Fimmtudagur 21. apríl 2011

111. tbl. 15. árg.

Á það er bent í The Wall Street Journal í dag að árið 2005 hafi umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) birt kort af jörðinni undir yfirskriftinni „Fimmtíu milljónir loftslagsflóttamanna árið 2010“.

Nú þegar slitastundin er liðin hjá er þessa flóttamenn hins vegar hvergi að finna og kortið sjálft er einnig horfið af vef Sameinuðu þjóðanna þótt það megi auðvitað finna annars staðar á netinu.

Kortið virðist hafa verið fjarlægt að vef samtakanna eftir 11. apríl þegar fréttavefurinn AsianCorrespondent spurði hvað hefði eiginlega orðið um loftslagsflóttamennina. Fréttavefurinn bætti því jafnframt við að á ýmsum þeirra staða sem kortið gaf til kynna að fólk myndi flýja vegna loftslagsbreytinga væri fólki ekki aðeins ekki að fækka heldur þvert á móti að fjölga örar en um víða veröld.

Eins og The Wall Street Journal segir frá reyna starfsmenn umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna nú að þvo hendur sínar af málinu og von mun á tilkynningu um málið frá þeim þegar þeir snúa til vinnu eftir páska úr því að blaðamenn séu „að gera sér mat úr því“ eins og einn talsmaður stofnunarinnar orðaði það.

Blaðið segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem spár um loftslagsmál hafi reynst hlægilegar en öllum geti auðvitað skjátlast. Það sé hins vegar áhyggjuefni að ýmsir þeirra sem skelfa veröldina með loftslagsspám skuli reyna að hlaupa frá fyrri spádómum sínum.

Þ að eru fleiri spámenn að slá í gegn þessa daga. Áhugamenn um efnahagsspár veittu því athygli í vikunni að seðlabankinn spáði loks rétt. Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafði spáð því fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave að Már Guðmudsson seðlabankastjóri myndi refsa landsmönnum fyrir NEI með því að lækka ekki vexti. Spádómurinn hefur nú ræst.