Föstudagur 31. desember 2010

365. tbl. 14. árg.

Á R A M Ó T A Ú T G Á F A

N ú þegar árið 2010 gengur sína leið með sérhverri sinni gleði og þraut, hefur Vefþjóðviljinn tekið saman nokkur þau atriði sem ekki ættu að hverfa með því.

Pönk ársins: Besti flokkurinn bauð fram til að hæðast að froðu og innantómu málæði hinna hefðbundnu stjórnmálamanna. Eftir kosningar myndaði hann meirihluta með Degi B. Eggertssyni.

Stjórnmálaskólastjóri ársins: Bryndís Hlöðversdóttir fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar var ráðin skólastjóri stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar. Hún tók við af Magnúsi Árna Magnússyni fyrrverandi þingmanni Jafnaðarmanna. Hann tók við af Ágústi Einarssyni fyrrverandi þingmanni Þjóðvaka. Hann tók við af Runólfi Ágústssyni fyrrverandi efsta manni á framboðslista Þjóðvaka á Vesturlandi.

Ósanngirni ársins: Steingrímur J. Sigfússon taldi ósanngjarnt og „ódýrt“ að „hengja þessa [Icesave]samninga á nöfn einstaklinga”, en allir sem að þeim hefðu komið hefðu reynt að gera sitt besta.

Hjartasorg ársins: Steingrímur J. Sigfússon kvaðst vera með sorg í hjarta eftir að hafa greitt því atkvæði að Geir Haarde og þrír aðrir yrðu ákærðir fyrir að hafa ekki gert nóg til að koma Icesave-reikningum Landsbankans undan íslenska ríkinu.

Aðfarir ársins: Skráðar og óskráðar reglur voru fótum troðnar við „kosningu“ til stjórnlagaþings. En ráðamenn vilja fá þetta þing, svo því verður troðið ofan um kokið á fólki, hvað sem hver segir.

Fréttanef ársins: Sigmar Guðmundsson fjallaði í Kastljósi um ævisögu Jónínu Benediktsdóttur. Hann taldi áhugaverðast í bókinni að hún hefði oft verið drukkin, í ójafnvægi og óbilgjörn við menn.

Tryggingafélagssölumaður ársins: Már Guðmundsson stýrði sölunni á Sjóvá í höfn. En því miður á ytri höfnina.

Nokkrir ársins: Í kynningu hinnar merku ævisögu Björgvins G. Sigurðssonar sagði ítrekað: „Björgvin G. Sigurðsson varð ungur viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Nokkrum mánuðum síðar brast á mesta fárviðri efnahags-og stjórnmála sem um getur í Íslandssögunni.“ Björgvin varð ráðherra í maí 2007. Bankarnir fóru í þrot haustið 2008.

Vinnubrögð ársins: Meira en tveimur mánuðum eftir ósk þar um, og eftir samráð við sækjanda, ákvað landsdómur hreinlega að skipa Geir Haarde verjanda.

Skýring ársins: Landsdómur gaf þá skýringu á þessari bið, að ekki hefði verið ljóst hvort líta ætti svo á að Geir væri ákærður frá og með samþykkt Alþingis eða hvort miða ætti við útgáfu saksóknara á ákæru. Þeir sem þurftu tvo mánuði til að komast að niðurstöðu um þetta flókna efni, þeir eiga að dæma Geir Haarde fyrir að hafa ekki séð við þroti bankanna

Akkerislega ársins: Haraldur Örn Ólafsson fór ekki kringum hnöttinn á þríhjóli á árinu. Allt til þess að Ingþór kæmist ekki í áramótaannálinn.

Ólestur ársins: Álitsgjafar, bloggarar og reiðir ráðherrar taka reglulega fram að Morgunblaðið sé mjög vont og illa skrifað blað, sem þeir lesi aldrei staf í.

Léttir ársins: Sóley Tómasdóttir upplýsti að það hefði ekki verið eins „hræðilegt“ og hún hefði búist við, að eignast dreng.

Heimur ársins: Már Guðmundsson skýrði Jóhönnu Sigurðardóttur frá því að „í hinum alþjóðlega seðlabankaheimi“ væri grannt fylgst með því hvort hann fengi 400.000 króna launahækkunina sem honum hefði verið lofað í forsætisráðuneytinu, þrátt fyrir úrskurð kjararáðs. Það myndi hafa slæm áhrif á orðspor Íslands ef launin yrðu ekki hækkuð.

Tillitssemi ársins: Fréttamenn, sem tala þó við Má flesta daga, láta jafnan ógert að spyrja hvort hinn alþjóðlegi seðlabankaheimur sé ekki farinn að ókyrrast yfir þessum launamálum. Þeir neita sér líka um að leita til erlendra seðlabankamanna vegna þessa alvarlega máls.

Gosi ársins: Jóhanna Sigurðardóttir gaf fólki sífellt lengra nef í svörum sínum um launamál Más. Allt þar til hún hætti einfaldlega að svara spurningum um þau, sem var það gáfulegasta sem hún hefur gert lengi.

Stjórnarflokkur ársins: Fréttastofa Ríkisútvarpsins.

Sameining ársins: Ákveðin var sameining dómsmálaráðuneytis og samgönguráðuneytis. Enginn virðist hafa minnstu áhyggjur af þeirri stöðu að æðsta vald lögreglu og innra öryggis og æðsta vald fjarskipta í landinu sé nú á einni hendi.

Klókindi ársins: Ásbjörn Óttarsson fór í Kastljósið til að tryggja fólk héldi ekki að hann hefði brotið eitthvað af sér í fyrirtækisrekstri sínum. Auðvitað er best að slá þessi mál bara út af borðinu í eitt skipti fyrir öll.

Beltismenn ársins: Besti flokkurinn vann mikinn kosningasigur, í kjölfar kosningabaráttu sem gekk út á að gera grín að þeim sem fyrir voru. Þegar þeir sjálfir höfðu náð völdum og voru gagnrýndir sögðu þeir Jón Gnarr og Einar Örn Benediktsson alla hina flokkana „vera með svarta beltið í einelti“.

Þúsundmannafundur ársins: Haldin var furðusamkoma, þar sem haldnir voru fjölmargir tíumanna-fundir og voru þar þulin upp ýmis stikkorð um heiðarleika og sanngirni. Nokkrir „sérfræðingar“ sitja nú og semja stjórnarskrárdrög, samkvæmt eigin löngunum, en með vísun í þessi stikkorð „þjóðarinnar“.

Stjórnskipunarvandi ársins: Njörður P. Njarðvík, stjórnskipunarsérfræðingur, sagði að á íslenskri stjórnskipan væri sá mikli galli að einstakir stjórnmálaforingjar réðu mestu um ýmsar lykilákvarðanir. Hann tók ekki fram, í hvaða lýðræðisríki svo væri ekki. Og var ekki spurður.

Hraðlestur ársins: Aðeins örfáum mínútum eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis kom út í níu bindum gátu álitsgjafarnir fullyrt sigri hrósandi að hún staðfesti einmitt allt það sem þeir hefðu alltaf sagt.

Hagræðing ársins: Allir íslenskir fjölmiðlar gerðu Svein Rúnar Hauksson að fréttaritara sínum í Mið-Austurlöndum.

Ósanngirni ársins: Sveinn Rúnar Hauksson var stöðvaður á landamærastöð í Ísrael. Eins og maðurinn hefur lagt á sig til að skapa sér traust Ísraelsmanna. Þetta eru þakkirnar.

Afnám ársins: Guðmundur Andri Thorsson skrifaði í Fréttablaðið að bankahrunið hefði orðið vegna þess „að öfgamenn um eftirlitsleysi, bóluvöxt og einkavæðingu höfðu komist til valda, afnumið allt regluverk, blásið upp bóluna og afhent gripdeildarmönnum banka og fjármálastofnanir.“ Því miður upplýsti Guðmundur Andri ekki hvaða reglur hefðu verið afnumdar, og hvað þá „allt regluverk“, á valdatíma þessara vondu öfgamanna um eftirlitsleysi.

Áhugaleysi ársins: Fjölmiðlamenn sameinuðust um að láta eins og þeir hefðu ekki heyrt neitt, þegar hvorki meira né minna en Hörður Torfason sagði um mótmælin við Alþingishúsið við þingsetninguna 2009: „Það er alveg greinilegt að þessu er ekki stjórnað, andstætt búsáhaldabyltingunni, því henni var miklu meira stjórnað á bak við tjöldin.“ Enginn fjölmiðill fylgdi því eftir að Hörður Torfason segði „búsáhaldabyltingunni“ hafa verið „stjórnað á bak við tjöldin“.

Stuðningsmaður ársins: Jóhanna Sigurðardóttir reyndi að sannfæra Björgvin G. Sigurðsson um að í raun væri það mjög fínt fyrir hann að verða ákærður fyrir landsdómi.

Harka ársins: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði ekki eitt einasta þakklætis- eða viðurkenningarorð til þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem allir sem einn greiddu atkvæði gegn því að hún yrði dregin fyrir landsdóm, tveimur mínútum eftir að samþykkt hafði verið, með fulltingi þingmanna Samfylkingarinnar, að ákæra Geir Haarde.

Heiðursmerki ársins: Eftir að Atli Gíslason hafði stýrt ákærunefnd Alþingis með alkunnum hætti, ákváðu virðuleg samtök, sem kalla sig Alþingi götunnar, og halda að það sé jákvætt heiti, að veita honum sérstakt heiðursmerki. Merkið sást á mynd í Morgunblaðinu og augljóst er hvert fyrirmyndin af því er sótt. Bæði félagsmenn og Atli virðast telja þetta allt mjög sæmilegt.

Útrásarvíkingur ársins: Baldur Guðlaugsson.

Niðurstaða ársins: Skúli Helgason greiddi því atkvæði að Geir Haarde yrði ákærður. Kvaðst hann hafa rannsakað málið mjög vel áður en hann hefði tekið ákvörðun: „Mín niðurstaða er sú að Geir H. Haarde, sem er fjármálaráðherra frá árinu 1995, hafi haft allar upplýsingar sem hann þurfti til þess að grípa til markvissra viðbúnaðaráætlana og tryggja það að þeim væri fylgt kröftuglega eftir“, sagði Skúli í viðtali eftir atkvæðagreiðsluna. Geir varð ekki fjármálaráðherra fyrr en 1998. Hvernig ætli flóknari atriði séu í huga þingmannsins?

Samstarfsmaður ársins: Jóhanna Sigurðardóttir sagði að sér þætti mjög miður að Geir Haarde hefði verið ákærður, því fyrir slíkri ákæru væri „ekkert tilefni“. Hún var næst spurð um áhrif málsins á stjórnarsamstarfið og sagði þau engin verða. Hún situr með öðrum orðum sallaróleg í ríkisstjórn með mönnum, sem að hennar mati hafa ákært mann að tilefnislausu.

Sérfræðivinna ársins: Nefnd Atla Gíslasonar, sem átti að vinna af alvöru að alvörumáli, réði til sín „kynjafræðinga“ til að gera úttekt á „karlmennskuhugmyndum“ í tengslum við bankahrunið.

Vísindi ársins: Kynjafræðingar Atlanefndar komust að þeirri niðurstöðu, að „hin menningarlega ráðandi karlmennska væri ekki föst stærð heldur breytileg. Af því leiðir að sú tegund karlmennsku sem gerir ráð fyrir jafnræði milli kvenna og karla er því hugsanleg“. Bættu kynjafræðingarnir því við, að mikilvægt væri „að fram fari úttekt á störfum karla og kvenna heima við“ enda hafi „ekki farið fram ítarleg rannsókn á þátttöku kvenna og karla í heimilisstörfum og umönnun barna“.

Sendinefnd ársins: Íslendingar sendu vaska sveit á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Ef marka má frammistöðu fulltrúanna á fundum væri kannski ráð að draga úr dagpeningum þeirra, en auka hugsanlega næturpeningana að sama skapi.

Endurkoma ársins: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sneri aftur á þing þegar Atlanefndin lauk störfum. Að vísu hafði enginn gert ráð fyrir að nefndin fjallaði um Þorgerði.

Herhvöt ársins: Birgitta Jónsdóttir sagði að þingmenn yrðu að hafa „hugrekki“ til að greiða atkvæði með ákærutillögum Atlanefndar. Það þarf nefnilega svo mikið hugrekki til að fylgja bumbuslögurum dægurumræðunnar.

Geðslegheit ársins: Margrét Tryggvadóttir sagði að það væri hreinlega „ógeðslegt“ að niðurstaða Atlanefndar væri gagnrýnd. Þá væri „verulega ámælisvert“ að gera lítið úr störfum fulltrúa í nefndinni. Sjálf vildi hún hins vegar ákæra annað fólk fyrir frammistöðu þess og hafði sjálf skrifað í bréfi að samþingmaður hennar væri líklega ekki heill á geði.

Umburðarlyndi ársins: Bjarni Karlsson prestur krafðist þess að starfsbróðir sinn yrði sviptur kjól og kalli fyrir rangar skoðanir.

Hækkun ársins: Nýr borgarstjórnarmeirihluti ákvað að fyrstu varaborgarfulltrúar skyldu fá greidd 70% af mánaðarlaunum borgarfullrúa. Einar Örn Benediktsson fór í útvarpsviðtal og útskýrði að hér væri alls ekki nein launahækkun, heldur hefði bara verið afnumin gömul launalækkun.

Nýfrjálshyggjumenn ársins: Í Svíþjóð fékk flokkur, sem berst gegn straumi innflytjenda til landsins, þingsæti í fyrsta sinn. Daginn áður spurði Spegill íslenska ríkisútvarpsins í skelfingu: „Komast nýfrjálshyggjumenn á þing í Svíþjóð?“

Íhugun ársins: Þegar þjóðkirkjan stóð í ólgusjó skarst forsætisráðherra drengilega í leikinn og kvaðst sjálf vera að íhuga að segja sig úr kirkjunni, því kirkjan væri „í kreppu“ og þar væri vandræðagangur. Jóhanna Sigurðardóttir hefur auðvitað enga þolinmæði fyrir stjórnvöldum sem eru „í kreppu“ og glíma við vandræðagang.

Kjörgengi ársins: Andrés Magnússon geðlæknir, sem þá var annar varaþingmanna vinstrigrænna í suðvesturkjördæmi, var kosinn á stjórnlagaþing, þótt varaþingmenn hafi ekki verið kjörgengir.

Gleymska ársins: Gagnrýnendur kjörs Andrésar gleymdu að hann uppfyllti mikilvægasta kjörgengisskilyrðið, að hafa verið tíður gestur í Sífri Egils.

Ósýni ársins: „Það var ekki sýnt mér, því miður“, svaraði Jóhanna Sigurðardóttir spurningu fréttamanns. Svo furðar fólk sig á málfari unglinga.

Einvaldur ársins: Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði frá því, þrívegis í sömu frétt, að Elísabet II Bretlandsdrottning væri „einvaldur“ Ástralíu.

Nafnbreyting ársins: Ögmundur Jónasson varð ráðherra og hyggst nú greiða atkvæði með því að Íslendingar gangi að Icesave-kröfum Breta og Hollendinga. Órólega deildin er nú ódýra deildin.

Trúnaðarskjal ársins: Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra reyndi að telja fólki trú um að álitsgerð um gengislán, sem ráðuneyti hans hafði fengið sent, hefði í raun verið leyniskjal sem starfsmönnum sínum hefði verið bannað að sýna honum, og því hefði hann engu logið þegar hann hefði sagt að skjalið hefði aldrei komið í ráðuneytið. Fréttamenn trúðu því strax að hægt væri að senda óbreyttum embættismönnum skjal, sem væri trúnaðarmál fyrir æðsta yfirmanni þeirra, og að embættismenn virtu slíkar óskir.

Tilmæli ársins: „Það er auðvitað mjög alvarlegt ef stjórnvöld fara í engu að tilmælum okkar“, sagði embættismaðurinn Páll Gunnar Pálsson þegar ráðherra fór ekki að tillögum hans. Enginn fréttamaður spurði Pál Gunnar hvaða lýðræðislegt umboð hann hefði.

Rannsakendur ársins: Katrín Jakobsdóttir ákvað að veita opinberu fé til að „styrkja rannsóknir á íslensku háskólakerfi og þætti þess í hruninu“. Peningarnir runnu til „rannsóknarstofu um háskóla“, undir forystu Páls Skúlasonar. Auðvitað er heppilegast að fela fyrrverandi rektor Háskólans að rannsaka „þátt háskólakerfisins í hruninu“.

Hverfulleiki ársins: Fyrir tveimur árum hafði Ríkisútvarpið gríðarlegan áhuga á „mótmælum“. Næsti mótmælafundur var jafnan kynntur fyrirfram í fréttatímum dögum saman, sumir voru sendir út beint í útvarpi og sjónvarpi. Af ókunnum ástæðum hefur áhuginn alveg horfið.

Viðbrögð ársins: Bjarni Fritzson handknattleiksmaður fór fyrir hópi Breiðholtsbúa sem börðust gegn sóðaskap og ógeðfelldu umhverfi í hverfinu. Hópurinn vann skýrslu um málið og afhenti borgaryfirvöldum. Spurður um viðbrögð borgaryfirvalda svaraði Bjarni að Jón Gnarr hefði boðið hópnum í laxveiði. Ástandið í Breiðholtinu væri hins vegar óbreytt.

Riftun ársins: Í lok júlí lýstu tveir stjórnarþingmenn því yfir að þeir styddu ríkisstjórnina ekki lengur nema hún „rifti“ þeim samningum sem kenndir voru við fyrirtækið Magma. Samningarnir standa enn.

Dýrfirðingur ársins: Nei, svo fyrirsjáanlegur er Vefþjóðviljinn þó ekki.

Skoðanaeinokun ársins: Eftir að landsfundur Sjálfstæðisflokksins tók af skarið um að flokkurinn berðist fyrir því að umsókn um aðild að Evrópusambandinu yrði dregin til baka, kvartaði Ragnheiður Ríkharðsdóttir yfir því að í flokknum „rúmaðist bara ein skoðun“ í málinu. Hún var ekki spurð hvort ekki mætti segja það sama um allt annað sem flokkar álykti um; að þeir hafi ákveðna stefnu í hverju máli og að gagnstæð stefna sé þá ekki stefna þeirra á sama tíma.

Forskot ársins: Ákveðið var að efna til ritgerðasamkeppni í tilefni af væntanlegu tvöhundruð ára afmæli Jóns Sigurðssonar. Ritgerðir skyldu vera í formi sendibréfs til forsetans, undir yfirskriftinni „Kæri Jón“. Þetta er mjög ósanngjarnt og gefur Róberti Marshall óeðlilegt forskot.

Vísa ársins: Þórarinn Eldjárn á þessa, sem varla þarfnast skýringa:

Þegar hún Gróa á Efstaleiti lýgur
er ljósvakinn varla nægur.
Svo orðrómurinn um allar jarðir flýgur.
Svo óhlutdrægur.

Farþegi ársins: Monitor spurði oddvita framboðanna í Reykjavík hvort þeir ferðuðust með strætisvögnum. Einar Skúlason, efsti maður Framsóknarflokksins í Reykjavík, svaraði: „Það kemur fyrir, en eftir að ég hætti að drekka þá hefur það minnkað.“

Hvíld ársins: Ríkið hefur lengi haldið úti „nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum“ og hefur hún auglýst grimmt fyrir opinbert fé þegar kosningar nálgast. Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí heyrðist ekkert frá henni. Það er auðvitað ótengt því að kona leiddi Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík en karlmaður Samfylkinguna og Besta flokkinn.

Klofningur ársins: Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar töluðu stjórnmálaskýrendur um að það sýndi veika stöðu Bjarna Benediktssonar að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi klofna í Garðabæ. Þegar talið var upp úr kössunum reyndist staðan svo veik að Sjálfstæðisflokkurinn fékk sjö menn af níu, sérframboðið einn og Samfylkingin einn. Tveir næstu menn inn, þeir voru líka úr Sjálfstæðisflokknum. Níundi maður Sjálfstæðisflokksins var nær því að ná kjöri en annar maður Samfylkingarinnar.

Leyndarkrafa ársins: Í maí krafðist Jóhanna Sigurðardóttir þess að þingmenn vinstrigrænna hættu að bera ágreining við stjórnarherrana á torg en reyndu þess í stað að „sýna samstöðu út á við“. Auðvitað vill ríkisstjórn gegnsæisins ekki að skoðanir eigin þingmanna á verkum stjórnarinnar komist á almannavitorð.

Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.

Áfangi ársins: Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði að handtaka tveggja bankamanna væri „mjög mikilvægur áfangi“ til að „endurreisa hér íslenskt samfélag“.

Orðvarkárni ársins: Jóhanna Sigurðardóttir var spurð um milljónastyrki útrásarfyrirtækja til þingmanns Samfylkingarinnar. Hún kvaðst „ekki ætla að setjast í dómarasæti“ þegar kæmi að „peningastyrkjum til einstakra frambjóðenda“.

Bókakaup ársins: Fyrir útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fór biskup Íslands fram á að söfnuðir landsins keyptu eintak af skýrslunni og létu hana liggja frammi í kirkjum. Ekki kom fram hjá biskupi hvort sú bók, sem fyrir var í kirkjunum, skyldi fá að vera þar áfram, eða hvort sú nýja nægði bara.

Sérfræðingar ársins: Þegar heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu hófst, bentu sparkspekingar á að Evrópuþjóðum gengi aldrei vel utan eigin heimsálfu. Spánverjar sigruðu, Hollendingar fengu silfur og Þjóðverjar brons.

Frí ársins: Tryggvi Gunnarsson, sem sat í rannsóknarnefnd Alþingis, lagði til að landsmenn fengju tveggja daga frí frá vinnu svo þeir gætu lesið skýrslu nefndarinnar. Nefndin birti svo skýrslu sína á mánudegi. Einhver hefði nú valið föstudag.

Tillaga ársins: Í apríl lagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir til að aðildarviðræðum við Evrópusambandið yrði frestað. Formaður Vinstrigrænna sagði það útilokað, því að viðræðurnar væru ekki hafnar, ha ha ha. Svo eru menn hissa á því að grasrót vinstrigrænna sé óhress.

Kjósendafæð ársins: Steingrímur J. Sigfússon taldi kjörsókn í atkvæðagreiðslunni um Icesave-lögin hafa verið slaka. Komu þó 125.000 manns á kjörstað til að segja nei. Það er svona fimmtánfalt fylgi Þorvaldar Gylfasonar í fyrsta sæti í stjórnlagaþingskosningum á dögunum.

Grís ársins: Það er nú næstum því augljóst. En þó ekki alveg.

Matsmenn ársins: Fréttamenn supu hveljur þegar Moodys hótaði því í febrúarlok, að ef Íslendingar felldu Icesave-lögin í atkvæðagreiðslu yrði lánshæfismat landsins fært í „ruslflokk“.

Meðmæli ársins: Forsvarsmenn íþróttafélags í Kópavogi hvöttu félagsmenn sína, í hvaða flokki sem þeir væru, til þess að skrá sig í Sjálfstæðisflokkinn, kjósa svo gegn Gunnari Birgissyni í prófkjöri og segja sig því næst úr flokknum aftur. Þetta skyldi gert í refsingarskyni, því Gunnar hefði ekki viljað lofa íþróttafélaginu enn nýrri aðstöðu á kostnað bæjarsjóðs.

Ráðhollusta ársins: Guðmundur Heiðar Frímannsson prófessor sagði það vera „hollt“ fyrir Íslendinga að taka á sig Icesave-skuldir Landsbankans. Þeir gleymdu bankahruninu ekki svo lengi sem þeir bæru byrðarnar af því.

Þáttaskil ársins: Í ágúst lét Runólfur Ágústsson af starfi umboðsmanns skuldara og hafði þá gegnt því óslitið allan daginn.

Nafnakall ársins: Fyrir borgarstjórnarkosningar áttu vinstrigrænir tvo borgarfulltrúa. Á borgarstjórnarfundi í febrúar var gengið til atkvæða um mál og Hermann Valsson, varaborgarfulltrúi vinstrigrænna, sagði þá „nei“. „Hann situr hjá“, æpti þá Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi. Var kosningin þá endurtekin og aftur sagði Hermann nei en Sóley æpti aftur að hann sæti hjá.

Kosningasmali ársins: Silja Bára Ómarsdóttir fór heim til kjósenda í prófkjöri vinstrigrænna og fékk þar frá þeim atkvæði fyrir Sóleyju Tómasdóttur í forvali vinstrigrænna. Silja Bára var á dögunum kosin á stjórnlagaþing og hyggst þaðan leggja grunn að nýju Íslandi.

Klukka ársins: Einar Bárðarson fer ótroðnar slóðir. Er prýðilegur útvarpsstjóri en sennilega ekki mjög góður þulur.

Viðurkenning ársins: Allir flokkar nema Hreyfingin töldu koma til greina að hætta við þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin. Með því viðurkenndu þeir í raun að forseti Íslands hefur engan „málskotsrétt“, heldur aðeins synjunarvald.

Stjórnarutanþingmaður ársins: Þórólfur Matthíasson.

Bjargfesti ársins: Árni Páll Árnason kvaðst í viðtali við Bylgjuna, 12. janúar, vera „bjargfastlega þeirrar skoðunar að við höfum í áratugi gert allt vitlaust sem hægt er að gera í reglum á íslenskum fjármálamarkaði.“ Já, hann hefur alltaf verið á móti þessum ómögulegu Evrópureglum sem hér hafa verið innleiddar. Sérstaklega varaði hann þáverandi lögfræðiráðgjafa Jóns Baldvins Hannibalssonar, utanríkisráðherra, margsinnis við þessu þegar unnið var að EES-samningnum, en Árni Páll átti við þann ráðgjafa ítrekaðar viðræður fyrir framan spegilinn, þangað sem Árni Páll á af og til erindi.

Fulltrúi ársins: Því er ítrekað haldið fram að í nýjustu viðræðunefnd Íslands um Icesave-kröfur Breta og Hollendinga hafi setið „fulltrúi stjórnarandstöðunnar“. Þó er ljóst að eftir samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins um Icesave-málið síðastliðið sumar, hefur enginn nefndarmaður haft umboð þess flokks.

Afsagnarkrafa ársins: Í janúar krafðist Jónína Rós Guðmundsdóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar, þess að forseti Íslands segði af sér embætti þar sem hann hefði ekki staðfest Icesave-lög ríkisstjórnarinnar.

Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.