„Við segjum NEI við löglausum kröfum Breta og Hollendinga.“ |
– Landsfundur Sjálfstæðisflokksins. |
„Who cares? VIÐ segjum já við löglausum kröfum Breta og Hollendinga.“ |
– Forysta Sjálfstæðisflokksins. |
S egir það ekki talsverða sögu, hvernig viðhorf sumra fjölmiðla til forystu Sjálfstæðisflokksins hafa breyst skyndilega, nú þegar hún er komin í launalausa vinnu hjá vinstristjórninni? Árum saman hafa fjölmiðlamenn reynt að finna dæmi og gera sem mest úr innri deilum í Sjálfstæðisflokknum. Í gærkvöldi birtist hins vegar sérstök frétt á Stöð 2, þess efnis að úrsagnir úr Sjálfstæðisflokknum hefðu í gær ekki verið fleiri en svona þrjátíu. Í ljósi þess hve flokkurinn væri gríðarlega fjölmennur, þá væri það mjög lítið. Nú telja fjölmiðlamenn skyndilega að ólga í Sjálfstæðisflokknum sé ofmetin og að flokkurinn sé gríðarleg fjöldahreyfing. Bloggandi Samfylkingarmenn héldu þessu sama ákaft fram í gær, enda hafa þeir lengi verið kunnir af varðstöðu um Sjálfstæðisflokkinn.
Af hverju hefði mikill fjöldi manna átt að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum? Stefna hans í Icesave-málinu er eindregin og skýr af landsfundar hálfu. Nokkrir forystumenn hafa svikið flokksfélaga sína, en það kallar ekki á úrsögn þeirra sem ekkert hafa gert af sér. Auðvitað er meginþorri flokksmanna ævareiður. En þeir bíða rólegir, hver á sínum stað. Senn koma prófkjör og einhvern tíma verður núverandi forysta að halda landsfund. Allt hefur sinn tíma.
Þ að blasir við öllum að með nýjustu afstöðu sinni til Icesaveánauðarinnar fer forysta Sjálfstæðisflokksins gjörsamlega gegn afdráttarlausri ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Ályktunin var sú, eins og menn muna vel, að Sjálfstæðisflokkurinn hafnar löglausum kröfum Breta og Hollendinga. „Við segjum NEI við löglausum kröfum Breta og Hollendinga“, sagði landsfundur hreinlega, en núverandi forysta ætlar að segja já, við löglausum kröfum þessara landa.
Í gærkvöldi urðu sjónvarpsáhorfendur vitni að því er Bjarni Benediktsson hélt því fram opinberlega, að afstaða forystu Sjálfstæðisflokksins til Icesaveánauðarinnar væri hreinlega „í fullu samræmi“ við þessa ályktun landsfundar.
Slíkur málflutningur er algjörlega ótrúlegur. Landsfundurinn hafnaði kröfunum sem löglausum, en forysta sama flokks hefur samþykkt að Ísland skuli greiða þær. Það er útilokað að láta eins og þetta fari saman. Landsfundur ákvað sérstaklega að Sjálfstæðisflokkurinn segði „NEI við löglausum kröfum Breta og Hollendinga“, en Bjarni sagði í Kastljósi að í því fælist einmitt að hann gæti mætt í þingsal og sagt „já“ við löglausum kröfum Breta og Hollendinga – bara af því að hann sé sammála landsfundi um að krafan sé löglaus. En landsfundur sagði ekki bara að kröfurnar væru löglausar. Landsfundur ákvað, að þar sem kröfurnar eru löglausar þá segði flokkurinn „NEI“ við þeim. Það er þetta „NEI“ sem forystan verður að segja á þingi, ætli hún ekki í stríð við eigin flokk.
„Við segjum NEI við löglausum kröfum Breta og Hollendinga“, segir í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins. Núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins segir hins vegar já við löglausum kröfum Breta og Hollendinga. Hún heldur að hún komist upp með þetta, hún heldur að flokksmenn muni einhvern tíma taka hana í sátt.
Svo furðar einhver sig á því að venjulegir sjálfstæðismenn séu sem lamaðir af undrun, vonbrigðum og reiði.