T vær greinar í Morgunblaðinu í vikunni snérust hvor á sinn hátt um sveitarfélög landsins og framtíðina. Á fimmtudaginn vakti Agnar Tómas Möller athygli á því að Reykjavíkurborg hefur frá árslokum 2009 fjármagnað rekstur sinn að hluta með lánsfé sem greiða á til baka með afborgunum fram yfir miðja öldina. Leikskólapláss í dag er með öðrum orðum fjármagnað með láni sem greiða þarf af árið 2053. Þegar leikskólabarn ársins 201l nálgast fimmtugt mun það greiða útsvar til Reykjavíkurborgar vegna leikskólavistar sinnar. Kannski mætti nefna þetta kerfi pay-as-you-grow.
Um þessa veðsetningu æskunnar segir Agnar:
En það eru þó ekki öll sveitarfélög sem fjármagna sig í gegnum Lánasjóð sveitarfélaga heldur fjármagna sum sig beint með skuldabréfaútgáfu á markaði. Þeirra á meðal er Reykjavíkurborg sem hefur frá lokum árs 2009 gefið út skuldabréf að fjárhæð um 6,5 ma að markaðsvirði á 4,11% raunvöxtum að meðaltali. Það sem er hins vegar ólíkt með útgáfu Reykjavíkurborgar og öðrum útgáfum sveitarfélaga er að bréf Reykjavíkurborgar er til ársins 2053! Til samanburðar er lengsta skuldabréf útgefið af Íbúðalánasjóði til ársins 2044 og því er skuldabréf Reykjavíkurborgar langtum lengra en öll önnur skráð íslensk verðtryggð skuldabréf.
Þetta þýðir með öðrum orðum að fyrir hverja krónu sem Reykjavíkurborg tekur að láni í dag í gegnum fyrrgreint skuldabréf munu skattgreiðendur framtíðarinnar, allt fram til ársins 2053, greiða til baka 2,15 krónur, á föstu verðlagi. Það er ekki víst að þeir borgarfulltrúar sem taka við þessum fjármunum í dag átti sig á hvert tímavirði þeirra er á föstu verðlagi, sem er sem fyrr segir afleiðing af lengd skuldabréfsins sem og gríðarlega háu raunvaxtastigi á Íslandi. Hvati borgarfulltrúa til að spara í rekstri eða skera niður í starfsemi borgarinnar hlýtur að minnsta kosti að vera nægur í ljósi byrðanna sem íbúar Reykjavíkur framtíðarinnar munu þurfa að taka við. Á sama hátt og umræða hefur verið um að setja sveitarfélögum takmörk við lántöku í erlendri mynt mætti ef til vill velta því upp hvort tímalengd lántöku sveitarfélaga séu líka settar skorður, því lengri lán fela í sér lægri greiðslubyrði þar sem höfuðstóll er greiddur hægar niður en að sama skapi margfalt hærri endurgreiðslu lánanna, mælt á verðlagi dagsins í dag. |
Á miðvikudaginn ritaði svo Gunnlaugur Jónsson grein þar sem hann vakti athygli á atlögu Kópavogsbæjar að leikskólanum Kjarrinu. Kjarrið er einkaframtak sem bæjarstjórnin ætlar nú að girða fyrir.
Foreldrar barna á Kjarrinu hafa velflestir valið Kjarrið vegna þess að þeim finnst Kjarrið henta sínum börnum best. Dæmi eru um að þeir hafi heimsótt marga leikskóla áður en þeir völdu Kjarrið.
Er það ekki yndislegt að foreldrar geti valið það sem börnum þeirra hentar? Er ekki hollt að leikskólinn geti staðið eins og klettur, þar sem leikskólakennararnir eru traustir vinir og leiðbeinendur, þangað til börnin þurfa að skipta um umhverfi og byrja að fóta sig í grunnskóla? Það er ekki skoðun bæjaryfirvalda í Kópavogi. Þeim finnst miðstýring betri hugmynd. Þeim finnst að þau eigi að velja fyrir börnin og foreldra þeirra. Þau vilja sameina Kjarrið öðrum stærri leikskóla, lækka laun starfsfólks og skapa þannig hættu á að börnin missi marga þá kennara sem þeim eru kærir. Kjarrið er nefnilega í einkarekstri og bærinn ætlar sjálfur að taka reksturinn yfir. Engu máli skiptir að foreldrar eru næstum allir á móti breytingunni. Engu máli skiptir að foreldrar eru flestir tilbúnir að borga hærri leikskólagjöld til að koma í veg fyrir rask. Ekkert er gert til þess að koma til móts við rekstraraðilann eða semja við hann á nýjum nótum. Svona er þetta: Kópavogsbær tekur peninga af okkur í formi útsvars því það er talið að hann muni fara betur með peningana en við. Svo ætlar hann í krafti peninganna að fara með hagsmuni barna okkar vegna þess að hann telur sig geta gert það betur en við. Eins og mörg önnur vonskuverk er þetta gert undir merkjum jafnaðar. Bæjarstjórnin vill ekki heyra hugmyndir eins og að foreldrar fari sjálfir með eigin peninga eða hagsmuni barnanna sinna. Því síður mega foreldrarnir leggja til eigin peninga til að geta boðið börnum sínum upp á betri leikskólavist. Það er talið brjóta í bága við jafnaðarhugsjónina, eins og fram kom á fundi bæjaryfirvalda með foreldrum. |
Þegar það liggur fyrir að bæði foreldrar og fólkið sem rekur skólann eru tilbúnir til að koma til móts við bæinn virðist sú eina skýring standa eftir að meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs hafi einfaldlega horn í síðu einkaframtaks og fjölbreytni í leikskólamálum.