Mánudagur 18. apríl 2011

108. tbl. 15. árg.

Í dag bætist ný bók í Bóksölu Andríkis. Ber hún nafn sem hefur sennilega ekki verið samið með hjálp þverfaglegra rýnihópa byggðum á slembivali markaðssérfræðinga. Bókin nefnist Fórnarlambakúltúrinn og í henni fjallar David G. Green, forstöðumaður bresku hugveitunnar Civitas, um það hvernig pólitískur rétttrúnaður grefur undan frjálslyndishefð vestrænna lýðræðisríkja, með þeirri aðferð að fleiri og fleiri hópar eru nú taldir fórnarlömb þessa eða hins, og gera kröfu um bómullarmeðferð. Sumir vilja ívilnanir, sumir vilja stjórna því hvernig öðrum leyfist að tala um þá, en flest „fórnarlömbin“ vilja einhverja sérmeðhöndlun sem öðrum býðst ekki. Þessari stuttu en þörfu bók er ætlað að vekja til umhugsunar um þessa þróun.

Þegar George Orwell dró upp sína ógnvekjandi mynd af alræðisríki framtíðarinnar, var þar margt sem vakti óhugnað. Eitt af því var hugsanalögreglan sem fór um og tók menn fyrir hugrenningaglæpi. Sem betur fer hefur slík lögregla ekki enn hafið störf, en menn ættu að velta því fyrir sér hvort það sé fremur fyrir hógværð eftirlitssinna eða vegna þess að tæknin hleypir yfirvöldum ekki enn inn í huga borgaranna. En þótt hugsanalögreglan sé enn aðeins til í bókum, þá má segja að litla systir hennar, Fordómaeftirlitið, sé tekið til starfa og byrji af krafti. Það eftirlit sinnir gæslu um vissa hópa en lætur aðra að vísu alveg óvarða. Þeir sem verða fyrir því að nota röng orð um þá hópa sem eru í gæslu eftirlitsins, eða tala um þá af „fáfræði“, þurfa ekki að kemba hærurnar. Öruggast er að tala bara illa um stjórnmálamenn. Þar leyfist allt. Þá komast menn jafnvel í viðtöl.

Fórnarlambakúltúrinn er ekki löng bók, 132 blaðsíður með tilvísanaskrá, en hún fjallar um mál sem óhætt er að velta fyrir sér. Þeim fjölgar nefnilega sífellt fórnarlömbunum sem þarf að verja, enda vinnur fólk margt óþarfaverkið af góðum hug. Fórnarlambakúltúrinn kostar 1.990 krónur í Bóksölu Andríkis og er heimsending innanlands innifalin í verðinu, eins og ætíð í Bóksölunni. Ofan á pantanir út í heim bætist 600 króna sendingargjald.

Pantanir í dag munu að öllu jöfnu berast mönnum innanlands fyrir páskahelgina.