Þ
![]() |
Skattlögð sé minning hans. |
að blasir við á fleiri og fleiri sviðum að Ísland er nú undir vinstristjórn. Birtingarmyndir þess eru margar en vinstra eðlið blasir ekki hvað síst við þegar kemur að skattamálum. Og þá eru hinir efnalagslegu baggar, sem hin aukna skattheimta leggur á venjulegt fólk, ekki það versta, einir og sér.
Í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skattamálum sjást nefnilega svo greinilega í viðhorfin sem búa að baki flestu sem ríkisstjórnin gerir. Hún hækkar þannig ekki einungis allt of háa tekjuskatta, sem í öllum sínum ókostum eru þó lagðir á þær tekjur sem sumt fólk hefur, svo fólkið getur að minnsta kosti tæknilega greitt þá. Vinstristjórnin hefur einnig endurvakið eignaskattinn – þótt hún innheimti hann undir áróðursheitinu „auðlegðarskattur“ – og nú um áramótin tvöfaldaði hún erfðafjárskatt, svo nú verður tíunda hver króna sem látinn maður skilur eftir sig tekin í ríkissjóð með þökk fyrir kynnin.
Eignaskattur er lagður á eign fólks, hvort sem það fær tekjur eða ekki og hvort sem það á lausafé eða ekki. Þótt eignirnar gefi af sér engar tekjur, og eigandinn hafi af þeim mikil útgjöld, skal hluti eignanna samt tekinn í ríkissjóð á hverju ári. Þetta tókst loks að afnema fyrir nokkrum árum, en eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnar mannréttinda og velferðar var að hefja á ný skattlagningu eigna, óháð þeim tekjum sem þær gefa af sér. Þannig er hluti af eignum fólks gerður upptækur á hverju ári, og menn geta svo veðjað á hvort líklegra sé að það hlutfall verði í framtíðinni hækkað eða lækkað. Þegar menn falla loks frá, þá kemur ríkið og tekur til sín tíundu hverja krónu með erfðafjárskatti. Og ekki aðeins tíundu hverja krónu sem liggur á bankabók heldur tíunda hluta verðmætis hins látna fólks, sem hafði þó verið skattlagt alla tíð. Erfingjarnir geta þá bara gert svo vel og selt gumsið svo að Steingrímur, Katrín og félagar fái peninginn sem þau þurfa fyrir stjórnlagaþinginu og öðrum lífsnauðsynjum.
Þegar borgari fellur frá, hvers vegna þarf ríkið að vera fyrsti syrgjandinn á vettvang og hlaupa á brott með tíundu hverja krónu sem hinn látni lætur eftir sig? Hvers vegna þarf leiðið líka að breytast í féþúfu? Ætli hefðbundna öfundin eigi þar einhvern þátt? Að einhvers staðar sitji fólk og bölvi því óréttlæti að nágranninn erfi allt í einu afa sinn og hafi skyndilega efni á nýjum bíl?
Erfðafjárskattur er sérlega ógeðfelldur skattur. Það þarf ekki að koma á óvart að það hafi verið eitt af forgangsmálum núverandi ríkisstjórnar að tvöfalda hann.