Laugardagur 16. apríl 2011

106. tbl. 15. árg.
Leiddu hugann að umhverfinu áður en þú prentar út þennan tölvupóst. Ef nauðsynlega þarf að prenta, prentaðu þá báðar hliðar og í svarthvítu.
– Neðanmálsgrein sem fylgir tölvupósti frá starfsmönnum og kjörnum fulltrúum í borgarstjórn Reykjavíkur.

Ý msar opinberar stofnanir og virðuleg fyrirtæki hafa tekið upp á því að lengja tölvubréf sín með alls kyns blaðri í lokinn um að menn eigi að fara að lögum, virða trúnað og muna að þvo sér svo um hendurnar fái þeir tölvupóst fyrir mistök.

Þessu til viðbótar er í tísku að leggja að viðtakendum tölvubréfanna að vera nú ekki að prenta póstinn út því það sé slæmt fyrir umhverfið.

Með öllu þessu snakki næst í mörgum tilfellum að lengja bréf sem ella hefðu aðeins verið ein síða í útprentun í tvær.

Í lok mars var sagt frá því í The Wall Street Journal að umhverfisverndarsamtökin World Wildlife Fund hefðu nú þróað – eða öllu heldur vanþróað – tölvuskjal sem ekki er hægt að prenta út. Að minnsta kosti þarf meira en einn músarsmell til þess. Skógarbóndi og skógarvörður skrifuðu grein í blaðið um þetta og eru ekki mjög hrifnir af þessum framtaki.

Þegar skógarvörðurinn sendir tölvupóst fylgja þessi skilaboð neðanmáls:

Vinsamlega athugið: Það er allt í lagi að prenta þennan tölvupóst út. Pappír brotnar auðveldlega niður í náttúrunni, hann er framleiddur á sjálfbæran hátt úr endurnýjanlegri auðlind. Milljónir Bandaríkjamanna hafa atvinnu af ræktun og nýtingu skóga. Nytjaskógar eru umhverfinu í hag, þeir leggja til hreint loft og vatn, skapa skjól fyrir aðrar plöntur og dýralíf og binda kolefni. Vegna framfara í skógrækt eru nú fleiri tré í Bandaríkjunum en fyrir hundrað árum.

S eðlabankastjóri segist nú fara eftir plani B en plan A var auðvitað miðað við að íslenska ríkið tæki ábyrgð á Icesave skuldum Landsbakans. Nú þarf seðlabankastjórinn að útskýra fyrir snillingunum í matsfyrirtækjunum að 700 milljörðum króna minni skuldbindingar ríkissjóðs geri hann ekki að síðri skuldara. Það verður nú þrautin þyngri. Kannski tekst seðlabankastjóra að skýra þetta fyrir þeim og kannski ekki. Ef til vill skilur Moody’s þetta og ef til vill ekki. Hver veit.

Vefþjóðviljinn vill bara biðja seðlabankastjórann um eitt. Ef fulltrúar frá matsfyrirtækjum og fjármálastofnunum sækja hann heim í seðlabankann, til að sannfærast um ríkissjóður eigi ekki að vera í ruslflokki heldur sé afar ábyrgur í fjármálum og velti hverri krónu fyrir sér, að hafa nú dregið fyrir glugga.