Fimmtudagur 31. mars 2011

90. tbl. 15. árg.
Props handa prófessorum. Félagar Gylfa Magnússonar og Þórólfs Matthíassonar í VG eiga nóg af munum handa þeim fyrir næstu leiksýningu um Kúbu norðursins.

F élagsvísindadeild Háskóla Íslands boðar til fundar um Icesave 2. apríl. Meðal frummælenda eru Þórólfur Matthíasson prófessor sem sagði Ísland verða að Norður-Kóreu ef Icesave II yrði ekki samþykkt og Gylfi Magnússon prófessor sem sagði Ísland verða Kúbu norðursins fengist ánauðin ekki samþykkt.

Getur Árni Þór Sigurðsson formaður utanríkismálanefndar Alþingis ekki lánað þeim félögum eitthvað úr fataskápnum sínum til að skrýðast í umræðum um Icesave III?

Í hinum svonefnda Áfram hópi, sem vill leiða ríkisábyrgð á brasi einkabanka í lög, virðast nær eingöngu vera áhugamenn um aðild Íslands að ESB. Þeim til fulltingis eru svo fjölmiðlar útrásarvíkinganna, einkum Fréttablaðið, sem ritstýrt er af fyrrverandi formanni Evrópusamtakanna.

Þetta má sjá á Facebook þar sem Bæði JÁ og NEI hreyfingar safna nú fylgismönnum. Í morgun höfðu 7.100 lagt nafn sitt við NEI og 1.600 við JÁ.

E itt af því sem JÁ-menn hafa reynt að koma að hjá fólki er Íslendingar hafi komið illa fram við Breta og Hollendinga í Icesave málinu. Þó liggur það fyrir að með neyðarlögunum var breskum og hollenskum innstæðueigendum færður miklu betri réttur en þeir áttu annars. Án neyðarlaganna hefðu þeir aðeins átt rétt á lágmarkstryggingu á hvern reikning úr tómum innstæðutryggingasjóði eða samtals 674 milljörðum króna. Þótt Íslendingar segi NEI fá þeir 1.175 milljarðana sem sagðir eru í búi Landsbankans. Ef Íslendingar segja JÁ fá Bretar og Hollendingar það sem er í búi bankans og auk þess vexti.

Getur verið að Bretar og Hollendingar ætli í mál við íslenska ríkið sem tryggði þeim 1.175 milljarða króna í stað 674 milljarða króna?

Vegna neyðarlaganna fá Breta og Hollendingar alltaf meira en tilskipun ESB um innstæðutryggingar átti að veita.

Þetta er útskýrt rækilega á vef ADVICE hópsins. Þar má finna þetta graf og útskýringar á því.

Tilskipun ESB – TIF ábyrgist 674 milljarða
Ef íslenski tryggingarsjóðurinn (TIF) hefði átt fyrir öllum lágmarksinnistæðutryggingum og engin neyðarlög verið sett í október 2008 þá hefði sjóðurinn greitt breskum og hollenskum innistæðueigendum 674 milljarða í samræmi við tilskipun ESB. Enginn Breti og enginn Hollendingur hefði getað farið fram á meira.

EF ÞJÓÐIN SEGIR NEI – Bretar og Hollendingar fá 1.175 milljarða
Neyðarlög voru m.a. sett því tryggingasjóðurinn gat ekki fjármagnað útgreiðslu lágmarksinnistæðna, frekar en aðrir sambærilegir sjóðir í Evrópu. Íslensku Neyðarlögin veittu innistæðueigendum forgang í þrotabú Landsbankans. Þess vegna geta Bretar og Hollendingar vænst þess að fá 1.175 milljarða úr þrotabúinu – þótt Icesave samningurinn verði felldur.

EF ÞJÓÐIN SEGIR JÁ – Bretar og Hollendingar fá enn meira
Ef Icesave III samningurinn verður samþykktur geta Bretar og Hollendingar vænst þess að fá 1.175 milljarða. Með samningi ábyrgjast Íslendingar auk þess greiðslu höfuðstóls og vaxta vegna lágmarksins. Þannig er Bretum og Hollendingum tryggð fjárhæð sem er hærri en núverandi eignir þrotabúsins standa undir. Sú viðbót og áhætta er alfarið sett yfir á íslenska skattgreiðendur.