Laugardagur 29. janúar 2011

29. tbl. 15. árg.

E nn er því haldið að fólki að ekkert bendi til að svindlað hafi verið í kosningu til stjórnlagaþingsins – og þess vegna þurfi ekki að taka ákvörðun hæstaréttar um að ógilda kosninguna af mikilli alvöru.

„Mér finnst að það eigi að leita allra leiða til að þessi kosning standi með einhverjum hætti“, sagði Þórhildur Þorleifsdóttir í viðtali við Morgunblaðið á fimmtudaginn. Allra leiða.

Nokkur af þeim atriðum sem hæstiréttur telur annmarka á kosningunni eru þó atriði sem lúta að því að mögulegt sé að ganga úr skugga um að kosning hafi farið eðlilega fram. Frambjóðendur hafa hingað til átt kost á því að hafa fulltrúa sína viðstadda bæði kosningu og talningu. Þeim var einfaldlega meinað það í stjórnlagaþingskosningunni.

Þeim frambjóðendum sem mættu í Laugardalshöll í þeim tilgangi að fylgjast með talningu var vísað í lokaðan glugga þar sem sjá mátt fólk í fjarska vera að mata talningarvélar á kjörseðlum. Þó segir í lögum að talning skuli fara fram fyrir „opnum dyrum“. Það er met að breyta lagafyrirmælum um opnar dyr í lokaðan glugga. Sennilega þarf ríkisstjórn með sérstaka áherslu á gagnsæi til að slíkt takist.