Laugardagur 12. febrúar 2011

43. tbl. 15. árg.

V ignir Már Lýðsson birti á dögunum samantekt í Pressunni yfir helstu viðmælendur Egils Helgasonar í þættinum Silfur Egils frá hausti 2008. Niðurstöðurnar koma ekki ekki beinlínis á óvart. Mikill meirihluti (73%) viðmælenda er vinstrisinnaður. Egill hefur svarað því til að í þeim hópi séu uppreisnarseggir úr stjórnarliðinu. Það var og. Þegar bent er á vinstri slagsíðu er ekki alveg nógu góð skýring að í hópnum séu líka menn úr villtasta vinstrinu, á borð við Lilju Mósesdóttur. Egill hefur jafnframt vefengt að nokkrir úr þessum hópi séu í raun til vinstri. Á hann þá við frá sínum bæjardyrum séð?

Það er einnig umhugsunarefni að í þessum tuttugu manna hópi eru nokkrir sem eru með greiðan aðgang að öðrum fjölmiðlum eða jafnvel öðrum rásum Ríkisútvarpsins. Á toppi listans trónir Sigrún Davíðsdóttir sem einnig gapir að vild í Spegli Ríkisútvarpsins. Fyrir hrun vann Sigrún meðal annars fyrir sér með því að fara á milli íslenskra útrásarfyrirtækja og færa spekina úr forstjórum þeirra í letur. Að viðtölum loknum hélt Sigrún upp í Viðskiptaráð Íslands og seldi þau ráðinu svo gefa mætti út í skýrslu með stuðningi þriggja banka. Viðskiptaráð baðst nýlega afsökunar á „stuðningi við innihaldslítinn ímyndaráróður“ frá þessum tíma. En einnig má nefna í þessu samhengi Agnesi Bragadóttur, Þorvald Gylfason og jafnvel Gunnar Smára Egilsson, Jóhann Hauksson og Ólaf Arnarson. Fjölmiðlamenn að tala við fjölmiðlamenn.

Flestar kannanir benda til að fjölmiðlamenn séu frekar til vinstri en hægri. Það er því viðbúið að halli á hægrimenn ef fjölmiðlamenn eru mikið að ræða hver við annan. Þar við bætist að nú um stundir eru hægrimenn á þingi og í sveitarstjórnum óvenju fáir og einhver myndi jafnvel segja óvenju daufir líka. Ef fjölmiðlar vilja sinna svonefndu aðhaldshlutverki sínu gagnvart stjórnvöldum hafa þeir þar sérstaka ástæðu til að gefa sjónarmiðum hægrimanna gaum.

Það versta við þessa niðurstöðu Vignis Más fyrir Ríkisútvarpið, sem lögum samkvæmt á að tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag, er þó ekki þessi niðurstaða út af fyrir sig heldur að Silfur Egils er sennilega skásti þáttur stofnunarinnar hvað þetta varðar.