Þriðjudagur 28. desember 2010

362. tbl. 14. árg.

Ú t er komin hjá Mises Institute bókin The Tragedy of the Euro eftir Philipp Bagus prófessor í hagfræði við háskóla Juan Carlos konungs í Madrid. Eins og nafnið bendir til er ritið ekki beinlínis lofgjörð um mynt Evrópusambandsins. Þvert á móti færir Bagus rök fyrir því að evran hafi enga sérstaka kosti umfram aðrar fótalausar (fiat) myntir en marga galla. Fótalausar myntir eru þær sem eru gjaldmiðlar af þeirri einu ástæðu að stjórnmálamenn segja að svo sé. Það er ekkert annað á bak við þær.

Annar hagfræðiprófessor á Spáni sem Vefþjóðviljinn hefur stundum vitnað til, Jesús Huerta de Soto, ritar formála að The Tragedy of the Euro. Þar segir hann meðal annars: „Sú skuldaklemma sem mörg ríki eru nú föst í er bein afleiðing lánsfjárþenslu bankakerfis Evrópu. Upp úr síðustu aldamótum varð útlánaþensla, ekki síst á útjaðri myntsamstarfsins, á Írlandi, Grikklandi, Portúgal og Spáni. Vextir lækkuðu verulega með þessari lánsfjáraukningu og bæði dró úr verðbólguvæntingum og áhættuálag á skuldir lækkaði. Verðbólguspár lækkuðu vegna orðspors hins þýska Bundesbank sem átti að vera fyrirmyndin að Seðlabanka Evrópu. Áhættuálagið lækkaði vegna væntinga um stuðning frá öflugri ríkjum álfunnar. Afleiðingin var bóla. Eignabólur eins og húsnæðisbólan á Spáni urðu til. Hið aukna peningamagn leitaði einkum út á jaðar myntsamstarfsins þar sem það varð hráefni fyrir ofneyslu og vondar fjárfestingar, ekki síst í bíla- og byggingaiðnaði. Um leið var skattfé af bóluverkinu nýtt til að fjármagna útþenslu óraunhæfs velferðarkerfis.
Árið 2007 fóru ýmsir þættir, sem vinna gegn efnahagsbólum af völdum útlánaþenslu í stað raunverulegs sparnaðar, að gera vart við sig. Verðlag framleiðsluþátta eins og rekstarvarnings og launa tók að hækka. Vextir fóru einnig að hækka vegna verðbólguþrýstings sem leiddi til þess að seðlabankar hægðu á þenslustefnu sinni.“

Huerta de Soto segir að það hafi svo runnið upp fyrir mönnum að fjöldi fjárfestinga væri byggður á sandi en ekki raunverulegum sparnaði. Offjárfestingar í íbúðarhúsnæði enduðu til að mynda með einum eða öðrum hætti í efnahagsreikningum fjármálafyrirtækja. Þegar Lehman bræður urðu afvelta haustið 2008 hafi gripið um sig mikill ótti á fjármálamörkuðum. Í stað þess að leyfa markaðnum að hafa sinn gang hafi stjórnvöld komið í veg fyrir að ástandið fengi að laga sig að raunveruleikanum. Huerta de Soto segir að þessi afskiptasemi hafi ekki aðeins komið í veg fyrir almennilega tiltekt heldur einnig haft þær aukaverkanir sem komu fram sem skuldakreppa þjóðríkja vorið 2010.

Síðan lýsir hann því í nokkrum orðum í hverju þessi afskiptasemi fólst; styrkjum og niðurgreiðslum til bílaframleiðenda, auknar opinberar framkvæmdir til að halda byggingariðnaði gangandi og studdu greinina sem hafði lánað í þetta allt saman, fjármálageirann. Ríkisstjórnir hafi svo með beinum hætti gengist í ábyrgðir fyrir skuldum banka, þjóðnýtt þá, keypt af þeim eignir og hluti. Atvinnuleysi á hinum ósveigjanlega vinnumarki hafi í kjölfarið rokið upp. Skatttekjur hafi minnkað mjög hratt en útgjöld vegna atvinnuleysis og annarra félagsmála aukist að sama skapi. Fyrirtækjaskattar af fjármála- og byggingarfyrirtækjum sem hafi skilað miklum tekjum í bólunni hafi nær þurrkast út. Við þessar aðstæður hafi halli á ríkisrekstri snaraukist og skuldir hrannast upp.