Helgarsprokið 26. desember 2010

360. tbl. 14. árg.

E inn helsti íþróttagarpur landsins og þótt víðar yrði leitað vann enn eitt afrekið á sínu sviði á aðventunni. Að þessu sinni hljóp Gunnlaugur Júlíusson hagfræðingur rúma 200 kílómetra á einum sólarhring, á hlaupabretti. Sá sem vill gera sér í hugarlund hversu auðleyst sú þraut er, ætti að aka úr Reykjavík austur til Víkur í Mýrdal, nema þar staðar, reima á sig skó og hlaupa aftur til Reykjavíkur. Þegar þangað væri komið ætti hann að skrá sig í hálfmaraþon og taka þegar á rás. Árangur Gunnlaugs, eftir að hann hóf hlaup sín um miðjan aldur, er með hreinum ólíkindum eins og menn geta lesið um í bók hans, Að sigra sjálfan sig, en reynsla Gunnlaugs ætti að geta orðið hvatning hverjum þeim sem telur sig þurfa að sigrast á einhverju í eigin fari.

En Gunnlaugur er ekki aðeins einn helsti íþróttagarpur landsins – en íslenskir fjölmiðlamenn virðast oft ekki átta sig á því að hann er í þeirra hópi, og segja því fréttir af afrekum hans oft í samfloti með fréttum af tvíhöfða kálfum og málverkasýningum blindra og sjónskertra. Gunnlaugur heldur jafnframt úti heimasíðu þar sem hann fjallar um ýmis mál, oft með þeim hætti að hann ber þar jafnmikið af dægurþrösurum og hann myndi gera ef þeir skoruðu hann á hólm á hlaupabrautinni.

Í tilefni af aðventuhlaupi Gunnlaugs, leyfir Vefþjóðviljinn sér að grípa niður í nokkrar af síðustu færslum Gunnlaugs, sem vel verðskulda lestur og umhugsun.

Um stjórnlagaþingssjónarspilið skrifaði Gunnlaugur pistil sem vel mætti lesa á meðan menn taka fyrstu hundrað metrana á brettinu:

Fram til þessa hef ég kosið í öllum þeim opinberum kosningum sem ég hef haft möguleika á að gera. Sama hvort það eru kosningar til sveitarstjórnar, alþingis, forsetaembættisins eða kosningar um brennivín, flugvöll, hundahald og Icesafe. Mér hefur fundist það vera skylda hvers einstaklings sem býr í lýðræðissamfélagi að nýta kosningaréttinn. Það veit enginn hvað hann hefur fyrr en hann hefur misst það. Nú kaus ég hins vegar ekki. Ég gat bara ekki hugsað mér að taka þátt í þessu þjóðfundar/stjórnlagaþingssjónarspili öllu. Það eru takmörk fyrir því hve langt maður getur látið leiða sig. Þetta byrjaði allt saman í látunum snemma árs 2009. Þá fóru einhverjir að hafa hátt um að nú þyrfti að byggja upp nýtt Ísland. Byggja upp nýtt siðferði, byggja upp nýja stjórnarskrá. Nokkur hópur fólks át þessa frasa síðan upp hver eftir öðrum og þetta var voða mikið „inn“ hjá sumum. Allur fjöldinn lét sér fátt um finnast. Svokallaður þjóðfundur var haldinn fyrir góðu ári síðan. Hann átti að leggja ákveðinn grunn að Nýja Íslandi. Megináherslan var þó lögð á aðferðafræðina. Hún var orðin aðalatriðið. Þetta hafði hvergi verið gert í heiminum áður. Hvað segir það? Jú, nefnilega að aðrir hafi ekki talið þessa aðferðafræði sérstaklega skynsamlega. Út úr þjóðfundinum hinum fyrri kom ekkert það ég veit eða man nema að nöfn umræðufunda breyttust víða í kjölfar hans og hétu þeir nú þjóðfundir enda þótt einungis fáir tugir mættu á staðinn. Engu að síður var haldinn annar þjóðfundur og nú sögðu ýmsir að hann hafði verið miklu betri en sá fyrri. Reyndar áttuðu einhverjir sig á því að þessi svokallaði þjóðfundur samanstóð af 100 tíu manna fundum. Svo var farið að undirbúa stjórnlagaþingið sjálft. Sú nýbreytni var tekin upp að nú átti þjóðin að vinna verkið. Ekki einhverjir stjórnmálamenn á vegum fjórflokksins alræmda. Þjóðin var nú eitthvað annað. Það kom forsvarsmönnum verkefnisins í opna skjöldu hve margir höfðu áhuga á 2ja til 4ra mánaða þægilegri innivinnu við að velta stjórnarskránni fyrir sér. Fyrst allt var opið og litlar hindranir á veginum þá var við því að búast að margir gæfu kost á sér. Annað hefði verið óeðlilegt. Sérstaklega þegar hamrað var á því sínkt og heilagt að nú ætti ÞJÓÐIN að taka málin í sínar hendur. Þessi mikli áhugi olli ákveðnum vandræðagangi í upphafi en svo leystist það. Gefið var út gott blað með myndum, æviágripi og nokkrum línum um fyrir hvað viðkomandi stæðu. RUV tók viðtöl við alla frambjóðendur og þau voru aðgengileg en að vísu bara á vefnum. Ýmsir þeirra sem hefðu haft tíma og gaman af því að hlusta á þessi viðtöl nota ekki tölvur. Persónukjör er ekkert nýtt í sögunni. Óhlutbundin kosning hefur viðgengist víða um land um áratuga skeið og síðan eru forsetakosningar og prestkosningar ekkert nema persónukosningar svo dæmi séu nefnd. Það var engin fyrirstaða þótt fólk þyrfti að skrifa niður nokkur númer til að hafa hjá sér á kjörstað í stað þess að krossa við nafn. Kosningafyrirkomulagið var nýtt en það lærðist. Ekkert mál. Svo kom kjördagurinn. Þá fór í verra. Það mættu nefnilega mjög fáir á kjörstað. Svo fáir að um það eru fá ef nokkur dæmi í sögunni. Það lá svo við að fjölmiðlar grátbæðu fólk um að fara og kjósa að kvöldi kjördags þegar sýnt var hve kjörsóknin yrði léleg. Allskonar eftiráskýringar komu fram að kjördegi loknum. Sumir sögðu að fjölmiðlar hefðu brugðist. Aðrir sögðu að háskólasamfélagið hefði brugðist. Sumir sögðu að fólkið hefði hræðst fyrirkomulagið og því hefðu kjósendur brugðist. Mjög fáir hafa minnst á það sem ég held að sé aðalástæðan fyrir lélegri kjörsókn. Allur þorri almennings hefur enga tilfinningu fyrir því að stjórnarskráin sé einhver orsakavaldur í efnahagshruninu. Fólk sér því engan tilgang í því að rjúka í endurskoðun hennar núna og eyða í það verk svo gríðarlegum fjármunum sem raun ber vitni. Nefndar eru 800 milljónir króna sem lágmark. Þessir peningar eru allir teknir að láni. Vegna þessa verkefnis verður að skera enn frekar niður í velferðarkerfinu á komandi árum því lán þarf að borga til baka og þau kosta peninga. Meirihluti þjóðarinnar mótmælti því öllu heila spilverkinu með því að láta ekki sjá sig á kjörstað. Ýmislegt situr þó eftir sem er umhugsunarvert: Margir frambjóðenda virtust ekki vita mikið um hvað málið snerist. Ýmsir þeirra boðuðu afar harðan kommúnisma sem skyldi bundinn í stjórnarskrá. Framkvæmdastjóri verkefnisins var eiginkona eins frambjóðendans. Talnasérfræðingar sem komu að vali á kosningaaðferðinni fóru í framboð og náðu báðir kjöri. Aldrei kom til tals að nota aðra aðferð en þá sem notuð var. Framkvæmdastjóri verkefnisins hreytti ítrekað ónotum í þá frambjóðendur sem reyndu að vekja athygli á sér með auglýsingum. Fyrsta frétt í hádeginu daginn eftir á Bylgjunni var að erlendir fjölmiðlar hefðu fjallað um kosninguna. Þar þótti sem sagt merkilegra að útlendingar litu til landsins en sú staðreynd að yfir 60% kjósenda sáu ekki ástæðu til að kjósa. Það kostar töluverða yfirlegu að ná að skilja þá aðferðafræði sem notuð er við talninguna. Framkvæmdastjóri verkefnisins sagði ítrekað að kjörsóknin skipti engu máli. Því hefði líklega verið nægjanlegt í hennar augum að einungis einn kjósandi hefði kosið sé það tekið bókstaflega sem sagt var. Hvaða málflutningur er þetta?? Bakland einstakra stjórnlagaþingsmanna er afar lítið sé það reiknað sem hlutfall af kosningabærum einstaklingum. Því er staða þingsins veik svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Venjulegu fólki sem lítið hafi haft sig í frammi á opinberum vettvangi var talin trú um að það ætti erindi inn í þennan prósess. Það væri þjóðin. Nú liggur fyrir hvað þarf til að ná kjöri í svona kosningafyrirkomulagi. Það er fróðlegt að sjá hvernig „þverskurður þjóðarinnar“ lítur út.

Um áróðurinn í aðdraganda skrípaleiksins hafði Gunnlaugur þetta að segja:

Ég horfði á Silfur Egils á sunnudaginn sem ég geri æ sjaldnar þessa mánuðina. Það var verið að ræða kosningarnar á laugardaginn kemur. Almannatengill nokkur sem er að vinna fyrir einhvern hóp þeirra sem bjóða sig fram var svo smekklegur að veifa mynd í þættinum þar sem búið var að teikna upp fúlan kall (nema hvað). Karlinn var nefndur “Herra Neikvæður” og átti að tákna þá sem ætla ekki að kjósa á laugardaginn. Mér finnst það ekki vara hlutverk ríkisfjölmiðils, svo ég orði það bara vægt, að gera lítið úr skoðun þess fólks sem hefur ekki áhuga á að nota kosningarétt sinn á laugardaginn kemur. Ég sé ekki annað en að það fólk hafi nákvæmlega sama rétt og aðrir til að móta sína eigin afstöðu í málinu. Ef frambjóðendur eru mjög óáhugaverðir eða málefnið ekki þess virði að fólki finnist ástæða til að mæta á kjörstað þá hefur það rétt á þeirri skoðun. Alls engin ástæða til að gera grín að því fyrir það. Síðan má svo sem minna á það í forbifarten að þeir sem hrifust ekki með í ruglbólunni á árunum 2005-2008 voru yfirleitt kallaðir neikvæðnir úrtölumenn. Það skyldu þó ekki vera sömu almannatenglar sem voru í fremstu víglínu í báðum tilfellum við að gera lítið úr því fólki sem þorði að mynda sér sjálfstæða skoðun og var með báða fætur á jörðinni. Það er alltaf auðveldast að kóa með en það þarf dálítinn kjark að synda á móti straumnum.

Um spekina sem vall upp úr frambjóðendum skrifaði Gunnlaugur:

Ég hef hlustað fyrir tilviljun á nokkur viðtalanna sem tekin voru við frambjóðendur af RUV. Það er kannski hroki að segja það en mér finnst að það eigi að vera hægt að gera þá lágmarkskröfu til fólks sem telur sig fært til að endurskoða stjórnarskrá landsins að það sé þokkalega fært í að koma frá sér mæltu máli. Það er ekki djúprist krafa en hún reynist sumum um megn það ég heyrði. Beygingavillur, þversagnir og slæmt málfar eru ekki beint meðmæli með fólki sem gefur sig fram til slíkra starfa. Aðrir hafa akkúrat ekkert fram að færa. Síðan hafa enn aðrir einhverja orðaleppa í frammi sem þeir virðast ekki vita mikið hvað þýða í raun og veru. Einn sá vinsælasti virðist vera krafan um náttúrulegar auðlindir í þjóðareign. Sumir ganga svo langt að þeir segja að náttúrulegar auðlindir eigi bæði að vera í þjóðareign og þjóðnýtingu. Við höfum kynnst slíku fyrirkomulagi í Sovétríkjunum, í stærstum hluta Austur Evrópu, á Kúbu og í Kína undir stjórn Maó. Ég hef unnið í Rússlandi og séð afleiðingar Sovétríkjanna, ég hef komið til Kúbu og ég hef séð varðturnana með byssumönnum sem stóðu vörð við landamærin milli Austur Evrópu og Vestur Evrópu til að gæta þess að fólk flýði ekki vestur fyrir járntjald. Þeir sem það reyndu og sáust voru skotnir öðrum til viðvörunar. Það vita allir sem vilja vita að Sovétríkin og Austur Evrópa urðu gjaldþrota vegna þeirrar efnahagsstefnu sem þar var rekin. Því féll skipulagið. Ég hef því miður ekki komið til Kína en hef lesið dálítið um það ágæta land og það þjóðskipulag sem landið byggði á Maó tímanum. Ég þarf því ekkert að láta segja mér um svona málflutning. Bara að minna á það að fiskurinn í sjónum er náttúruauðlind. Vatnið sem rennur niður brekkurnar og sprettur upp úr jörðinni er náttúruauðlind. Fiskurinn í ánum, fuglar himinsins og dýr merkurinnar eru náttúruauðlindir. Landið sem grasið er ræktað á er náttúruauðlind. Þannig mætti áfram telja. Ef á að þjóðnýta þetta allt saman og koma öllum náttúruauðlindum í opinbera eigu og ég tala nú ekki um ef nýting þessara náttúruauðlinda eigi að gerast af opinberum aðilum þá mun margt breytast hér á landi. Segi ekki meir þar um.

Á dögunum skrifaði Gunnlaugur um eina af þeim bókum sem fást til sölu í Bóksölu Andríkis:

Ég hef nýlega lokið við að lesa bókina “Dýrmætast er frelsið” eftir norska blaðamanninn Hege Storhaug. Hún þekkir þessi mál mjög vel eftir að hafa unnið við málefni innflytjenda í Noregi vel á annan áratug, dvalið í Pakistan í tvö ár og þannig mætti áfram telja. Nú gæti einhver sagt að þessi verkaður sé bara bundinn við afskekktar byggðir þar sem fáfræði og forneskja ræður ríkjum. Það er öðru nær. Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna telur að um 140 milljónir núlifandi stúlkna í heiminum í dag hafi orðið fyrir þessu. Árlega séu nú um tvær milljónir stúlkubarna umskornar. Í Egyptalandi eru t.d. um 90% kvenna umskornar. Umskurður stúlkubarna er iðkaður í um 30 löndum í dag. Þessi ósiður festi rætur á belti sem liggur yfir miðbik Afríku, á Arabíuskaga, í nokkrum löndum Miðausturlanda, í héröðum Kúrdistan og meðal múslima í Malasíu og Indónesíu. Þessi ósiður er ekki eingöngu bundinn við þessi lönd heldur er hann einnig til staðar meðal múslima og islamista sem búa í Noregi, Svíþjóð og Danmörku svo og ýmsum öðrum Evrópulöndum. Þetta er bannað með lögum í Evrópu en þeir sem telja að orð spámannsins séu ofar lögum sem venjulegir menn hafa sett virða slíkt bann að vettugi. Það er helst að samfélögin vakni þegar einhverri smástelpunni blæðir út. Árið 1999 féll timamótadómur í París þar sem kona var dæmd í átta ára fangelsi fyrir að hafa sannanlega limlest 48 stúlkubörn. Annars ríkir þögnin að mestu um þessi mál í Evrópu að sögn Hege. Það gerir það svo sannarlega hérlendis einnig. Bókin “Dýrmætast er frelsið” er t.d. ekki tekin til umfjöllunar í þáttum þar sem fjallað er um bækur eða þjóðfélagsmál almennt. Þess í stað einbeita fjölmiðlar sér að umfjöllun um stórmál eins og geldingar á smágrísum og eyrnamörkun smálamba.

Þannig mætti lengi telja. Ekki kann Vefþjóðviljinn við að ráðleggja mönnum að fara að dæmi Gunnlaugs og hlaupa í einum spretti langleiðina á Kirkjubæjarklaustur. En óhætt er að ráðleggja mönnum að líta af og til upp úr öskrum og órum umræðuvefjanna og kynna sér rökstuddari og yfirvegaðri skrif manna eins og Gunnlaugs. Það er alveg óvíst hvort rétttrúnaðarmenn nútímans myndu svitna og mæðast meira á því að fylgja Gunnlaugi á ritvellinum eða hlaupabrautinni.