Mánudagur 28. mars 2011

87. tbl. 15. árg.
Sumt innsláttarfólkið stundaði „skapandi“ úrlestur, giskaði á tölur, og breytti jafnvel svo passaði við frambjóðanda. Fyrir kom að eingöngu síðasta tala var „misskráð“ hjá kjósanda og tók innsláttarfólkið sér þá stundum vald til að setja inn „rétta“ tölu.
– Úr skýrslu Grétars Eiríkssonar, yfirkjörstjórnarmanns í Reykjavíkurkjördæmi suður, til allsherjarnefndar Alþingis, um vinnubrögð við „talningu“ atkvæða í „stjórnlagaþingskosningunni“. Enginn fjölmiðill nema Morgunblaðið hefur sagt frá skýrslunni.

Þessa dagana fer fram mikil leiksýning. Liðið sem vill fá að semja nýja stjórnarskrá fyrir land og þjóð, og vera á launum hjá ríkinu á meðan, þykist núna allt vera að hugsa mjög alvarlega hvort það eigi að „þiggja boð Alþingis“ um að setjast í „stjórnlagaráð“, sem er nýja nafn stjórnlagaþingsins sem ríkisstjórninni mistókst að láta kjósa til í vetur. Kosningin var ógild, af augljósum ástæðum, en í hugarheimi Jóhönnu Sigurðardóttur má komast fram hjá því með nýju nafni en ekki nýrri kosningu.

Kjósandi rennir seðli í ólæstan kassa, því næst kemur óvant talningafólk, giskar á hvað hann vildi kjósa og breytir tölunum á seðlinum samkvæmt því. Næst kemur Ástráður og gefur út kjörbréf þótt búið sé að kæra kosninguna. Þegar Hæstiréttur fleygir ruglinu út kemur Jóhanna og breytir bara um nafn á stjórnlagaþinginu. Svona hafa menn nú lært af hruninu.
Kjósandi rennir seðli í ólæstan kassa, því næst kemur óvant talningafólk, giskar á hvað hann vildi kjósa og breytir tölunum á seðlinum samkvæmt því. Næst kemur Ástráður og gefur út kjörbréf þótt búið sé að kæra kosninguna. Þegar Hæstiréttur fleygir ruglinu út kemur Jóhanna og breytir bara um nafn á stjórnlagaþinginu. Svona hafa menn nú lært af hruninu.

Allir sæmilegir menn sjá í hendi sér að enginn maður hefur verið kosinn á stjórnlagaþing. „Stjórnlagaþingfulltrúarnir 25“ eru ekki til. Kosningin var ógild og hefur aldrei verið gild. Og það er ekki bara einhver orðhengilsháttur.

Eftir að Hæstiréttur komst að sinni augljósu niðurstöðu fór í gang mikill spuni. Niðurstaða Hæstaréttar væri byggð á einhverjum akademískum aukaatriðum. „Enginn hefur haldið því fram að rangt hafi verið haft við“, endurtók hver á eftir öðrum í algeru skilningsleysi. Það skiptir ekki máli um galla á kosningum hvort sýnt hafi verið fram á að menn hafi vísvitandi haft rangt við, eins og allir vita sem þekkja kosningareglur.

En, þeir sem svona hafa talað, hafa einnig horft fram hjá öðru, sem í þeirra huga hefði átt að hafa mikil áhrif: Gallarnir á kosningunni hafa alveg vafalaust haft áhrif á „úrslitin“, sem eru þá einnig af þeirri ástæðu fullkomlega ómarktæk.

Meðal gallanna var að kosningin var ekki leynileg. Kjósendur fundu að þeir voru ekki í skjóli þegar þeir kusu. Nærstaddir gátu séð á seðla þeirra. Um allan heim er algert lykilatriði að hindra slíkt. Sérstaklega alvarlegt þykir ef nákomnir aðilar geta séð á hver hjá öðrum. Hjón koma gjarnan saman á kjörstað. Menn ættu að setja sig í spor einstaklings sem býr við þrúgandi ástand á heimili, jafnvel kúgun, – eins og ýmsir gera því miður – og þarf svo að fylla út kjörseðil sem búast má við að makinn sjái á. Eða unglingurinn á heimilinu, ætli þessi ástæða geti haft áhrif á hann? Auðvitað á þetta ekki við um allan þorra manna, en ýmsa þó. Það er einfaldlega þannig, að ef kjósandinn veit að aðrir geta séð á seðil hans, þá eru líkur á að það hafi áhrif á hvernig margir þeirra kjósa.

Annar galli var talningin. Þar voru engir fulltrúar frambjóðenda viðstaddir. Lesi menn nú lýsingu yfirkjörstjórnarmannsins á framkvæmd talningarinnar. Hann segir að „holskefla vafaatkvæða“ hafi dunið á, og óvant talningafólk hafi þá tekið sér fyrir hendur að „giska á“ hvað kjósandinn ætlaði að kjósa, og hefði jafnvel breytt seðlunum til að sá ágiskaði vilji kjósandans næði nú fram að ganga. Hvernig getur einhverjum manni dottið í hug að slík talning, sem engir fulltrúar frambjóðenda eru viðstaddir, geti gefið lögmæta niðurstöðu?
Auðvitað getur engum manni dottið það í hug. Áhugaverðari spurning er því sú hvers vegna ljósvakamiðlarnir hafa ekki sagt frá skýrslu yfirkjörstjórnarmannsins? Ætli fyrst hafi verið þagað um hana á meðan stjórnarliðar voru að keyra í gegn þingsályktunartillögu sína um „stjórnlagaráð“, en næst sé þagað á meðan „þeir sem kjörnir voru“ eru að „hugsa málið“?