum í gegn, eða að minnsta kosti til endanlegrar atkvæðagreiðslu, gegn því að semja um framgang stjórnarfrumvarpa. Sum mál fara svo í gegn þrátt fyrir eindregna baráttu stjórnarandstöðunnar.
Nú virðist hins vegar sem stjórnarandstaðan semji og semji, en fái aldrei neitt í staðinn sem raunverulegu máli skiptir. Meira að segja eftir að ráðherrar standa fyrir því að Geir Haarde er sendur fyrir landsdóm, þá er samið. Sjálfstæðisflokkurinn hikar ekki við að semja við þá menn sem það gerðu. Ætli vissan um að sú yrði raunin hafi gert ráðherrunum þá ákvörðun sína auðveldari?