Fimmtudagur 14. apríl 2011

104. tbl. 15. árg.
Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er stödd í miðjum björgunaraðgerðum eftir bankahrunið og uppbyggingarstarfið er handan við hornið. Í öllum ráðuneytum er unnið hörðum höndum að tillögum til að vinna þjóðina út úr vandanum. Á sama tíma birtist okkur stjórnarandstaða sem hefur engar lausnir, engin úrræði og engan styrk til að takast á við verkefnin. Þessi vantrauststillaga er ein birtingarmynd getuleysis hennar. Hún er sýndarmennska.
– Jóhanna Sigurðardóttir um vantraust á ríkisstjórnina sína – og Geirs Haarde.

L eikmenn kvennaliða Vals og Fram reyndu hvað þeir gátu, fyrst var framlengt, svo framlengt aftur og loks vítakeppni. Allt kom fyrir ekki. Þingið var ekki farið heim að sofa og Ríkissjónvarpið skipti tafarlaust þangað svo landsmenn fengju að sjá Guðmund Steingrímsson sitja hjá þegar þingmenn voru beðnir að lýsa áliti sínu á ríkisstjórninni. Ha, ríkisstjórninni? Ja, ég veit það nú ekki.

Það er aldeilis þarfur þingmaður sem veit hvorki hvort hann styður ríkisstjórnina né hvað honum þykir um ríkisábyrgð á Icesave.

Jæja en Jóhanna Sigurðardóttir var alveg viss um að stjórninni bæri að sitja áfram, rétt eins og 24. nóvember 2008 þegar hún sem félagsmálaráðherra varði ríkisstjórn Geirs Haarde með kjafti, klóm og einkum þeim rökum að nú væri verk að vinna sem ekki mætti trufla. Þetta stagl var endurnýtt í gær. Þingmenn Samfylkingarinnar bættu því svo jafnan við í gærkvöldi að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið í stjórn þegar íslensku bankarnir hrundu. Flokkur sem hefði verið við stjórn í bankahruni mætti ekki komast aftur í stjórn.

Þingmenn vinstri grænna voru ekki síður uppteknir við það hverjir hefðu verið í ríkisstjórn á Íslandi þegar hin alþjóðlega fjármálakreppa lét á sér kræla árið 2008. Það lið mætti nú ekki snúa aftur í valdastólana. Það var einmitt þess vegna sem vinstri grænir hækkuðu Jóhönnu Sigurðardóttur og Össur Skarphéðinsson í tign að loknu bankahruni.