Miðvikudagur 16. febrúar 2011

47. tbl. 15. árg.
Fyrstu lögin um „þjóðareign“ verða samþykkt á Alþingi í dag.

Í dag ná ríkisstjórnarflokkarnir merkum áfanga. Þeir hafa báðir frá stofnun sinni lagt mikla áherslu á „þjóðareign“ hvers kyns. Svo langt gengur þessi stefna að þeir vilja almennt ákvæði um „þjóðareign“ í stjórnarskrá. Nú er stefna þeirra um „þjóðareign“ hins vegar að ná fram að ganga með almennri löggjöf. Þessum áfanga ná þeir með því að leiða í lög að tap einkabanka verði „þjóðareign“.

Úr því sem komið er virðist ekkert geta komið í veg fyrir þessa þjóðnýtingu á tapi einkafyrirtækis nema að lögin fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Alþingi fær tillögu um slíka atkvæðagreiðslu til afgreiðslu í dag.

Þar reynir á annað áhugamál vinstri flokkanna. Þeir hafa frá stofnun ályktað linnulítið um mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslu í helstu málum. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur ætíð verið sérstakur áhugamaður um málið.

Almennir borgarar safna einnig áskorunum á forsetann um að synja slíkum lögum staðfestingar.

S íðar í dag ætlar meirihluti Alþingis að afgreiða sem lög, heimild til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra að ábyrgjast, fyrir hönd íslenska ríkisins, lán sem tryggingasjóður innstæðueigenda – sem er ekki ríkisstofnun – tekur þá hjá Bretum og Hollendingum, án lagaskyldu, til þess að borga Bretum og Hollendingum, án lagaskyldu, það sem Bretar og Hollendingar ákváðu, án lagaskyldu, að borga breskum og hollenskum sparifjáreigendum eftir að Landsbankinn fór á hausinn og Icesave-reikningarnir með.

Þingið fundaði fram á nótt til þess að koma málinu áfram. Í þingumræðu gærkvöldsins kom fram að stjórnarandstöðuþingmönnum í fjárlaganefnd var gert að vinna til klukkan fimm í gærmorgun til að ljúka nefndarálitum sínum. Aðeins eitt ýtir á þingmenn að fara skyndilega á þessum feiknarlega hraða:

Nú stendur yfir ofsafengið kapphlaup milli meirihluta Alþingis og þeirra landsmanna sem vilja að þjóðin fái tækifæri til að segja álit sitt á nýjasta Icesave-samkomulaginu í atkvæðagreiðslu. Tugþúsundir hafa á örfáum dögum skrifað undir áskorun þess efnis, og meirihlutinn á Alþingi óttast að þessu fólki verði að ósk sinni ef málið verður ekki drifið af með hraði.

Úr því sem komið er er tilgangslaust að efna til langra rökræðna við þingmenn um málið. Meginatriðin eru hins vegar augljós: Á Íslendingum hvílir engin skylda til að greiða fjárkröfur Breta og Hollendinga. Á Icesave-reikningunum hefur aldrei verið ríkisábyrgð. Ef þessar skuldir einkafyrirtækis við viðskiptavini sína verða lagðar á skattgreiðendur, þá er það ákvörðun þeirra þingmanna, sem því greiða atkvæði, en ekki annarra. Jú, raunar eins manns enn. Forseti Íslands hefur sýnt að hann telur sig hafa vald til að hafna lögum frá Alþingi. Staðfesti hann væntanleg lög um ríkisábyrgð, þrátt fyrir þá forsögu málsins sem felst í atkvæðagreiðslunni í mars 2010, hefur hann skipað sér í sveit með þeim þingmönnum sem samþykkja lögin.

S íðasti maður sem Ríkissjónvarpið fékk í Kastljós til að ræða Icesave-málið var Bjarni Benediktsson, þegar hann kynnti ákvörðun sína um stuðning við Icesave-frumvarpið. Síðan hefur Kastljósið rætt eitthvað annað, enda Icesave-málið frágengið í huga Efstaleitismanna. Undirskriftasöfnun, þar sem um þrjátíu þúsund manns hafa á fjórum dögum krafist þjóðaratkvæðis um málið, hefur til dæmis ekki þótt kalla á umfjöllun í Kastljósi. Tvo síðustu dagana fyrir lokaafgreiðslu Alþingis á málinu, þegar undirskriftasöfnunin stóð sem hæst, ræddi Kastljósið um erfðabreytt bygg.

F leira er á dagskránni í dag. Viðskiptaráð Íslands, sem hét Verslunarráð Íslands áratugum saman áður en fagurgali um útrásina varð aðaláhugamál þess, heldur í dag viðskiptaþing. Þar verður Jóhanna Sigurðardóttir einn aðalræðumaður. Það er eðlilegt að slíkt viðskiptaþing, haldið daginn sem Alþingi leggur Icesave-ánauðina á landsmenn með stuðningi ráðsins, sé haldið undir yfirskriftinni „Tökumst á við tækifærin“.

Meirihlutinn á Alþingi hefur einmitt efnt til stórátaka við tækifærin í íslensku atvinnulífi.