Helgarsprokið 30. janúar 2011

30. tbl. 15. árg.

L íklega hefði ekki minna dugað en allsherjar hrun fjármálakerfisins til að Íslendingar leiddu Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon til valda. Að vísu var Jóhanna ráðherra þegar ósköpun dundu yfir og hafði varið mánuðunum á undan í að lokka fólk til kaupa á íbúðarhúsnæði með því að auka möguleika þess á lánum frá Íbúðalánasjóði sem er nú gjaldþrota og mun þurfa stórfellda aðstoð skattgreiðenda.

Þótt það sé ekki nýtt að bankar á Íslandi hafi farið á hliðina var það nýlunda að þeir væru orðnir svo stórir að ríkið gæti ekki rétt þá við með einhverjum hætti. Svona og eins og Útvegsbankann á níunda áratugnum, Landsbankann á þeim tíunda og Byggðastofnun á öllum þeim áratugum sem hún hefur starfað.

Margir vinstri menn gældu við þá hugmynd eftir hrun bankanna að Íslendingar myndu nú færa sig varanlega til vinstri í stjórnmálum og töldu niðurstöður alþingiskosninganna 2009 til marks um það.

En Margrét Hugrún Gústavsdóttir, sem skrifar á Eyjuna, býður hins vegar upp á aðra skýringu á því hvers vegna við sitjum nú uppi með Jóhönnu sem forsætisráðherra. Vefþjóðviljinn leyfir sér að vitna í pistil hennar að mestu leyti.

Þegar hrunið blasti við fékk þjóðin áfall. Allt í einu komumst við að því að fólkið sem átti að gæta hagsmuna okkar lét sig þá litlu varða. Peningum okkar var sólundað í vitleysu og hver lygin lagðist ofan á aðra. Það var illa farið á bak við okkur. Það var logið að okkur. Við vorum blekkt. Við fengum áfall þegar tjöldin féllu.

Þetta er sambærilegt við það þegar þegar kona (eða karl) kemst allt í einu að því að maðurinn hennar hefur haldið framhjá henni árum saman. Með mörgum konum, í löngum samböndum, í langan tíma. Hann hefur líka verið sólgin í spilamennsku og eytt peningum þeirra beggja í sjálfan sig, hjákonurnar og glaumlifnað.

Konan fær áfall og skilur við manninn í kjölfarið. Hún rifjar upp öll árin með honum og finnur fyrir djúpstæðum tómleika og reiði þegar hún áttar sig á að hann var í raun í leikriti allan tímann.

Hún grætur í nokkrar vikur í tómlegri íbúðinni. Þetta skyldi sko aldrei koma fyrir hana aftur!

En af því hún vill ekki vera ein þá finnur hún sér annan mann og nú skal þetta vera maður sem hún getur TREYST.

Hún velur því týpuna sem „myndi aldrei halda framhjá henni“. Vinalegan, þybbinn, smávaxinn, kynþokkasnauðan náunga með þykk gleraugu. Konráð á lagernum. Konráð sem á í raun ekki neinn séns í aðrar konur. Konráð sem hún getur verið alveg ‘örugg’ með. Konráð sem hafði unnið með henni hjá P. Jónsson síðustu 20 árin.

Þannig var þetta með Jóhönnu.

Við hugsuðum: „Hún hefur að minnsta kosti ekki setið á bekknum í karlaklefanum og gert díla og samninga sem enginn vissi af. Hún er að minnsta kosti ‘vinur litla mannsins’ (allt í einu urðum við öll litli maðurinn). Hún er ekki líkleg til að hafa logið að okkur í góðærinu. Jóhanna er vammlaus. Hún er sú eina sem kemur til greina.“

Og það er væntanlega rétt. Jóhanna er eins og maðurinn með kartöflunefið og gleraugun. Hann svíkur ekki undan skatti og gerir enga samninga í skjóli nætur. En hann gerir heldur ekki neitt annað. Hann situr bara og jarmar eitthvað eftir smag og behag en gerir ósköp lítið af því hann er svo óttalega goslaus greyið. Hann hefur hvorki vitið, áræðnina né kraftinn. Hann er meira að segja feiminn og kann illa við að koma fram. Kann ekki einu sinni ensku.

Það tók vinkonu okkar ekki langan tíma að verða leið í þessu sambandi. Það gerðist ekki neitt. Hann gerði aldrei neitt. Hún fékk leið á þessum ‘rebound’ manni sínum, horfði á sjálfa sig í speglinum og velti því fyrir sér hvað hún hafi eiginlega verið að hugsa. Stuttu seinna sleit hún sambandinu.

Svona er þetta með okkur.

Við erum bara manneskjur og allt hefur sinn tíma. Konráð gekk upp við þessar sérstöku og erfiðu aðstæður vinkonu okkar en svo var hans tími útrunninn og vinkona okkar ákvað að vera samkvæm sjálfri sér að nýju.

Nú er bara að vona að Konráð hlusti á hana og fari ekki að hegða sér eins og eltihrellir.

Mér skilst að það séu bara 9% sem vilja Konráð áfram.