Helgarsprokið 20. mars 2011

79. tbl. 15. árg.

S töku sinnum birtast í blöðunum greinar þar sem herfilegur misskilningur, sem jafnvel hefur staðið óáreittur árum saman og gengið milli manna í opinberri umræðu, er einfaldlega leiðréttur. Nýlegt dæmi um þetta er grein Ragnars Árnasonar prófessors um byggðaþróun á Vestfjörðum sem birtist í Morgunblaðinu 7. mars síðastliðinn.

Um árabil hefur því verið haldið fram að rekja megi fækkun íbúa á Vestfjörðum og fleiri byggðum til kvótakerfis í fiskveiðum. Um byggðaþróun á Íslandi almennt á síðust öld segir Ragnar

Þess er fyrst að geta að stórfelldar byggðabreytingar hafa staðið yfir hér á landi allar götur frá síðari hluta 19. aldar. Árið 1880 bjuggu um 94% landsmanna í sveitum, en aðeins um 6% í bæjum með yfir 300 íbúa. Árið 1980 var þetta gjörbreytt. Þá bjuggu um næstum 90% landsmanna í bæjum með yfir 300 íbúa, en aðeins um 12% í smærri bæjum og dreifbýli. Árið 1880 var enginn bær á Íslandi með yfir 5000 íbúa. Árið 1980 bjuggu um 65% þjóðarinnar í slíku þéttbýli og þorri þeirra á höfuðborgarsvæðinu (Heimildir: Ólafur Björnsson Þjóðarbúskapur Íslendinga, Hagstofa Íslands). Á þessum 100 árum varð því slík breyting í byggðamynstri á Íslandi að jafna má við byltingu. Það var hins vegar ekkert kvótakerfi til staðar, hvorki í fiskveiðum né landbúnaði. Þau kerfi geta því ekki hafa verið orsök þessara gríðarmiklu byggðabreytinga. Frá árin 1980, eftir að kvótakerfi í sjávarútvegi kom til sögunnar, hefur hægt á byggðabreytingum frá því sem áður var. Það er því afar langsótt, svo ekki sé meira sagt, að telja kvótakerfið orsök byggðabreytinga nú. Miklu líklegra er að sömu öfl og knúðu áfram hinar stórkostlegu byggðabreytingarnar á 19. og 20. öldinni séu einfaldlega enn að verki.

Ragnar bendir jafnframt á að þessi þróun sé ekki séríslensk. Sama þróun frá dreifbýli til þéttbýlis hafi átt sér stað í öllum þróuðum löndum heims. Þróunin sé sú sama í sjávarbyggðum um allan hinn þróaða heim enda hafi tækni og þar með afköst í fiskveiðum aukist gríðarlega.

Af þessum sökum hefur löndunarhöfnum og vinnslustöðum fiskjar fækkað stórlega um alla Evrópu. Hvað þessa þróun snertir, er ekki að sjá að aflakvótakerfi breyti neinu. Ef eitthvað er hefur þessi þróun verið hraðstígari í þeim löndum Evrópu sem ekki hafa stuðst við kvótakerfi í sínum fiskveiðum. Þannig hefur útgerðarstöðum í Englandi og Skotlandi stórfækkað frá því sem áður var og raunar aðeins fáeinar hafnir eftir sem einhverju máli ná. Sömu sögu má segja frá Þýskalandi og Frakklandi, sem til skamms tíma hafa ekki heldur reitt sig á aflakvótakerfi í skipulagi sinna sjávarútvegsmála. Í öllum þessum löndum og fleirum hefur samdráttur sjávarbyggða verið miklu umfangsmeiri en á Íslandi, þar sem kvótakerfi hefur verið við lýði.

Ragnar vísar einnig í úttekt sem Birgir Þór Runólfsson dósent gerði fyrir auðlindanefnd árið 2000 en þar var niðurstaðan sú að „ekkert samband virðist vera milli aflahlutdeildarkerfisins og byggðaþróunar hérlendis“.

Ragnar víkur svo að Vestfjörðum sérstaklega.

Í fjölmiðlaumræðunni hefur verið vísað til Vestfjarða sérstaklega og einstakra sveitarfélaga þar. Um Vestfirði er hins vegar það sama að segja og aðrar sjávarbyggðir á Íslandi. Þróun í fólksfjölda þar bendir ekki til neinna tengsla við kvótakerfið. Þar virðast önnur öfl ráða þróuninni. Íbúatala Vestfjarða verið að lækka mestalla síðustu öld og fram á vora daga. Íbúatala Vestfjarða sem hlutfall af heildarmannfjölda hefur lækkað enn hraðar. Þessu er lýst í mynd 1. Eins og sjá má fer þetta hlutfall lækkandi alla síðustu öld og er minnkunin hröðust framan af og fram til 1960, löngu fyrir daga kvótakerfisins. Ekki verður séð að þessi hlutfallslega fólksfækkun hafi orðið hraðari eftir að kvótakerfið varð ráðandi í stjórn fiskveiða, þ.e. frá 1990.

Hins vegar bendir Ragnar á að það hafi að öllum líkindum veikt stöðu sjávarbyggða á Vestfjörðum hve leyfilegur heildarafli í þeim tegundum sem skipta svæðið mestu máli, eins og þorski og rækju hefur dregist saman á undanförnum áratugum. Leyfilegur þorskafli hefur farið úr um 320 þúsund tonnum á ári að jafnaði á tímabilinu 1970-90 í um liðlega 200 þúsund tonn að jafnaði 1991-2009. Auðvitað hefur slík breyting áhrif á byggðir sem hafa reitt sig á þorskafla. En sem kunnugt er fjölgar þorskunum í sjónum ekki þótt skipt sé um fiskveiðistjórnunarkerfi.

En þótt Ragnar hafi leiðrétt þennan misskilning með svo afgerandi hætti er því spáð hér að innan tíðar verði það á ný orðin almælt að fólk hafi flúið Vestfirði eftir að kvótakerfi varð að meginreglu í íslenskum sjávarútvegi.