Rúmast forsendur lagasetningar í Excel-skjali? Dugar það til að leiða í lög ríkisábyrgð á skuldum Landsbankans að neðst í nýjasta Excel-skjali skiptastjórnar bankans er talan 1175 milljarðar króna? Að sögn.
Frá því samninganefnd Íslands kynnti að 1175 milljarða króna verðmæti séu í þrotabúi Landsbankans hefur jörð skolfið í Japan með miklu mannfalli og eignatjóni sem ekki sér fyrir endann á. Í kjölfarið hafa helstu hlutabréfavísitölur heims fallið um 5 – 25%.
Icesave málið er ekki merkilegt mál í samburði við raunir Japana nú um stundir og vafalaust óviðeigandi að ræða í sömu andrá. En atburðirnir í Japan hafa áhrif á eignaverð um allan heim. Í flestum tilfellum neikvæð. Þannig hefur evrópska hlutabréfavísitalan Euro Stoxx 50 fallið um tæp 9% frá hámarki sínu í byrjun mars. Þegar samninganefnd Íslands hélt blaðamannafund á gólfi fjármálaráðuneytisins á dögunum hafði mat á eignum þrotabús Landsbankans breyst um 3% á einum ársfjórðungi. Að sögn. Er þá ekki von á blaðamannafundi samninganefndar Íslands vegna verulegra hræringa á verðbréfamörkuðum á undanförnum dögum?
Eins og menn vita, eða ættu að vita eftir bankabíó undanfarinna ára, þá þarf ekki náttúruhamfarir til að vantraust og skelfing grípi um sig á mörkuðum. Það þarf stundum ekki meira en óvarleg húsnæðislán í Flórída til að allt fari á annan endann.
Tölur í Excel-skjölum lifa ekki sjálfstæðu lífi. Þær eru ekkert annað en mat einhverra á einhverju á einhverju augnabliki. Augnabliki síðar er allt breytt.