Fyrir viku efndu vinstri-grænir til flokksráðsfundar þar sem allt lék á reiðiskjálfi vegna óánægju með Steingrím J. Sigfússon sem þótti flytja lélega ræðu. Pólitískt fréttamat RÚV var þá á þann veg að mikill einhugur ríkti meðal vinstri-grænna. Þarna var augljóslega um einhliða áróður Steingríms J. og hans manna að ræða. Illdeilur voru síður en svo settar niður meðal vinstri-grænna á þessum fundi. |
– Björn Bjarnason á heimasíðu sinni 29. maí 2011. |
V instrigrænir héldu flokksráðsfund á dögunum. Eins og Björn Bjarnason lýsir gaf Ríkisútvarpið þá mynd af fundinum að þar ríkti eindrægni og samhugur. Ekkert væri að frétta af fundinum nema glansmyndin ein. Meðal þess sem fréttamanni Ríkisútvarpsins þótti ekki eiga erindi við áhorfendur voru þau orð Steingríms J. Sigfússonar að „venjulegt fólk“ hefði ekki orðið fyrir „eignabruna“ vegna bankagjaldþrotsins. Ríkisútvarpinu þótti ekki heldur fréttnæmt að lagt hefði verið til að fundurinn lýsti „eindregnum stuðningi“ við ríkisstjórnina en eftir harðar umræður hefði orðið „eindregnum“ verið fellt út, með átján atkvæðum gegn sautján á hinum glæsilega fundi.
Það er hins vegar ekkert nýtt að Ríkisútvarpið sé yfir sig hrifið af landsfundum vinstrigrænna. Í bók sinni, Fjölmiðlum 2007, fjallar Ólafur Teitur Guðnason á bls. 82 um fréttaflutning Ríkisútvarpsins af landsfundi þeirra fyrir alþingiskosningarnar 2007:
Fréttastofa Sjónvarpsins fór á hinn bóginn ekki leynt með aðdáun sína á vinstri grænum. „[F]yrir fundinum liggja metnaðarfull drög um „Græna framtíð“, rit um sjálfbæra þróun,“ sagði Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir á fimmtudag í síðustu viku og verður fróðlegt að sjá hvort landsfundarplögg hinna flokkanna verða einnig talin metnaðarfull.
Daginn eftir talaði Jóhanna beint af landsfundinum og sagði: „Ja, ég myndi segja það Páll að Steingrímur gaf myndi ég segja bullandi baráttutón hér á þessum fundi og blés til stórsóknar fyrir vinstri græna fyrir alþingiskosningarnar í vor. Hann minnti um margt kannski á fyrirliða eða þjálfara liðs í síðasta leikhléi sem hvetur fólk til dáða sem aldrei fyrr. Það er gríðarlegur baráttuandi hérna á fundinum og það er mikil stemning.“ Daginn eftir, á laugardag: „Andstaðan við stóriðjustefnu er samofin flokknum og mikil samstaða og baráttuandi einkennir þennan fimmta landsfund vinstri grænna.“ Og á sunnudag: „Gríðarleg samstaða einkenndi þennan fimmta og langstærsta landsfund vinstri grænna þar sem sóknarhugur fyrir alþingiskosningarnar í vor ríkti.“ |
Það þarf auðvitað ekki að taka fram, að Fjölmiðlar 2007 fást í Bóksölu Andríkis, eins og fimmta hver metsölubók landsins nú um stundir.