Þriðjudagur 22. mars 2011

81. tbl. 15. árg.

A ð öllu jöfnu væri það rétt sem Össur Skarphéðinsson segir að það geti styrkt ríkisstjórn að losna við tvo tvístígandi þingmenn úr liði sínu. Það er fátt eins þreytandi á göngu og menn á báðum áttum. Jafnvel þótt förinni sé heitið út í mýri.

Þessi kenning Össurar ætti við um ríkisstjórnarmeirihluta Samfylkingar og VG ef ekki væru að minnsta kosti fjórir þingmenn til viðbótar sem vita vart í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Nú verða þessir sem eftir sitja enn verðmætari en áður. Tveir þeirra eru ráðherrar og einn þingflokksformaður.

En þjóðin losnar ekki við Jóhönnu og Steingrím nema með kosningum. Þau munu sitja áfram rúin trausti í stjórnarráðinu þótt þingmenn og ráðherrar hlaupist undan merkjum. Það er því miður ekki með nokkru móti hægt að tjasla saman öðrum meirihluta í þinginu eins og það er nú samsett. Á þinginu sitja bæði of margar eftirlegukindur úr bankahruninu og einnig of margir undanvillingar sem yrðu aldrei kosnir þangað nema kjósendur væru sem þrumu lostnir eftir hrun fjármálakerfis.

H luti af ofmatinu á áhuga veraldarinnar á því sem gerist á Íslandi birtist í talinu fyrir þjóðatkvæðagreiðsluna um Icesave II. Þá var reynt að telja fólki trú um að Íslendingar yrðu útlægir úr alþjóðasamfélaginu felldu þeir „samning“ um að taka á sig skuldir vegna viðskiptaævintýra einkafyrirtækis í Bretlandi og Hollandi. Nú er þessi söngur farinn að heyrast að nýju. Björn Bjarnason fyrrverandi menntamálaráðherra gerði honum skil í pistli á vef sínum á sunnudaginn.

Eitt af því sem haldið er stíft fram í umræðum um Icesave-málið er að Íslendingar einangri sig og hljóti alþjóðlega útskúfun segi þeir nei 9. apríl. Í dag hitti ég franskan lögfræðing hér í París og barst talið að Icesave. Hann taldi fráleitt annað en Íslendingar segðu nei. Enginn þjóð ætti að láta bjóða sér þetta. Ég er þeirrar skoðunar að álit þjóðarinnar út á við minnki við að segja já. Kannski kann einhverjum útlendingum að þykja einkennilegt að unnt sé að leggja mál sem þetta fyrir íslensku þjóðina. Úr því að það sé gert, hljóti menn að hafna því að taka á sig löglausar byrðar.

Hræðsluáróðurinn vegna ásýndar þjóðarinnar á alþjóðavettvangi minnir á stóryrðin sem féllu þegar ákveðið var að hefja hvalveiðar að nýju. Þær áttu að kalla yfir okkur reiði og útskúfun. Þá börðust og berjast enn fjölmenn alþjóðasamtök gegn ákvörðun íslenskra stjórnvalda og fyrirtæki erlendis með íslenskan varning gripu til viðskiptabanns á þennan varning til að verjast mótmælendum.

Ferðamönnum á Íslandi hefur aldrei fjölgað meir en síðan hvalveiðar hófust að nýju. Ekkert af hrakspánum hefur ræst. Engin sambærileg barátta er háð erlendis vegna Icesave og hvalveiðanna. Úrtölumennirnir nú eru allir á Íslandi og flestir í ráðherrastólum eða á alþingi auk hóps lögfræðinga þar sem þá ber hæst sem tóku að sér að verja málstað Baugsmanna á sínum tíma.

Já hver ætti eiginlega að eltast við Íslendinga vegna Icesave málsins? Það eru engir þrýstihópar í Icesave málinu eins og hvalveiðimálunum. Þeir sem lögðu fé inn á Icesave reikningana hafa fengið það bætt, ríkisstjórnirnar sem reiddu fram bæturnar í óðagoti eru farnar frá völdum og þær sem tóku við eiga kröfu – sem íslensku neyðarlögin gerðu að forgangskröfu – í hið margrómaða eignasafn Landsbankans.