Fimmtudagur 17. febrúar 2011

48. tbl. 15. árg.

Þ egar forseti Íslands tilkynnti að hann hefði synjað lögum staðfestingar sumarið 2004, vísaði hann til þess að myndast hefði „gjá milli þings og þjóðar“. Í því ljósi er furðulegt að heyra stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og Icesave-ánauðarinnar tala nú eins og það skipti máli hversu mikill eða lítill munur hafi verið á Alþingi við samþykkt ánauðarinnar. Þegar menn tala um „gjá milli þings og þjóðar“ þá eiga þeir ekki við „gjá milli manna í þinghúsinu“. Þetta er auðskilið.

H rósa má þeim þingmönnum sem í gær gerðu það sem í þeirra valdi stóð til að standa vörð um hag Íslands. Sjö þingmenn Framsóknarflokksins, fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þrír þingmenn Hreyfingarinnar og tveir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs bera ekki ábyrgð á því sem Alþingi ákvað í gær. Þó verður ekki hjá því komist að minna á að tveir þessara þingmanna eru stjórnarþingmenn og bera þannig töluverða ábyrgð á því sem þessi ríkisstjórn gerir, landinu til tjóns. En að því sögðu er rétt að hrósa þessum þingmönnum öllum og þá sjálfsagt sérstaklega þeim sem létu eigin flokksforystu ekki hindra sig í að standa vörð um hagsmuni landsins, þeim Ásmundi Einari Daðasyni, Birgi Ármannssyni, Lilju Mósesdóttur, Pétri Blöndal, Sigurði Kára Kristjánssyni og Unni Brá Konráðsdóttur. Einnig verður að nefna að formaður Framsóknarflokksins hefur, eins og löngum áður, borið af öðrum þingmönnum þegar kemur að umræðum um Icesave-ánauðina.

E in mest lesna frétt síðustu daga ber yfirskriftina „Ég var staddur heima að borða fisk“. Greinir þar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, frá því að hann hafi setið heima hjá sér í léttri stemmningu, kominn með fisk á diskinn, þegar hann „komst allt í einu að því að það væri búið að rífa Icesave-málið út úr fjárlaganefnd og að það ætti að vera umræða um málið hér í dag og atkvæðagreiðsla á morgun. Ég hugsa að fátt hafi komið nokkrum jafnmikið á óvart á Íslandi frá því núverandi utanríkisráðherra kom úr sturtu og komst að því að það hefði orðið efnahagshrun.“

Með fréttinni fylgir mynd af Sigmundi Davíð þegar hann lýsir fisknum fyrir þingheimi. Þetta hefur greinilega verið hinn myndarlegasti fiskur sem Sigmundur Davíð hefur þarna orðið af, og skiljanlegt að það hafi verið þungt hljóðið í formanni Framsóknarflokksins í umræðunni.

A ndríki birti í vikunni könnun MMR um hug manna til þess að vísa Icesvae-ánauðinni í almenna atkvæðagreiðslu. Sömuleiðis auglýsti félagið gegn ánauðinni í Ríkisútvarpinu í vikunni. Þá birtir félagið auglýsingu í Viðskiptablaðinu í dag um hvernig þingmenn greiddu atkvæði um ánauðina. Allur kostnaður við starfsemi Andríkis er greiddur með framlögum lesenda. Hér geta menn gengið til liðs við þann góða hóp sem styður félagið.