Föstudagur 18. mars 2011

77. tbl. 15. árg.
Íslenskir stjórnmálamenn hafa eytt gríðarlegri orku og dýrmætum tíma í umfjöllun um Icesave-málið og er það að mörgu leyti vel. Hins vegar er mál að linni. Talið er að skuldir ríkisins muni vaxa úr 300 milljörðum árið 2007 í 2.000 milljarða á næsta ári ef gert er ráð fyrir að kostnaður þjóðarinnar vegna Icesave verði um 300 milljarðar. Hlutur Icesave í heildarskuldum þjóðarinnar verður því sennilega í kringum 15%.

Í síðustu viku komu fram greinargerðir frá Seðlabanka Íslands og efnahags- og viðskiptaráðuneytinu um áhrif þess að frekari tafir verði á endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og þar með afgreiðslu lána frá vinaþjóðum. Eru afleiðingarnar hreint út sagt skelfilegar en allir ættu að vita að forsendur fyrir endurskoðuninni og þar með afgreiðslu lána er bundnar við lausn Icesave. Allt hangir því saman við lausn Icesave-málsins – það hefur hreinlega verið stafað ofan í þjóðina.

Stjórnmálamenn sem telja að enn þurfi að eyða dýrmætum tíma til að reyna að ná betri samningi við Breta og Hollendinga eru að skaða þjóðina með beinum hætti, enda munu tapaðar tekjur án vafa verða miklu hærri en hugsanlegur ávinningur nokkurn tímann.
– Margrét Kristmannsdóttir um Icesave II í Fréttablaðinu 15. október 2009.

M

Margrét Kristmannsdóttir taldi haustið 2009 Icesave II kostaboð sem myndi aðeins auka skuldir ríkissjóðs um 300 milljarða króna. Það væri nú bara 15% aukning. Skelfing blasti við ef landsmenn gætu ekki skilið það sem Seðlabankinn og ráðuneytin hefðu stafað ofan í þá.

argrét Kristmannsdóttir formaður Samtaka verslunar og þjónustu og varaþingmaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir í gær að himinn og jörð færust ef ríkissjóður Íslands gengist ekki tafarlaust í ábyrgð fyrir skuldir gjaldþrota einkafyrirtækis. Sagði Margrét það ætti að fylla menn „skelfingu“ að samkvæmt nýjustu viðhorfskönnun MMR fyrir Viðskiptablaðið yrði mjótt á mununum í atkvæðagreiðslunni um Icesave III 9. apríl.

Vefþjóðviljanum þótti hann hafa heyrt þetta skelfingartal áður frá Margréti Kristmannsdóttur. Og rétt til getið. Hinn 15. október 2009 skrifaði hún grein í Fréttablaðið um nauðsyn þess að Íslendingar gripu nú tækifærið og samþykktu Icesave II.

Margrét gerir augljóslega ekki greinarmun á skuldum ríkisins og þjóðarinnar. Það er sami hluturinn, ef marka má skrif hennar. Það kann að skýra erfiðleika hennar við að greina á milli skulda ríkisins og einkaaðila og hver ber ábyrgð á hverju. Henni þótti það ekkert tiltökumál að bæta 300 milljörðum króna við skuldir ríkissjóðs þar sem þær væru hvort eð er að nálgast 2.000 milljarða. Icesave er bara sennilega 15%, skrifaði Margrét hróðug.

Þeir stjórnmálamenn sem voru að þybbast við vegna Icesave II voru að skaða þjóðina með beinum hætti og eyða dýrmætum tíma sínum í vitleysu.

Er Margrét alveg viss um að hún vilji veita Íslendingum frekari ráð um Icesave-málið?