Miðvikudagur 29. desember 2010

363. tbl. 14. árg.

L ok áttunda og upphaf níunda áratugar síðustu aldar voru átakatímar í íslenskum stjórnmálum og ógleymanlegir þeim sem fylgdust með. Upplausnartímar, sögulegur kosningasigur vinstriflokkanna, efnahagslegt öngþveiti og verðbólga sem mældist í þriggja stafa tölu, var meðal þess sem landsmenn fengu að súpa á. Og það var á þessum tíma sem ein furðulegasta ríkisstjórn sögunnar var mynduð, þegar vinstriflokkarnir gengu til samstarfs við þáverandi varaformann Sjálfstæðisflokksins og nokkra fylgismenn hans, og mynduðu ríkisstjórn sem augljóslega var fyrst og fremst hugsuð til að ná fram þeim ævagamla draumi íslenskra vinstrimanna og fjölmiðlamanna, að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn.

Sú ríkisstjórn var mynduð eftir langt stjórnarmyndunarþóf. Og ekki vantaði það að nýi forsætisráðherrann, sem fékk hástemmt hrós úr öllum áttum fyrir að „brjótast undan flokksaganum“, varð geysivinsæll við tiltækið. Forysta Sjálfstæðisflokksins, sem varð utan stjórnar, fékk strax þá ímynd að þar færu harðir og vondir menn sem ætluðust til þess að flokksmenn fylgdu stefnu flokksins. Slíkt þykir álitsgjöfunum jafnan mjög slæmt af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Ef þeir eru ekki í samfelldri uppreisn, þá láta álitsgjafarnir eins og innan flokksins ríki járnagi og engum leyfist að andmæla. Ef óbreyttir þingmenn vinstriflokkanna eru hins vegar með múður, sem síðustu misserin virðist raunar aðallega koma fram í því að þeir hafa meiri áhuga en eigin forysta á loforðum flokksins, þá kalla álitsgjafarnir þá „órólegu deildina“ og „villiketti“, og í Ríkisstjórnarútvarpinu segir áróðursþátturinn Spegillinn að þeir kasti á milli sín „fjöreggi“ vinstristjórnarinnar.

En þetta var útúrdúr. Forsætisráðherra stjórnarinnar sem mynduð var í febrúar 1980 fékk gríðarlegt hrós fyrir að ganga gegn forystu eigin flokks. Kannanir sýndu að enginn naut meira álits landsmanna þá stundina. Og vissulega var Gunnar Thoroddsen á margan hátt heillandi opinber persóna. Hann var  hæfileikamaður, kom óaðfinnanlega fyrir, alltaf klæddur eins og herramaður, talaði blæbrigðaríkt fallegt mál af mikilli kurteisi, afbragðs ræðumaður og á allan hátt prúðmenni í ytri framkomu. Hann var vel að sér í sögu lands og þjóðar og hafði ríkulega almenna þekkingu til að bera. Hann fór ekki um með stóryrðum, innihaldslausum fullyrðingum, vanþekkingu, málvillum, flatneskjuhugsun eða ásakanaflóði. Hann hefði aldrei tekið í mál að mæta í sjónvarpsviðtal órakaður, bindislaus og lítt undirbúinn. Ef miðað er við þá sem nú vaða uppi í fjölmiðlum, hvort sem horft er til fréttamanna eða fréttaefna, þá fer enginn þeirra nálægt Gunnari Thoroddsen.

Ef að óaðfinnanleg ytri framkoma væri allt sem til þyrfti, hefði Gunnar Thoroddsen verið einhver allra besti stjórnmálamaður sem Ísland hefði alið. En þá loksins sem hann komst á þann virðingarsess sem hann hafði barist fyrir svo lengi, þá var landið svo óheppið að það varð í einni alverstu vinstristjórn sögunnar og er þá langt til jafnað. Það var í ríkisstjórninni þar sem Svavar Gestsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Steingrímur Hermannsson voru bak við tjöldin, með hugann samfellt við klofning Sjálfstæðisflokksins en hvers kyns þjóðarhagur mætti afgangi. Og klofningur Sjálfstæðisflokksins er ekki mál sem Svavar Gestsson nennir ekki að hafa hangandi yfir sér.

Og vegna þessarar óheppni landsins fékk það ekki notið þeirrar ánægju að sjá þennan mann verða að þeim notum sem hæfileikar hans hefðu við aðrar aðstæður boðið upp á. Og þegar Gunnar loksins varð forsætisráðherra, þá var það án eigin flokks, í úrræðalausri vinstristjórn sem hékk saman á heiftinni. Það var heldur óblíð lokagjöf til þess manns sem að ýmsu leyti var meiri kostum búinn en margir aðrir stjórnmálamenn. Og hvort myndi hann þá ekki stundum hafa setið einn í stjórnarráðinu og rifjað upp sína eigin fleygu lausavísu:

Að vera eða vera ekki
William Shakespeare mælti forðum.
Að vera eða vera ekki
er vinstristjórn í fáum orðum.