Þriðjudagur 19. apríl 2011

109. tbl. 15. árg.

R íkisútvarpið er með Sigrúnu Davíðsdóttur á launum sem fréttaritara í Lundúnum, væntanlega til að bæta viðskiptajöfnuðinn við Bretland. Reglulega flytur Sigrún landsmönnum sérlega óvandaða pistla í Speglinum og mætir svo í einn af sjónvarpsþáttum Egils Helgasonar til að endurtaka þá. Ef yfirmenn Ríkisútvarpsins hlusta nokkru sinni á þessa pistla er óskiljanlegt að þeir hafi nýlega fengið Sigrúnu það hlutverk að ræða við Alistair Darling fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, manninn sem átti þátt í að beita lagaheimildum um hryðjuverkavarnir gegn Íslendingum. Darling tók jafnframt þátt í því sem The Wall Street Journal hefur réttilega nefnt tveggja ára samfelldan rógburð breskra stjórnvalda um Ísland. Sigrún spurði Darling hvorki hvort hann teldi ríkisábyrgð á innstæðum í Evrópu né hvort Bretar teldu sig hafa gert rétt í því að nota lagaheimildir gegn hryðjuverkastarfsemi til að frysta eigur íslenska ríkisins og setja Íslendinga á bás með Al Qaida.

Eitt það versta við þessa pistla í Speglinum er að þar hefur Sigrún þrástagast á því að Íslendingar skuldi eitthvað vegna Icesave. Svonefnd Icesave-skuld Íslendinga er henni mjög hugleikin.

Ætla mætti að þegar Alþingi hefur í þrígang reynt að setja lög sem gera ríkissjóð Íslands ábyrgan fyrir Icesave innstæðum í Landsbankanum myndi sæmilega skynuga manneskju renna í grun að fyrr en Alþingi tekst það óhappaverk þá skulda Íslendingar nákvæmlega ekkert vegna Icesave.

Þegar svo við bætast tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um samninga þess efnis að Íslendingar taki á sig einhverjar skuldbindingar vegna Icesave þarf talverðan þráa til að halda áfram að reyna að klína þessum skuldum á alla Íslendinga. Mikill meirihluti Íslendinga hefur tvívegis á rúmu ári afþakkað slíkt boð.

En þetta dugar Sigrúnu Davíðsdóttur ekki. Í gærkvöldi hélt hún ótrauð áfram tilraunum sínum í Speglinum til að maka skuldum Landsbankans og Tryggingasjóðs innstæðueigenda á Ísland og Íslendinga.

Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefur Ólafur Ragnar Grímsson forseti sagt umheiminum að niðurstaðan þýði ekkert að Ísland ætli ekkert að borga.

Vefþjóðviljinn kannast bara alls ekki við að forsetinn hafi sagt þetta. Hann hefur þvert á móti reynt að benda umheiminum á að Icesave reikningurinn sé ekki mál Íslands heldur þrotabús Landsbankans. Forsetinn og að því er virðist fjármálaráðherrann einnig síðustu dagana hafa gert heiðarlegar tilraunir til að benda mönnum á að skuldarinn – þrotabú Landsbankans – muni vonandi greiða Bretum og Hollendingum það sem þeir lögðu innstæðueigendum á Icesave til haustið 2008. Um þetta segir Sigrún:

Hugum aðeins nánar að þessari fullyrðingu; Icesave verður borgað. Með því að fullyrða það eru íslensk yfirvöld að viðurkenna að þetta sé útistandandi skuld.

Hvernig er hægt að láta svona?

Er Sigrún nokkuð sakbitin yfir því að hafa gengið á milli forstjóra útrásarfyrirtækjanna á vegum Viðskiptaráðs fyrir hrun og fært í letur spekina um glæsilegan árangur þeirra og hvernig íslenska viðskiptaofurmennið hefði með sínu íslenska ofurhugrekki og djörfung lagt breskt viðskiptalíf undir sig?