Þriðjudagur 12. apríl 2011

102. tbl. 15. árg.
Ríkið er goðsögnin mikla um að allir geti lifað á kostnað allra annarra.
– Frédéric Bastiat.

F yrir rétt tæpum 10 árum gaf Andríki út í íslenskri þýðingu Lögin, þekktasta verk franska rithöfundarins Frédéric Bastiat, en þá voru liðin 200 ár frá fæðingu hans. Eins og fleiri byrjendur í bókaútgáfu hafa brennt sig á lét Andríki prenta veglegt upplag, annað hefði verið vantraust á bæði útgáfuna og hinn frjálsa markað sem félagið ólmast fyrir. Nú er svo komið að bókaþjóðin hefur tryggt sér öll eintökin til varðveislu á heimilum sínum. Lögin eru uppseld í Bóksölu Andríkis.

Í Lögunum ræðir Bastiat um tilgang laganna, hvaðan heimild til lagasetningar komi og hvenær lög gangi lengra en sú heimild leyfi. Bastiat segir að ríkið þiggi vald sitt til lagasetningar frá einstaklingunum. Það geti ekki – eða ætti ekki að geta – tekið sér vald umfram það sem einstaklingarnir hafi hver um sig. Gefum Bastiat orðið:

„En hvað eru þá lögin? Eins og ég hef sagt annars staðar, eru þau sameiginleg skipan á rétti einstaklingsins til réttmætrar sjálfsvarnar. Hvert og eitt okkar þiggur vissulega af náttúrunni, af Guði, réttinn til að verja sjálft sig, frelsi sitt og eignir. Af því þetta þrennt er það sem líf okkar felst í og það sem heldur því við. En hver þessara þátta bætir annan upp og er lítt skiljanlegur hver út af fyrir sig.

Því hvað eru hæfileikar okkar ef ekki framlenging á skapgerð okkar? Og hvað eru eignir ef ekki framlenging á hæfileikum okkar? Ef hver og einn á rétt á að verja sjálfan sig, frelsi sitt og eignir, jafnvel með valdi, eiga margir saman líka rétt á að ráða ráðum sínum og koma á fót sameiginlegri stofnun til að sjá um þessar varnir með reglubundnum hætti.

Þannig grundvallast hinn sameiginlegi réttur á rétti einstaklingsins og væri ekki til án hans. Hin sameiginlega stofnun getur ekki átt sér annan tilgang, annað verkefni, en að koma í stað þess valdsviðs sem einstaklingarnir höfðu hver um sig. Nú getur valdsvið einstaklingsins ekki á réttmætan hátt vegið að lífi annarra, frelsi þeirra eða eignum. Og af sömu ástæðu er ekki réttmætt að nota sameiginlega stofnun til að vega að lífi, frelsi eða eignum fólks, hvort sem það eru einstaklingar eða hópar fólks.

Því slík misnotkun valds er í báðum tilvikum í andstöðu við forsendur okkar. Hver myndi láta sér detta í hug að segja, að við höfum fengið valdsvið okkar, ekki til að verja okkar eigin rétt, heldur til að traðka á jafngildum rétti bræðra okkar? Og ef það er fráleitt í tilviki hvers og eins í sinni einstaklingsbundnu breytni, hvernig getur það verið réttmætt í tilviki hins sameiginlega valds sem er ekki annað en skipuleg sameining á valdi einstaklinganna?

Ef þetta stenst getum við ályktað svona: lögin eru skipuleg framsetning á náttúrulegum rétti fólks til réttmætrar sjálfsvarnar. Þar er skipt út einstaklingsvaldi fyrir sameiginlegt vald, í því skyni að hlutast til um þau mál sem annars væri réttmætt að einstaklingsvaldið hlutaðist til um. En þetta er gert til að vernda líf fólks, frelsi þess og eignir, til að vernda rétt hvers og eins og til að við búum öll við réttlæti.“

En viðskiptavinir bóksölu Andríkis þurfa ekki að örvænta þótt þessi sjónarmið Bastiat séu uppseld. Sama tón slá til að mynda Lysander Spooner í Löstur er ekki glæpur, John Locke í Ritgerð um ríkisvald og John Stuart Mill í Frelsinu. Þessi þrjú öndvegisrit ásamt fjölda annarra fást sem fyrr í bóksölunni. Heimsending innanlands er innifalin í verði.