Fimmtudagur 30. desember 2010

364. tbl. 14. árg.

Á dögunum leiddi Vefþjóðviljinn líkur að því að nýjasta útgáfa Icesave-ánauðarinnar væri, rétt eins og hinar fyrri, í tveimur liðum:

1. 100% skuldsett stöðutaka í hlutabréfum í eignasafni Landsbankans. 2. Skuldirnar allar í erlendri mynt án þess að tekjur í sömu mynt séu til staðar.

Þetta tveggja þrepa kerfi var með einum eða öðrum hætti uppskriftin að hruni stærstu fyrirtækja landsins fyrir tveimur árum þótt þar hafi alltaf verið fjarlægur möguleiki á hagnaði sem er ekki til staðar í Icesave „samningnum“.

Fróður maður sendi Vefþjóðviljanum tæknilegri útlistun á þessum nýjasta fjármálagerningi ríkisstjórna Íslands, Bretlands og Hollands.

Í raun snýst þetta um að íslenskir skattgreiðendur selja skuldatryggingu á ruslahaug sem samanstendur af fyrirtækjalánum, fyrirtækjaskuldabréfum og óskráðum eignarhlutum fyrirtækja þar sem væntanlega er þegar búið að selja allt sem er seljanlegt eða „liquid“.

Til þess að gera viðskiptin aðeins verri þá greiða skattgreiðendur „upfront fee“ uppá 60 milljarða króna fyrir að fá að selja skuldatrygginguna í stað þess að fá greitt fyrir trygginguna. Undir öllum venjulegum kringumstæðum ættu íslenskir skattgreiðendur að fá greitt til baka fast vaxtaálag fyrir að selja trygginguna.

Eins og bent er á þá eru Íslendingar með gjaldmiðlaáhættu í samningnum líka. Nú er mikið talað um að viðskipti lífeyrissjóða með skuldatryggingar hafi verið glæfraleg, í þeim samanburði hljóta þessi viðskipti að vera ekkert minna en glæpsamleg.