Fimmtudagur 6. janúar 2011

6. tbl. 15. árg.

Þ að getur verið gaman að fylgjast með Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra reyna að bera sig mannalega þegar raunveruleikinn og hugmyndaheimur hans eiga litla samleið. Fáir stjórnmálamenn eru í betri æfingu að þessu leyti enda styttist óðfluga í þrjátíu ára samfellda þingmennsku. Steingrímur var til dæmis í viðtali við mbl.is í gær um skattamál.

Þar sagði fjármálaráðherrannþað hafa heppnast mjög vel að menn fái endurgreiddan allan virðisaukaskatt af ákveðinni byggingavinnu. Þessi 100% en afmarkaða lækkun á virðisaukaskatti hefur að hans mati skilað sér til ríkissjóðs og gott betur. Umsvif hafi aukist og starfsemi komið upp á yfirborðið. Steingrímur segir aðgerðina „hafa heppnast alveg geysilega vel“ og sér varla kinnroða á honum.

En hvaða áhrif ætli það hafi á alla aðra starfsemi en þá sem naut þessarar ívilnunar að tekjuskattur bæði einstaklinga og fyrirtækja hefur verið snarhækkaður, tryggingargjald sömuleiðis og einnig skattar á mikilvægar rekstarvörur eins og eldsneyti?

Það er að sjálfsögu bara „óhjákvæmileg tekjuöflun“ að mati Steingríms.

Hárgreiðslukonan og snyrtidaman fengu til að mynda enga svona geysilega vel heppnaða skattalækkun eins og rafvirkinn, smiðurinn og múrarinn. Þær fengu bara að taka þátt í hinni óhjákvæmilegu tekjuöflun Steingríms. Það er væntanlega hluti af kynjuðu fjárlagagerðinni.