Þriðjudagur 7. júní 2011

158. tbl. 15. árg.
Segir ákæruna tilefnislausa. Sér hins vegar ekkert að því að menn, sem gefa út „tilefnislausa“ ákæru á hendur pólitískum andstæðingi, sitji í ríkisstjórn. Einn þeirra sé jafnframt ráðherra lögreglu og réttarfars. „Fréttamenn“ spyrja einskis.

Í dag verður enn einn minnisvarðinn reistur um það ástand sem skapað var í landinu haustið 2008 og mánuðina þar á eftir. Þar sem vinstriöflin innan og utan Ríkisútvarpsins kyntu undir en borgaraleg öfl hættu á sama tíma alfarið að bera hönd fyrir sig og sína. Pólitísk réttarhöld yfir föllnum andstæðingi valdhafanna eru í takti við þá hugaróværu sem sleppt var lausri, ýtt undir og hluti þjóðfélagsins er enn sýktur af.

Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að fjalla hér um efnisatriðin í landsdómsmálinu. Það gerði hann á sínum tíma og má vísa til þess hér. En svolítið annað vill hann minnast á.

Jóhanna Sigurðardóttir greiddi atkvæði gegn landsdómsákæru á Geir Haarde. Allir ráðherrar vinstrigrænna studdu hins vegar að Geir yrði ákærður. Eftir að meirihluti alþingismanna hafði ákveðið að Geir skyldi ákærður ræddi Ríkissjónvarpið við Jóhönnu. Hún sagðist ósátt við niðurstöðuna og að ekkert tilefni hefði verið til að ákæra Geir. Næst var hún spurð um ríkisstjórnarsamstarfið og, eins og alltaf, sagði hún þessa atburði engin áhrif hafa á það. Það er auðvitað alvarlegur hlutur að gefa út ákæru á hendur einstaklingi. Ef að það er gert að tilefnislausu þá er það gríðarlega alvarlegt mál. Ríkissjónvarpið á auðvitað þetta viðtal við forsætisráðherra. Hvernig væri nú að fréttamenn vöknuðu og fjölluðu um það, að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur sem ráðherra hjá sér menn, sem hún telur hafa látið ákæra mann að tilefnislausu. Hvernig stendur á því að svokallaðir fréttamenn láta eins og þeir sjái þetta ekki. Ef að Jóhanna taldi í raun að tilefnislaust væri að ákæra Geir, þá átti hún að sjálfsögðu að vera maður til að vísa úr ríkisstjórn þeim mönnum sem létu að tilefnislausu ákæra manninn.

S igmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist í gær vera stoltur af því að hafa greitt atkvæði gegn ákæru á hendur Geir. Sú ákvörðun að ákæra hefði verið „röng og lítilmannleg“. Það er rétt hjá Sigmundi. Og verður ekki að ætla að þingmaðurinn meini það sem hann segir, og hann muni ekki lengur verja á ráðherrastóli þá menn sem láta ákæra pólitískan andstæðing með röngum og lítilmannlegum hætti?

V efþjóðviljinn ítrekar það sem hann sagði þegar málið var til meðferðar á alþingi. Það er lágmarkskrafa að þeir þingmenn sem stóðu að því að ákæra Geir leggi eigið þingsæti að veði. Verði Geir sýknaður segi þeir þingmenn allir af sér þingmennsku.

M eðal þess sem komið hefur á óvart í atlögunni að Geir er að hið opinbera hefur opnað vefsíðu um málið, og annast saksóknari meirihlutans þá síðu. Á alþingi var Jóhanna Sigurðardóttir spurð um þetta og sá ekkert að því, en taldi að Geir ætti að fá að koma efni á síðuna af sinni hálfu.

Hér er enn eitt ruglið á ferðinni. Dómsmál á að sækja og verja í réttarsalnum. Saksóknarinn á ekki að sinna kynningarstarfi eins og þessu og það verður ekki réttlætt við það að Geir fái að koma efni á síðuna. Geir er einstaklingur sem þarf að verja sig fyrir ákæru og á ekki að þurfa að standa í því að verja sig fyrir saksóknara annars staðar en í réttarsalnum. Saksóknarinn mætti ekki kynna málið sjálft eða málstað sinn með bíóauglýsingum, jafnvel þótt ríkið byðist til að kaupa líka auglýsingar fyrir Geir.