Miðvikudagur 20. apríl 2011

110. tbl. 15. árg.

Ö ssur Skarphéðinsson, hinn glæsilegi utanríkisráðherra, lagði til í vikunni að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnkerfi sjávarútvegarins. Samfylkingin var þá nýbúin að tapa Icesave-málinu einu sinni enn, og Evrópusambandsdraumurinn orðinn enn fjarlægari en áður. Og þar sem Samfylkingin verður að hafa eitthvert sértrúarmál í gangi til að beina athygli flokksmanna frá forystunni, skellti Össur fiskveiðistjórnuninni fram.

Hvernig væri að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort menn vilji hafa Össur Skarphéðinsson sem utanríkisráðherra?

Deilurnar um fiskveiðistjórnun eru sígilt meinlokumál, enda hefur núverandi kerfi reynst svo vel að sjávarútvegur hefur blómstrað í landinu eftir að það var tekið upp. Slíkum uppgangi fylgir hins vegar jafnan hópur fólks með Réttlætiskennd, sem finnst að réttlæti væri einmitt að það fengi stærri hluta af ágóðanum. Fiskimiðin séu nefnilega „sameign íslensku þjóðarinnar“.

En hvaðan kom hugtakið „sameign íslensku þjóðarinnar“, sem meinlokumenn nota til að nota til að knýja Réttlætiskennd sína? Jú, það hugtak kom fyrst í hinum hötuðu kvótalögum. Lögin um aflamarkskerfið og „sameign þjóðarinnar“ eru sömu lögin. Sú staðreynd ætti að sýna flestum það grundvallaratriði, að kvótakerfið og hugtakið „sameign þjóðarinnar“ eru ekki andstæður. Með hugtakinu sameign þjóðarinnar, er átt við að skipuleggja skuli veiðar þannig að komi landi og þjóð vel. Og það er gert með kvótakerfi, sem fallið er til þess að hámarka arðsemi sjávarútvegsins, og hefur tekist svo vel að víðar og víðar um heiminn er kerfið talið til algerrar fyrirmyndar.

Ó lafur Ragnar Grímsson hlýtur að bjóða Uffe Ellemann Jensen og Mogens Lykketoft til veislu á Bessastöðum næst þegar þeir koma hingað í laxveiði. Ef á annað borð er mögulegt er að tryggja endurkjör Ólafs á næsta ári hafa þeir félagar gert það.