Föstudagur 18. febrúar 2011

49. tbl. 15. árg.

Ó trúlega margir hafa lýst því yfir undanfarna daga að þeir séu fegnir að Icesave málinu sé loks „lokið.“

Þessir menn vita væntanlega meira um hug forsetans en aðrir.

Því til viðbótar má kannski nefna að Icesave málið hefst þá fyrst fyrir Íslendinga þegar lög um stöðutöku ríkissjóðs í erlendri mynt í þrotabúi Landsbankans taka gildi.

Næstu misseri verður ríkissjóður Íslands – fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda – einstakur spekúlant á verðbréfa- og gjaldeyrismörkuðum. Um 600 milljarða króna stöðutaka ríkissjóðs mun sveiflast eftir veðri og vindum á mörkuðum. Hvað kaupa Bretar mikið af frosnum vorrúllum hjá Iceland? Hvernig gengur nýja Landsbankanum að skrapa saman gjaldeyri til að greiða þeim gamla? Hversu stöðugt verður gengi íslensku krónunnar? Þessari krónu sem helstu stuðningsmenn Icesave-ánauðarinnar telja að sé alltof flöktandi gjaldmiðill til að vera nothæfur.

A ðrir hafa sagt að þeir voni að stöðutakan endi vel og „lítið“ falli á íslenska skattgreiðendur. Með „lítið“ er þó jafnan verið að tala um nokkra tugi milljarða króna. En er þetta glæfraspil réttlætanlegt ef það kemur í ljós þegar fram líða stundir að aðeins „lítið“ falli á ríkissjóð?

Nei svona glannaskap með fjármuni skattgreiðenda má aldrei viðurkenna.

O g berst þá talið að dómstólaleiðinni ógurlegu. Eru ekki ýmsar hættur á þeirri leið? Það er nú bara þannig í lífinu að menn eiga alltaf á hættu að fá á sig fáránlegar kröfu. Fráleitum kröfum er jafnan fylgt eftir með hótunum um málarekstur fyrir dómstólum þótt enginn viti hvort efndir verði þar á.

Það getur stundum verið freistandi að losna við kostnað, ama og umtal sem slíku fylgir, að ekki sé minnst á augnagot í sendiráðsboðum og EFTA fundum.

En geta menn látið undan slíkum þægindafreistingum þegar það hefur mögulega í för með sér útgjöld sem menn geta engan veginn staðið undir? Léti nokkur fjölskylda beygja sig með löglausum hætti til að taka á sig skuldbindingu sem hún gæti ekki risið undir?