Miðvikudagur 30. mars 2011

89. tbl. 15. árg.
Nú er svo komið að eldsneytisverð ógnar hagvaxtarbatanum í heiminum. Ráðstöfunartekjur fólks að teknu tilliti til eldsneytisverðs skerðast og einkaneysla minnkar
– Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður og prófessor spáir á Eyjunni í gær um framvindu efnahagsmála.

H ún stóð ekki lengi spáin hans Tryggva Þórs Herbertssonar um að svo bjart væri framundan í efnahagsmálum heimsins að ruslahaugurinn sem nefndur hefur verið eignasafn Landsbankans gæti ekki annað en hækkað – í verði – og íslenskur almenningur gæti því gengist í ábyrgð fyrir skuldir þrotabús Landsbankans. Í fyrradag kom hann askvaðandi á Eyjunni með allt á hornum sér um framvindu efnahagsmála; jarðskjálftar og kjarnorkuslys í Japan og uppreisn gegn einræðisherrum í Norður-Afríku.

Það leið vart einn mottumars.

J ón Gnarr borgarstjóri boðaði í gær rannsókn á því “hvernig þetta gat gerst” og átti þá við hvernig Orkuveita Reykjavíkur gat runnið út í skuldafen líkt og flest stórfyrirtæki landsins. Forstjóri Orkuveitunnar sagði hins vegar í gær að 14 milljarða króna hagnaður síðasta árs væri “bara tölur á blaði” því hagnaðurinn á síðasta ári væri einkum vegna breytinga á gengi krónunnar. Árið 2008 varð um 100 milljarða króna tap á Orkuveitunni af sömu ástæðu. Tölur á blaði?

En ástæðan fyrir því að þetta gerðist væri ekki áhyggjuefni fyrir borgarstjórann nema af því flokkarnir í borgarstjórn hafa verið sammála um að Orkuveitan eigi að vera borgarfyrirtæki. Á meðan svo er getur þetta gerst.