Þriðjudagur 15. febrúar 2011

46. tbl. 15. árg.

Í

Meirihluti vill þjóðaratkvæði um nýjasta Icesvae-samninginn samkvæmt könnun MMR fyrir Andríki.

gær sendi Andríki fjölmiðlum niðurstöður viðhorfskönnunar sem MMR gerði fyrir félagið dagana 8. til 11. febrúar 2011. Spurt var: Telur þú eðlilegt að íslenska þjóðin fái að segja álit sitt á nýjasta Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu? Góður meirihluti eða 62,1% þeirra sem afstöðu tóku svörðu spurningunni játandi.

Fréttablaðið og Ríkissjónvarpið sögðu ekki frá könnuninni. Þó varðar könnunin helsta fréttaefni vikunnar, afgreiðslu Alþingis á frumvarpi um ábyrgð ríkissjóðs Íslands á útgjöldum Breta og Hollendinga vegna þrots einkabanka haustið 2008. Tugþúsundir óska þess nú að málið fari í almenna atkvæðagreiðslu.  Svo kemur viðhorfskönnun sem sýnir að hugur margra stendur til þess að málið verði einmitt útkljáð með þjóðaratkvæðagreiðslu. Og Fréttablaðið og Ríkissjónvarpið telja það ekki eiga erindi við lesendur eða áhorfendur.

Ríkisútvarpið sagði ekki heldur frá viðhorfskönnun sem Capacent gerði fyrir Andríki um ESB og Icesave í ágúst 2009 fyrr en Andríki hafði birt niðurstöðurnar með opnuauglýsingu í dagblaði. Og ekki þótti þeirri stofnun það tíðindum sæta þegar könnun MMR fyrir Andríki í júní 2010 um viðhorf manna til þess að draga aðildarumsókn að ESB til baka og kostnað við umsókn leiddi í ljós að meirihluti var mjög ósáttur við kostnaðinn við umsóknina og vildi draga hana til baka.

Niðurstöður þessarar nýju könnunar eru sérlega áhugaverðar þegar haft er í huga að þrír stærstu stjórnmálaflokkar þjóðarinnar, Ríkisútvarpið sem allir greiða fyrir og Fréttablaðið sem allir fá sent heim til sín, hafa undanfarnar vikur lagst á eitt um að sannfæra landsmenn um að meiri skuldsetning ríkissjóðs muni hækka lánshæfismatið hjá Moody’s. Þess vegna verði að „ljúka málinu“ án tafar og allar heitstrengingar um þjóðaratkvæðagreiðslur eru gleymdar. Þetta hljómar óþægilega líkt því þegar menn gerðu stærstu dílana fyrir bankahrunið. Þá var nóg að kaupa fyrirtæki fyrir lánsfé en litlu skipti hvaða hugmyndir, ef nokkrar, menn höfðu um rekstur félagsins.

ÍÍ

Enginn almennra fundarmanna á fundi í Valhöll í gærkvöldi lýsti yfir stuðningi við ríkisstjórnina eða forystu Sjálfstæðisflokksins í Icesave málinu. Það er tveimur minna en á fundi fyrir rúmri viku.

gær hélt Samband ungra sjálfstæðismanna fund um Icesave málið með nokkrum frummælendum. Fundurinn vel sóttur líkt og fundur um sama efni með formanni flokksins á dögunum. Margir almennir fundargestir tóku til máls á fundinum í gær. Enginn þeirra lýsti yfir stuðningi ríkisstjórnina eða forystu Sjálfstæðisflokksins í málinu. Enginn. Þó hófst fundurinn á því að einn frummælenda, Ásbjörn Óttarsson alþingismaður, flutti ræðu til kynningar á sjónarmiðum flokksforystunnar. Á fundinum með formanninum um daginn voru þó tveir almennir fundarmenn sem lýstu ánægju sinni með afstöðu flokksforystunnar. Svona gengur forystunni að vinna almenna flokksmenn á sitt band.

Í máli Ásbjörns kom meðal annars fram að fjárlaganefnd hefði átt „leynifund“ með skilanefnd gamla Landsbankans og fengið að kíkja á hið margrómaða „eignasafn“ bankans. Þetta er vel að merkja að mestu sama eignasafnið og kom bankanum fyrir kattarnef fyrir aðeins tveimur árum. Í það hefur aðeins bæst krafa á nýja Landsbankann í erlendri mynt sem nýi Landsbankinn á ekki í fórum sínum. Sagði Ásbjörn að hann væri sannfærður um að „eignasafnið“ myndi skila 85% heimtum. Þar hafa menn það. Það er mat Ásbjörns að þrotabúið muni geta greitt nægan arð á hverju sem dynur. Sú afstaða hans kom ekki beinlínis á óvart.

Annar frummælandi var Gísli Hauksson hjá GAMMA sem veitti fjárlaganefnd umsögn um frumvarpið um ríkisábyrgð á skuldum einkabankans. Hann sagði að áhættan af endurheimtum úr þrotabúi Landsbankans og þróunar vaxta og gengis krónunnar lægi hjá íslenska ríkinu. Gísli telur að ef krónan myndi veikjast um 2% á ársfjórðungi og heimtur úr þrotabúi Landsbankans yrði 10% minni en áætlað er yrði heildarkostnaður íslenska ríkisins um 233 milljarðar íslenskra króna. Gísli sagði að ekki væri víst að erlend matsfyrirtæki myndu hækka lánshæfismat íslenska ríkisins ef samningurinn yrði samþykktur og sagði að það kæmi honum á óvart að fjárlaganefnd hafi ekki kallað fulltrúa þeirra til sín til að fá úr þessu skorið.