Föstudagur 11. febrúar 2011

42. tbl. 15. árg.

S jaldan bregst Ríkisútvarpið. Í gær dæmdi Hæstiréttur að Svandís Svavarsdóttir hefði með löglausum hætti neitað að staðfesta aðalskipulag sveitarfélags, en það hafði hún vitanlega gert til að hindra sveitarfélagið í að leyfa framkvæmdir sem Vinstrigrænir eru á móti. Þar sem aðalskipulag hefur ekki fengist í gildi hafa menn ekkert getað framkvæmt og vafalaust töluvert tjón orðið af þeim sökum. Í aðalfréttatíma sínum í gær frétti Ríkissjónvarpið alls ekki af málinu. Það var ekki fyrr en langt var liðið á tíufréttir sem fréttastofan lét svo lítið að segja sjónvarpsáhorfendum frá málinu og þá var það afgreitt á 33 sekúndum. Ekkert viðtal, engar spurningar. Bogi Ágústsson sat einfaldlega í fréttasettinu og las þetta upp með sínum líflega hætti.

Hvernig ætli Ríkissjónvarpið hefði farið að ef ekki væri vinstristjórn? Þegar vinstrimenn voru ekki við völd þá gekk allt af göflunum ef einhverjum álitsgjöfum þóttu ráðherrar ekki hafa fylgt stjórnsýslureglum í hörgul. Álit kærunefnda jafnréttismála og slíkra aðila voru rædd dögum saman í fréttatímum, speglum og kastljósum. En þegar Svandís Svavarsdóttir er dæmd í Hæstarétti fyrir að misbeita valdi til að ná pólitísku markmiði, nægja 33 sekúndur í seinnifréttum.

E n þeir á Ríkissjónvarpinu eru kannski uppteknir við fréttaskýringar. Á þriðjudaginn sögðu þeir til dæmis frá þeirri áherslu sem ASÍ leggur nú á að verkamannabústaðakerfið verði endurvakið. Berglind Häsler fréttamaður upplýsti áhorfendur um stjórnmálaþróunina: „Byggingarfélag alþýðu hóf að byggja verkamannabústaðina hér við Hringbraut árið 1931. Fyrirkomulaginu var ætlað að tryggja tekjulágum öryggi í húsnæðismálum.“ Næst kom Gylfi Arnbjörnsson á skjáinn og hrósaði kerfinu. Þá kom Berglind aftur og hélt áfram: „Fyrirkomulagið var lagt af 1995 og var ástæðan fyrst og fremst pólitísk. Þá vék Alþýðuflokkurinn úr stjórn fyrir Framsóknarflokknum og hugmyndafræði frjálshyggjunnar tók við. Betra þótti að íbúðir væru á frjálsum markaði.“ Og þá sló Gylfi Arnbjörnsson botninn í þessa fróðlegu frétt: „Það var allt notað til þess að koma þessu kerfi í lóg af því það átti að vera hin mikla frelsun að fara í þetta leigufyrirkomulag og húsaleigubætur, vaxtabætur. En reynslan hins vegar af þessu hvoru tveggja, húsaleigubótum og vaxtabótum, er þannig að alþingismenn hafa verið mjög uppteknir af því að skerða þetta ár fyrir ár og þess vegna er þessi aðstoð engan veginn nægileg til þess að aðstoða fólk á lágum tekjum.“

Þannig er þetta nú. Hér var fínt og félagslegt kerfi þar til Alþýðuflokkurinn fór úr stjórn og „hugmyndafræði frjálshyggjunnar tók við“. Og sú hugmyndafræði felst auðvitað í því að fólk eignist helst ekki húsnæði heldur leigi, og sem flestir dragi fram lífið á bótum. Húsaleigubætur og vaxtabætur eru auðvitað skýrt dæmi um að „hugmyndafræði frjálshyggjunnar“ hafi tekið völdin.

Í gærmorgun ræddi Lísa Pálsdóttir við Ingu Svölu Þórsdóttur í þættinum Okkar á milli á Rás 1. Inga Svala hefur dvalist tíðum í Kína og sagði frá þróun mála þar. Taldi hún Kínverja hugsa mjög um umhverfismál og væru þeir til dæmis mjög áhugasamir um sólarorku. Stjórnandinn spurði þá, eins og hvergi yrði spurt nema í íslenska Ríkisútvarpinu: „Þá verður manni kannski svolítið hissa þegar maður hugsar um mannréttindi á móti. Þeir hafa áhuga á umhverfinu en mannréttindi eru líka eitthvað sem fólk hefur áhyggjur af í Kína. Ekki þar fyrir, að mannréttindamál eru í rúst í mörgum stöðum í heiminum, meðal annars í Bandaríkjunum. Þegar maður svona horfir úr fjarlægð frá Íslandi þá veit maður nú ekki hvort er réttara, en þetta er nú samt, mannslífið er einhvern veginn minna virði þegar það eru milljarðar sem að búa á svæðinu.“

Þannig er þetta nú. Fólk hefur einhverjar áhyggjur af mannréttindamálum í Kína en mannréttindamál eru auðvitað víða í rúst, meðal annars í Bandaríkjunum. Ekki auðvelt að segja hvort er verra.

Enda er það auðvitað þannig, að reglulega stöðvar strandgæsla vafasöm flutningaskip, þar sem þúsundir Bandaríkjamanna hafa troðið sér matarlausir og vatnslitlir í kalda gáma, í von um að komast yfir í kínverska frelsið.

Svona er heimsmyndin í Efstaleiti.