Á
Stíflan við Hálslón á loftmynd Emils Þórs Sigurðssonar. |
dögunum komst héraðsdómur Austurlands að þeirri niðurstöðu að vatnsréttindi landseigenda á Jökulsárdal vegna Kárahnjúkavirkjunar skuli metin á 1,6 milljarða króna. Þessir landeigendur, sem eru eigendur hluta vatnsréttinda við Jökulsá á Dal og Kelduá, fóru upphaflega fram á öll vatnsréttindi vegna virkjunarinnar yrðu metin á 96 milljarða króna. Ósamið var við eigendur vatnsréttindanna þegar framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun hófust og hafði raunar ekkert verið við þá rætt. Með eignarnám í uppsiglingu samþykktu landeigendur að leggja málið fyrir matsnefnd árið 2005. Þeir urðu afar ósáttir við niðurstöðu nefndarinnar og lögðu málið í dóm. Dómurinn staðfesti niðurstöðu matsnefndarinnar.
Jakob Bjarnar Grétarsson, einn landeigenda, sagði í viðtali við Vísi að dómurinn væri „hneyksli“. Jakob og níu meðeigendur hans að Eiríksstöðum fóru fram á 2.086 milljónir fyrir réttindi sín en fengu 43. Landeigendur benda jafnframt á að með þessum dómi megi segja að öll vatnsréttindi á Íslandi séu aðeins um 12 milljarða króna virði. En auðvitað má spyrja hvort ónýtt vatnsréttindi á Íslandi séu ekki verðlaus á meðan þessi ríkisstjórn er við völd? Er ekki svo gott sem bannað að virkja þessa stundina?
En hvað gerðist í raun þarna fyrir austan? Jú þarna verður ekki betur séð en að krafan um „þjóðareign“ á auðlindum hafi að mestu náð fram að ganga. Verðmiði landeigenda á vatnsréttindum var 96 milljarðar króna í ýtrustu kröfu en ríkið leysti þennan hluta til sín (Landsvirkjunar) á 1,6 milljarða. Ef eigendur vatnsréttindanna hefðu staðið fast á sínu og ríkið ekki haft heimild til eignarnáms má vera ljóst að ekki hefði verið virkjað. Að minnsta kosti hefði þessi auðlind verið verðlögð með öðrum og gæfulegri hætti. Fleiri en ríkið hefðu getað boðið í réttinn. Þar á meðal náttúruverndarsamtök.
Tillagan um „þjóðareign á auðlindum“ er í raun tillaga um að ríkið þurfi framvegis ekki einu sinni að hafa fyrir því að gera eignarnám og greiða mönnum einhverjar bætur fyrir aðgang að auðlindum. Það getur bara gert það sem því sýnist við auðlindir lands og sjávar.
Eru menn virkilega vissir um að það sé betra að hafa allar auðlindir og nýtingarrétt þeirra á einni hendi í stað þess að rétturinn sé dreifður á meðal bænda, landeigenda, veiðifélaga, útgerðarmanna og annarra þeirra sem öðlast hafa rétt í aldanna rás, allt frá landnámi til kvótakaupa?