Helgarsprokið 13. febrúar 2011

44. tbl. 15. árg.

Þ

Viðhorf forstjóra Landsvirkjunar til eigenda vatnsréttinda eru að þeir séu aðeins einn af mörgum aðilum sem hafi eitthvað með réttindin að gera.

að gæti farið svo að ekki verði fengin endanleg niðurstaða um verð á vatnsréttindum sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar áður en 10 ár verða liðin frá því framkvæmdir hófust.

Þetta þýðir að virkjunin hefur malað árum saman án þess að náðst hafi samningar við eigendur vatnsréttindanna um nýtingu þeirra.

Slík undur geta aðeins átt sér stað þar sem ríkið hefur rúma eignarnámsheimild og getur hrifsað eignarréttindi af mönnum og í raun gert þau að ríkiseign eða eins og nú er í tísku að segja: þjóðareign.

Vefþjóðviljinn veik lítillega að þessu máli 2. febrúar. Miðvikudaginn 9. febrúar var svo farið yfir málið í Kastljósi Ríkisútvarpsins.

Þar var meðal annars rætt við Hörð Arnarson forstjóra Landsvirkjunar. Hörður lýsti því nýlega yfir að þátttaka ríkissjóðs í nokkur hundruð milljarða fjárhættuspili með þrotabú Landsbankans gæti hugsanlega hjálpað Landsvirkjun að fá nokkra milljarða að láni hjá einhverri byggðastofnun Evrópusambandsins.

En Hörður er með fleiri áhugaverð sjónarmið í pokahorninu. Hann lýsti viðhorfum sínum til vatnsréttinda með þessum hætti í Kastljósinu.

Þetta er í raun og veru þessi grundvallarumræða um skiptingu arðseminnar í framtíðinni, sem þarf að eiga sér stað. Eins og nálgunin er í þessari umræða sem við erum að fara í gegnum núna, nálgast þetta úr frá því að landeigandinn eigi mjög ríkan rétt í þessu en það má líka alveg færa rök fyrir því að þjóðin eigi líka rétt í þessu.

Hver eru þau rök spurði þá Þóra Arnórsdóttir sjónvarpsmaður vongóð .

Auðlindirnar hérna á Íslandi, orkuauðlindirnar, þær hérna eru í eigu landeigendanna en þau samt eins og vatnorkan hún kemur samt úr jöklunum. Og síðan er það bara aldrei umræða sem hefur farið fram, ef að þessi umframarðsemi myndast, hver gerir tilkall til hennar. Ég er viss um að ef þú spyrðir fólkið á götunni þá myndi fólk á götunni telja sig eiga tilkall til þess. En á sama hátt telja landeigendur sig eiga tilkall til þess, sveitarfélög telja sig eiga tilkall til þess og orkufyrirtæki telja sig eiga tilkallatil þess. Allir hafa nokkuð til síns máls en aðalmálið er að það verði gegnsæjar reglur sem horfa langt fram í tímann og það myndist sem mest sátt um þá skiptingu sem ákveðin verður.

Hvernig er hægt að tala svona um eigur fólks? Jú í upphafi skapaði Guð himinn og jörð og jöklana og ef fólkið á götunni væri spurt myndi það örugglega vilja fá sneið af eigum annarra. Og svo allir aðrir líka, sveitarfélögin og ríkisfyrirtækið sem ég er í forsvari fyrir. Allir sem reyna að hrifsa eitthvað til sín af eigum annarra hafa nokkuð til síns máls! Það þarf bara að hirða vatnsréttindin af landeigendum með gegnsæjum hætti þannig að flestir sem eiga ekki réttindin verði sáttir.