Fimmtudagur 3. febrúar 2011

34. tbl. 15. árg.
C‘est pire qu‘un crime, c‘est une faute.
– Antoine Boulay de la Meurthe.

N ú ættu að koma Andríkispunktar. En Vefþjóðviljanum hafa svo gjörsamlega fallist hendur að það er ekki víst að hann ráði við þá. Hvernig getur fólk farið svona ótrúlega að ráði sínu? Við hliðina á forystu Sjálfstæðisflokksins væri Neville Chamberlain djarfur leiðtogi sem molaði andstæðinga sína mélinu smærra áður en þeir fengju ráðrúm til að átta sig. Getur verið að Adolf Ingi Erlingsson hafi haft þingflokk Sjálfstæðisflokksins í huga, þegar hann hrópaði sínar furðulegu spurningar: Hvaðan kom hann? Hvert er hann að fara? Hvað er hann? Og eins og Adolf Ingi bætti við eftir stutta umhugsun: Hvernig er þetta hægt?

Ákvörðun forystu Sjálfstæðisflokksins að styðja Icesaveánauðar-frumvarp ríkisstjórnarinnar er með slíkum ólíkindum að… að… nei það er ekki hægt að ljúka setningunni með nokkru viti. Þetta er bara of vitlaust.

Ekki þarf að þylja hér upp þau yfirgnæfandi rök sem eru gegn því að gangast undir Icesave-ánauðina. En það er ljóst að forysta Sjálfstæðisflokksins skilur þau ekki. Sjálf hefur hún engin nothæf rök fyrir sinni furðulegu afstöðu, sem gengur auðvitað þvert gegn skýrri og eindreginni afstöðu landsfundar Sjálfstæðisflokksins um málið. Það er skemmtileg tilhugsun fyrir sjálfstæðismenn og annað frjálslynt fólk, að Þór Saari hafi skynsamlegri afstöðu til Icesave-ánauðarinnar en formaður, varaformaður og meginþorri þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Steingrímur J. Sigfússon var skiljanlega mjög hress í gær. Hann bar lof á þingflokk Sjálfstæðisflokksins og þá einkum Bjarna Benediktsson. Sagði Steingrímur ábúðarmikill að Bjarni væri sjálfum sér samkvæmur. Ætli nokkur maður hafi fengið glæsilegri pólitísk eftirmæli? Steingrímur J. Sigfússon, af öllum mönnum, segir að hann sé „sjálfum sér samkvæmur“.

Ásbjörn Óttarsson situr í fjárlaganefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var mættur í gær í þingsalinn að tala fyrir Icesaveánauðar-frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Getur maðurinn ekki fundið sér heiðarlega vinnu einhvers staðar?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir situr einnig í fjárlaganefndinni og stóð að áliti ásamt Ásbirni og Kristjáni Þór Júlíussyni um að Íslendingar skuli án tafar greiða 26 milljarða króna í uppsafnaða vexti af ólögmætri kröfu Breta og Hollendingar og svo tugi eða hundruð milljarða í framtíðinni. Allt eftir því hvaða tölur koma upp úr rúllettunni sem þrotabú Landsbankans er. En í alvöru, átti einhver von á að Þorgerður Katrín myndi láta þá sem efndu til milljarða útgjalda sitja uppi með skuldirnar?

Formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti í gær á „facebook“-síðu sinni að hann hefði ákveðið að styðja Icesaveánauðar-frumvarp ríkisstjórnarinnar. Fyrir því hefur hann engin nothæf rök. Hann talar um að núverandi samningur sé miklu betri en sá síðasti hafi verið. Jú, hann er aðeins skárri, en það er vegna þess að hinn síðasti var svo óhugnanlega slæmur að um hann finnast vart nægileg lýsingarorð. Sá núverandi getur kostað íslenska skattgreiðendur á þriðja hundrað milljarða króna og það í erlendum gjaldeyri. Því fer mjög fjarri að á milli þessara samninga tveggja sé himinn og haf.

Núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins virðist telja áhættu fólgna í því að málið verði lagt fyrir dómstóla. En það er nú ekki eina og ekki versta áhætta málsins.

Það má hugsa sér tvenns lags atburðarás:

  • Í þeirri fyrri lækkar gengi íslensku krónunnar 2% á ársfjórðungi til 2016. Fyrsta greiðsla úr þrotabúi berst ekki fyrr en 1. apríl 2012 ásamt því að innheimtur úr þrotabúi lækki um 10% frá áætlun skilanefndar. Kostnaður ríkissjóðs Íslands verður 233 milljarðar króna.
     
  • Í þeirri síðari taka Bretar og Hollendingar þá áhættu að leggja kröfur sínar fyrir dómstól, vitandi það að tap í málinu gæti þýtt að allt bankakerfi þeirra kæmist í uppnám, fólk sæi vanmátt innstæðutryggingakerfisins í hendi sér og stórfelld áhlaup hæfust á evrópska banka. Þrátt fyrir þessa áhættu fara Bretar og Hollendingar í málið og þrátt fyrir að engin lagaleg skylda hvíli á Íslendingum, þá vinna þeir málið.

Hvor atburðarásin er nú líklegri? Og hvaða afleiðingar hefði nú hvor um sig? Sú fyrri myndi, ef Icesave-ánauðarfrumvarpið verður samþykkt, kosta íslenska skattgreiðendur um tvöhundruð milljarða króna í erlendum gjaldeyri. Sú síðari myndi þýða að Íslendingum bæri að greiða sömu kröfu og ríkisstjórnarflokkarnir þrír vilja semja um, en hugsanlega á hærri vöxtum.

Af einhverjum ástæðum virðist forysta Sjálfstæðisflokksins hafa miklar áhyggjur af síðari atburðarásinni en engar af þeirri fyrri. Þó ættu flestir að sjá að það er einmitt sú fyrri sem er mun líklegri.

Eins og flestir vita hefur landsfundur Sjálfstæðisflokksins tekið mjög skýra afstöðu í málinu. Hann hafnaði með afgerandi hætti kröfum Breta og Hollendinga og sagði þær löglausar. Það orðalag var afar mikilvægt. Fyrir fundinum lágu drög þess efnis að fundurinn hafnaði kröfunum af því þær væru ósanngjarnar. Slíkt orðalag hefði gefið forystunni færi á að samþykkja kröfurnar síðar, aðeins breyttar, með þeim rökum að þær væru ekki lengur ósanngjarnar. En fundurinn breytti drögunum með sérstakri samþykkt, þar sem hann tók fram að kröfurnar væru löglausar. Það eru þær enn. Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur enga heimild til að ganga nú til liðs við vinstristjórnina en gegn landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Auðvitað eru þingmenn ekki bundnir við samþykktir eigin landsfunda, þegar þeir greiða atkvæði í þingsal. Ef sannfæring þeirra leyfir ekki að þeir fylgi skýrri og afgerandi samþykkt landsfundar í grundvallarmáli, þá fylgja þeir sannfæringunni en ekki stefnu flokksins. En, og það er líka grundvallaratriði: Jafnframt láta þeir auðvitað af trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Ef að formaður eða varaformaður Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með Icesave-ánauðarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar þá verða þau tafarlaust að láta af þeim störfum sínum á vegum Sjálfstæðisflokksins. Þau verða bæði að vita það, að sé í raun svo, að sannfæring þeirra í slíku máli liggi í fangi Jóhönnu og Steingríms en gegn landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þá skilur að sjálfsögðu leiðir með þeim og Sjálfstæðisflokknum þar með.

Ungir sjálfstæðismenn í Reykjavík fóru í gærkvöldi fram á það að landsfundur yrði kallaður saman hið fyrsta. Sú krafa blasir við.

Vefþjóðviljinn ætti að segja margt fleira um þessi ótrúlegu tíðindi, en er einfaldlega orða vant. Í öllum áttum heyrist í nær lömuðum flokksmönnum sem skilja hvorki upp né niður. Vonbrigðin eru gríðarleg en skýringarnar eru engar. Eða svo vitnað sé í franska stjórnmálamanninn sem ofbauð eitt tiltæki Napoleons: Þetta er verra en glæpur. Þetta er heimska.