Mánudagur 14. febrúar 2011

45. tbl. 15. árg.

Þ að er skiljanlegt að örvæntingarfullir borgarar hafi nú hafið söfnun undirskrifta þar sem farið er fram á að alþingismenn láti af þeirri fyrirætlun að gangast undir löglausar kröfur Breta og Hollendinga og leggja tugi eða hundruð milljarða króna, í erlendum gjaldeyri, á komandi kynslóðir skattgreiðenda. Og að ef þingmönnum verður ekki haggað, þá verði lög um þetta efni lögð undir allsherjaratkvæðagreiðslu landsmanna til samþykktar eða synjunar.

Vefþjóðviljinn hefur ekki verið talsmaður þjóðaratkvæðagreiðslna og aldrei talið forseta Íslands hafa persónulegt vald til synjunar laga. Það breytir ekki því, að í kjölfar slíkrar synjunar voru lög um síðasta Icesave-samning lögð í allsherjaratkvæðagreiðslu landsmanna þar sem yfirgnæfandi meirihluti atkvæðisbærra Íslendinga hafnaði samkomulaginu. Það samkomulag sem nú liggur fyrir er í grundvallaratriðum eins og það fyrra. Enn eiga Íslendingar að gangast undir löglausar kröfur Breta og Hollendinga. Það er ætlast til að þeir greiði höfuðstól krafnanna að fullu. Munurinn á samningunum felst fyrst og fremst í vaxtaprósentu, en hún hefur aldrei verið neitt grundvallaratriði. Enda gæti núverandi samningur, ef illa fer, kostað landsmenn vel á þriðja hundrað milljarða króna í erlendum gjaldeyri. Núverandi samningur er ákaflega óhagstæður Íslendingum.

Það er því með miklum ólíkindum að þeir, sem í orði kveðnu fögnuðu því er landsmenn höfnuðu síðasta Icesave-samkomulagi, taki í mál að gengið verði frá nýju samkomulagi án þess að landsmenn fái að greiða um það atkvæði með sama hætti.

Og þegar drjúgur hluti stjórnarandstöðunnar hefur skyndilega hlaupist af verðinum fyrir landsmenn, þá þarf ekki að undra þó að fólk reyni í örvæntingu að krefjast sjálft réttarins til að gæta hagsmuna sinna. Þess vegna þarf enginn að láta sér koma á óvart að á einni helgi hafi á annan tug þúsunda landsmanna þegar skrifað undir kröfu þess efnis að stjórnmálamenn leggi Íslendinga ekki óspurða undir löglausar kröfur erlendra ríkisstjórna.

ÞÞ ví hefur verið haldið fram að þetta mál henti sérlega illa í almenna atkvæðagreiðslu. Því er þó öfugt farið. Hér er um að ræða boð til Íslendinga um að gerast ábyrgðarmenn á útgjöldum sem tvö erlend ríki efndu til haustið 2008. Það gerðu þau til að forða eigin bankakerfi frá áhlaupi. Þau vildu ekki bíða uppgjörs á þrotabúi Landsbankans eins og lög gera þó ráð fyrir.

Við þessu boði eru á þessu stigi aðeins tvö svör: já eða nei. Mikið einfaldara getur þetta ekki verið. Rétt eins og kom svo vel í ljós á síðasta ári þegar efnt var til almennrar atkvæðagreiðslu um annað boð af sama meiði.

Hér er ekki um að ræða mál þar sem hluti þjóðarinnar gæti til dæmis tekið eitthvað af öðrum hluta hennar. Þetta væri ekki atkvæðagreiðsla um að gera vatnsréttindi landeigenda eða veiðirétt í laxveiðiám að „þjóðareign.“ Þetta væri ekki atkvæðagreiðsla um hækka laun kennara á kostnað skattgreiðenda.

Þetta væri atkvæðagreiðsla um að rýra lífskjör allra landsmanna. Já eða nei.