Mánudagur 21. mars 2011

80. tbl. 15. árg.
Hún segist hafa lýst þeirri skoðun sinni að það sé mikilvægt að sveitarfélög fullnýti sína tekjustofna einmitt þegar að sverfi, til að geta staðið vörð um lögbundna þjónustuskyldur sínar gagnvart börnum og ungmennum. Katrín telur eina mikilvægasta skyldu hvers sveitarfélags að standa vel að rekstri grunn- og leikskóla.
– Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra um borgarmál í Ríkisútvarpinu í gær.

Þ

Þú þarna tekjustofn, borgaðu, borgaðu. Það þarf að fullnýta þig.

að má hafa samúð með þeim Atla Gíslasyni og Lilju Mósesdóttur að segja nú skilið við þingflokk Vinstrigrænna. Í ótalmörgum stórum og óafturkræfum málum hafa vinstrigrænir beygt sig undir kröfur Samfylkingarinnar, jafnvel þvert gegn skýrum loforðum um hið gagnstæða. Innganga í Evrópusambandið og undirganga Icesave-ánauðarinnar verða hvorug tekin aftur, ef Samfylkingunni tekst með hafa sitt þar fram með frekjunni. Undirgefni stjórnvalda við sendimenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins getur heldur ekki glatt vinstrimenn, en formaður vinstrigrænna tekur gjarnan við fyrirskipunum þeirra með slíkri auðsveipni að nærstöddum getur orðið á að halda að sendimennirnir væru í Samfylkingunni.

En sjálfsagt eru þau Atli og Lilja ánægðari með annað. Ekki hafa þau heyrst mikið kvarta yfir skattagleði stjórnarherranna. Um helgina gafst lítið dæmi um hugsunarhátt núverandi ráðamanna í skattamálum. Ríkisútvarpið talaði við Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra vegna deilna um skólamál í Reykjavík. Í viðtalinu lagði Katrín áherslu á að sveitarfélögin í landinu hækkuðu skatta á borgarana eins mikið og lög framast leyfðu. Eða eins og það var orðað í fréttinni: „að sveitarfélög fullnýti sína tekjustofna“.

Fyrir vinstrimönnum eru borgararnir sjaldnast neinir borgarar. Þeir eru tekjustofn, sem á að fullnýta, svo að stjórnmálamenn geti látið ljós sitt skína sem mest. Stjórnmálamenn ákveða hvað skuli gera, og ef hið opinbera á ekki fyrir því, þá á að kreista meira út úr borgurunum, svo að hið opinbera geti „staðið vörð um lögbundnar þjónustuskyldur sínar“.

Það sem stjórnmálamenn ákveða af góðmennsku sinni að gera, á annarra kostnað, er „lögbundnar þjónustuskyldur“.

Borgararnir eru bara „tekjustofn“. Þann „tekjustofn“ á að „fullnýta“.

Þetta er vinstristjórn í stuttu máli.