Fimmtudagur 17. mars 2011

76. tbl. 15. árg.

L andsvirkjun og Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) skrifuðu í gær undir nýjan lánasamning að fjárhæð 70 milljónir Bandaríkjadollara eða að jafnvirði um 8,6 milljarða króna. Lánið er hluti af fjármögnun Búðarhálsvirkjunar. Eins og jafnan gildir um lán af þessu tagi er lánið háð því að aðrir þættir fjármögnunar gangi upp. Landvirkjun hefur reynt að fá lán til Búðarhálsvirkjunar hjá Framkvæmdabanka Evrópu sem er ein af byggðastofnunum Evrópu. Stofnunin hefur hins vegar sett lausn Icesave deilunnar sem skilyrði fyrir lánveitingum. Í viðtali við Vísi í dag segir Ragna Sara Jónsdóttir upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar að þessi afstaða EIB þurfi ekki endilega að stöðva málið.

Þegar Ragna Sara er spurð hvort þetta þýði í raun að lánið frá Norræna fjárfestingarbankanum sé háð lausn Icesave-deilunnar, svarar hún að svo þurfi ekki endilega að vera. Aðrir möguleikar á lánum séu til skoðunar og Landsvirkjun sé bjartsýn á að fjármögnun takist á næstunni.

Blaðamaður Vísis virðist þó ekki hafa lesið fréttina sem hann ritaði því þrátt fyrir þessi orð Rögnu Söru um að lán NIB sé ekki háð Icesave er fyrirsögn fréttarinnar: „Lán í Búðarháls skilyrt – Icesave hangir á spýtunni.“

Það undarlega við lánsloforð NIB er að enn hafa Íslendingar ekki játast undir Icesave-ánauðina. Eftir að íslensk einkafyrirtæki hafa hvert á fætur öðru fengið erlend lán á ágætum kjörum hjá einkabönkum í Evrópu hafa stuðningsmenn Icesave-ánauðarinnar bent á NIB og stofnanabanka Evrópusambandsins í von um að hræða Íslendinga undir klafann. Nú standa hins aðeins stofnanabankar Evrópusambandsins eftir.

Getur Ísland orðið „Kúba norðursins“  ef byggðastofnanir ESB loka fyrir lán til Íslands? Varla. Það væri miklu fremur þakkarvert ef þessir byggðasjóðir hættu að lána fé hingað og fjármögnun verkefna færi fram á heilbrigðari forsendum en sjóðirnir starfa bersýnilega eftir.

Mönnum getur heldur vart verið alvara með því að ríkissjóður gangist í ábyrgð fyrir 700 milljarða kröfu á þrotabú Landsbankans gegn því að stofnanabankar Evrópusambandsins láni Landsvirkjun nokkra milljarða króna?