Þriðjudagur 29. mars 2011

88. tbl. 15. árg.

O rkuveita Reykjavíkur berst í bökkum vegna mikilla skulda. Núverandi lánveitendum hennar er það auðvitað ljóst. Þeir þurfa að leggja mat á hvernig þeir geti komið til móts við félagið með breytingum á lánaskilmálum og auknum lántökum. Það er alls ekki útilokað að í þessari stöðu finnist leiðir til að takmarka tjón beggja aðila.

Þá lýsir fulltrúi eigenda Orkuveitunnar, borgarstjórinn í Reykjavík, því yfir að félagið sé gjaldþrota. Án nokkurs fyrirvara.

Þegar slík yfirlýsing hefur verið gefin opinberlega, óháð því hve réttmæt hún er, í hvaða stöðu er búið að setja lánveitendur félagsins?

Ætlar einhver bankamaður úti í heimi að leggja það til við stjórnendur í bankanum að Orkuveitunni sé veitt frekari lánafyrirgreiðsla þegar eigandi hennar er búinn að lýsa því yfir að hún sé gjaldþrota? Hver yrði staða þessara manna ef allt færi á versta veg í framtíðinni? „Jú ehhh það er rétt að við lánuðum Orkuveitunni meira fé og lengdum í lánum hennar þrátt fyrir að eigandi hennar lýsti hana gjaldþrota.“

Munu stjórnendur banka vilja taka þá áhættu að greiða götu Orkuveitunnar þegar slík yfirlýsing liggur fyrir? Ætla þeir að skýra það fyrir hluthöfum bankans að þeir hafi veitt félaginu aukin lán þrátt fyrir yfirlýsingar borgarstjórans?

Jón Gnarr borgarstjóri kom Orkuveitu Reykjavíkur ekki í þær skuldir sem hún glímir nú við. En hann hefur ekki auðveldað stjórn félagsins að greiða úr skuldamálum þess.

Fyrir hrun bankanna lá vandi Íslendinga að hluta í sjálfhverfum yfirlýsingum um að allt væri í stakasta lagi. Eftir hrun bankanna eru það jafn sjálfhverfar yfirlýsingar um að allt sé ómögulegt.