Mánudagur 27. desember 2010

361. tbl. 14. árg.

F leira kom út í desember en ofurhrósaðar en misverðugar jólabækur. Meðal þess sem sigldi lygnan sjó var vetrarhefti tímaritsins Þjóðmála, en hvert nýtt hefti þess er fagnaðarefni þeim sem vilja bitastæða umræðu um íslensk þjóðmál. Í Bóksölu Andríkis fæst áskrift að þessu ágæta og nauðsynlega tímariti og þar má einnig kaupa stök hefti, ný og eldri. Á róstutímum, þar sem stjórnvöld og fjölmiðlar þeirra reyna að keyra landið með hraði undir sósíalisma, áður en fólk vaknar, er nauðsynlegt að rit eins og Þjóðmál eflist og dafni.

Í nýjasta heftinu kennir sem fyrr margra grasa. Gústaf Níelsson sagnfræðingur fer ýtarlega yfir sögu hins undarlega framboðs Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Er varla einleikið hversu íslensk stjórnvöld geta fengið slíkar delluhugmyndir á heilann og keyrt þær áfram. Vikurnar, mánuðina og misserin fyrir þrot bankanna hugsaði utanríkisþjónustan um það eitt að komast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Eftir þrot bankanna, þegar venjuleg stjórnvöld myndu reyna að hjálpa efnahagslífinu á fætur aftur og standa vörð um grunnstoðir landsins, þá auka stjórnvöld skatta og álögur en hugsa því næst fyrst og fremst um að grafa undan stjórnarskrá landsins og spara þar hvorki fé né fyrirhöfn.

Örvar Arnarson viðskiptafræðingur skrifar ákaflega skýra og upplýsandi grein um svonefnda fyrningarleið, sem meinlokumenn þjóðfélagsins vilja endilega setja til höfuðs íslenskum sjávarútvegi. Það er, rétt eins og stjórnarskrárárásin, dæmigert fyrir lánleysi íslenskra stjórnvalda að þau ráðist nú gegn þeirri atvinnugrein sem heldur í raun landinu gangandi. Þeir sem þar starfa eru í daglegri umræðu kallaðir þjófar og mafía. Örvar fer yfir aðalatriði fyrningarleiðarinnar og kemst að þeirri niðurstöðu að hún sé vit-fyrningarleið.

Ragnhildur Kolka skrifar þarfa kynningargrein á ritum bresks geðlæknis sem kallar sig Theodore Dalrymple, en hann færir rök að því að risavaxið ríkisvald og alltumlykjandi „velferðarkerfi“ eigi stóran þátt í hnignun Vesturlanda og svipti hinn almenna mann bæði frelsi og ábyrgðinni á eigin málum. Að sjálfsögðu vilja núverandi stjórnvöld verja og efla þetta sama alltumlykjandi „velferðarkerfi“.

Afar margt fleira mætti nefna úr Þjóðmálaheftinu. Hjörtur J. Guðmundsson skrifar um sjávarútveg og Evrópusambandið, Björn Bjarnason um landsdómsmál, gjaldeyrishöft, stjórnlagaþing og fleira, Ólöf Nordal um ákafann í þeim sem vilja vega að stjórnarskránni, Bergþór Ólason nefnir dæmi um framgöngu Ríkisútvarpsins þegar rannsóknarskýrsla Alþingis var kynnt, og Tryggvi Þór Herbertsson leggur til sérstaka fjármálareglu sem hann segir myndu auka stöðugleika, minnka óvissu en leiða til aukinnar framleiðslu og betri lífskjara þegar til lengri tíma sé litið. Er þá ógetið margs annars efnis, auk dóma um helstu bækur sem út komu á þjóðmálasviðinu í jólavertíðinni.