Helgarsprokið 5. júní 2011

156. tbl. 15. árg.

Á lista Bókaverslunar Sigfúsar Eymundssonar yfir tíu mest seldu bækur á landinu eru nú tvær sem einnig má fá keyptar í Bóksölu Andríkis. Eru það hin ógleymanlega Engan þarf að öfunda, sem lýsir daglegu lífi fólks undir alræðisstjórninni í Norður-Kóreu, og hin umtalaða bók Björns Bjarnasonar, Rosabaugur yfir Íslandi, sem fjallar um gerningaveður Baugsmálsins á Íslandi og andrúmsloftið sem þá var skapað.

Bók Björns er nú sem stendur söluhæsta bók landsins og er óhætt að fullyrða að lesendur hennar verða ekki sviknir. Höfundur hefur fyrir fram afmarkað umfjöllunarefni sitt skýrt og fjallar um það með ákaflega læsilegum, skýrum og greinargóðum hætti, sem hann sækir líklega fremur úr langa reynslu sína sem blaðamaður en stjórnmálamaður. Björn byggir frásögn sína á heimildum sem birst hafa opinberlega. Hvað sögðu menn opinberlega, í greinum, þáttum og viðtölum. Hvaða mynd var haldið að almenningi? Hvaða andrúmsloft var reynt að skapa? Hvað fullyrtu álitsgjafarnir? Hvernig beittu stjórnmálamenn sér á alþingi? Hann fjallar hins vegar lítið um efnissmáatriði sakamálsins sjálfs og ekki um hvað hafi farið fram í réttarsölunum, hvað vitni mundu eða mundu ekki, og ekki hvað lögmenn, sækjendur eða dómarar hafi þar sagt. Þetta fellur einfaldlega utan þess ramma sem Björn setti sér, svo enn er þar óplægður akur fyrir sagnfræðinga, lögfræðinga og aðra sem kunna að vilja bregða enn frekari birtu á þessi örlagaár í nýliðinni Íslandssögu.

En í bókinni eru ýmsar smáar athugasemdir sem rifja upp áhugaverð atriði eða þá vekja athygli lesanda sem hefur misst af þeim á sínum tíma. Á einum stað er stuttlega minnst á ásakanir sem settar voru fram um hleranir og rifjað upp að Jón Baldvin Hannibalsson fullyrti opinberlega að sími sinn í utanríkisráðuneytinu hefði verið hleraður. Málið var rannsakað og ekkert kom fram sem studdi þá kenningu. Í kjölfar Jóns Baldvins kom lítt þekktur lögfræðingur sem hafði starfað með honum, Árni Páll Árnason að nafni, og fullyrti að sími sinn hefði einnig verið hleraður, þótt ekki hafi fylgt sögunni hver hafi verið líklegur til að vilja hlera hann. Birni sést hins vegar ekki yfir samhengi hlutanna, þótt fréttamenn þess tíma hafi auðvitað ekkert skilið, og segir á bls. 323: „Árni Páll komst oft í fréttir og fjölmiðlaviðtöl vegna þessa en um sama leyti tók hann þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi. Gengið var til prófkjörsins þar 4. nóvember 2006.“

En slíkir fróðleiksmolar eða skilningsaukar eru auðvitað ekki þungamiðja bókarinnar heldur frekar eins og rúsínur í jólaköku. Bókin er þannig úr garði gerð, og svo vandlega unnin, að enginn, sem skilja vill íslenskt þjóðfélag, þjóðmálaumræðuna og reiptog umsvifamikilla viðskiptamanna og skrifstofumanna hins opinbera, getur leyft sér að kynna sér hana ekki gaumgæfilega. Það er því ekkert undarlegt við það að hún seljist nú mun betur en heitar lummur.

Hin bókin sem einnig má finna bæði í Bóksölu Andríkis og metsölulistum Eymundsson, er ekki síður merkileg þótt gerólík sé. Hún segir frá því lífi sem milljónir manna verða að gera sér að góðu enn í dag. Í Norður-Kóreu hefur ríkið náð öllum völdum til sín og embættismenn mega skipuleggja næstum allar hliðar daglegs lífs borgarans. Auðvitað er það alltaf sagt gert honum til hagsbóta, til að gæta heilsu hans, menntunar, lífsgæða og svo framvegis. En afleiðingin verður auðvitað sú, að einstaklingurinn hættir að verða einstaklingur og breytist i tannhjól ríkisvélarinnar. Þess vegna reynist stjórnarherrunum líklega svo auðvelt að horfa fram hjá hungursneyð, örbirgð og nær algerum efnislegum lífsgæðaskorti milljóna manna, sem þeir segjast bera fyrir brjósti.

Bókin Engan þarf að öfunda er þörf áminning um hvert algert vald ríkisins yfir daglegu lífi leiðir. Engum vitibornum manni dettur í hug að líkja Íslandi við Norður-Kóreu, eða íslenskum ráðamönnum við þá í Norður-Kóreu. Engu að síður er ákaflega mikilvægt, bæði á Íslandi og annars staðar á Vesturlöndum, að berjast gegn útþenslu ríkisins og sívaxandi tilrauna stjórnarherranna til að skipuleggja daglegt líf borgaranna. Leiðin til ánauðar er vörðuð fögrum fyrirheitum.