Miðvikudagur 13. apríl 2011

103. tbl. 15. árg.

A llir ættu að sjá að ríkisstjórnin er stórlega löskuð og hefur lengi verið. Hún er reyndar svo furðulega samsett að hvorugur stjórnarflokkurinn hefur áhuga á hugðarefnum hins, þótt báðir kyngi ennþá því sem kyngja þarf. Samfylkingin lætur vinstrigræna komast upp með að hindra alla raunverulega uppbyggingu í atvinnulífinu. Vinstrigrænir ganga álútir með til Brussel. Ríkisstjórnarflokkarnir eiga sameiginlega ást til valdastóla, ótta við kjósendur og hatur á nokkrum pólitískum andstæðingum. Í því síðastnefnda eiga þeir svo vísan samhljóm hjá álitsgjöfum sínum og áróðursvefjum sem fyllast þá iðulega af stóryrðum og ofstopa.

Ríkisstjórnin kemur fáu í verk sem máli skiptir til gagns, en ýmsu af því sem er til trafala og vandræða. Vegna hennar hefur efnahagsbati, sem án hennar hefði mátt vænta löngu fyrr, tafist verulega. En jafnvel þessari ríkisstjórn mun vonandi ekki takast að tefja hann endalaust.

Það er því að ýmsu leyti skiljanlegt að lögð sé fram vantrausttillaga á ríkisstjórnina, jafnvel þótt pólitískur raunveruleiki sé sá, að vantrauststillaga sem ekki er samþykkt þvingar órólega stjórnarliða yfirleitt nær stjórnarherrunum. En þá þurfa stjórnarherrarnir að vísu að hafa vit á því að segja ekki fimm sinnum í fyrstu ræðu að þessi verði raunin.

Vantrausttillagan verður felld í kvöld og landsmenn sitja áfram uppi með „verkstjórn Jóhönnu“, eins og það hét í síðustu kosningabaráttu, en hefur minna verið auglýst síðan. Sumir sem af skiljanlegum ástæðum líkar sú tilhugsun illa, hafa undanfarið skrifað ákefðargreinar um að þá verði forseti Íslands að mynda „utanþingsstjórn“ og benda því til stuðnings á þau orð stjórnarskrárinnar að forseti skipi ráðherra og veiti þeim lausn. Þótt mjög skiljanlegt sé að menn séu búnir að gefast upp á ríkisstjórninni, þá er allt tal um utanþingsstjórn fráleitur misskilningur. Ríkisstjórnin hefur þingmeirihluta, þökk sé óbilandi þingmönnum hennar og íslenskum kjósendum vorið 2009. Það vald sem stjórnarskráin segir að „forseti“ hafi, er í raun í höndum ráðherra, enda segir skýrt í stjórnarskránni að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt. Ólafur Ragnar Grímsson hefur enga heimild til að setja hina mjög svo gagnslausu ríkisstjórn af og skipa aðra í staðinn – nema fyrir slíkri aðgerð sé nægur stuðningur á Alþingi.