Laugardagur 4. júní 2011

155. tbl. 15. árg.
Femínistafélagið undrast jafnframt að á 21. öldinni sé verið að setja reglur um og íhlutast um klæðaburð kvenna.
– Úr ályktun Femínistafélagsins um reglur um klæðaburð í badminton.

Í keppnisíþróttum hefur löngum tíðkast að mótshaldarar setji einhvers konar reglur um búninga og annan útbúnað keppenda. Samherjar á knattspyrnuvöllum eiga til að mynda oftar en ekki að vera í eins búningum. Það má auðvitað segja að það sé íhlutun um klæðaburð liðsmanna en þá ber um leið að hafa í huga einn höfuðkost íþrótta: aðalatriðið er ekki að vinna heldur að þurfa ekki að vera með.

Þeir leikmenn Víkings sem vilja vera við öllu búnir og spila í þverröndóttum kafarabúningi geta bara gert það einhvers staðar annars staðar en í Pepsídeildinni eða bara beðið þess að liðið fari niður.

Stjórn Alþjóðabadmintonsambandsins hafði ákveðið að taka upp nýjar reglur um klæðaburð sem áttu að taka gildi 1. júní. Reglurnar gerðu ráð fyrir að konur klæddust pilsum eða kjólum í keppni. Gildistöku reglnanna hefur nú verið frestað vegna mikillar gagnrýni. Stjórnin ætlar að leggja fram tillögur að nýjum reglum í desember.

Femnístafélagið hér á landi skoraði að þessu tilefni á stjórn Badmintonsambands Íslands að beita sér gegn þessum reglum því það standist ekki á 21. öldinni að setja reglur og íhlutast um klæðaburð kvenna.

Það er auðvitað fagnaðarefni að íslenskir femínistar skuli alfarið andvígir reglum um klæðaburð kvenna. Mun skammt að bíða ályktunar félagsins þar sem femínistar undrast hvers kyns íhlutun og reglur um klæðaburð kvenna sem iðka sína íþrótt við súlu á skemmtistöðum.