Laugardagur 1. janúar 2011

1. tbl. 15. árg.
Við Íslendingar njótum þess að búa við gjöfula náttúru og mannauð og félagslega innviði sem standast samanburð við það sem best gerist í heiminum. Til vitnis um það má nefna að við erum í fyrsta sæti í alþjóðlega viðurkenndum samanburði á sviði nýsköpunar, jafnréttismála og umhverfismála og að því er varðar hreinleika, aðgang að ferskvatni og heilsusamlegu umhverfi. Við erum í öðru sæti, á eftir Noregi, á lista yfir þau ríki jarðar þar sem mest lýðræði ríkir og Ísland er í þriðja sæti yfir þau lönd þar sem aðstæður eru bestar til að fæða og ala upp börn í heiminum. Allt eru þetta afar dýrmætir þættir sem skapa almenna velferð og jöfnuð hér á landi.
– Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lýsir ástandinu í þjóðfélagi „öfgafullrar frjálshyggjustefnu“í niðurlagi áramótagreinar í Morgunblaðinu 31. desember 2010.

Í upphafi áramótagreinar sinni segir Jóhanna Sigurðardóttir að rekja megi hrunið haustið 2008 til „einkavæðingar bankanna og öfgafullrar frjálshyggjustefnu“ á áratugunum þar á undan. Það á þá væntanlega einnig við um árin í upphafi og lok þess tímabils sem hún var ráðherra félagsmála og þar með húsnæðismála. Fáir fögnuðu 90% lánum Íbúðalánasjóðs ríkisins árið 2004 innilegar en Jóhanna. Það var helst að henni þætti ekki nóg að gert til að koma fólki á lánsfjárbragðið og jós hún skömmum yfir Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hafa staðið á bremsunni og Framsóknarflokkinn fyrir að hafa látið Sjálfstæðisflokkinn kúga sig. Þessi 90% lán eru kveikjan að fasteignabólunni á árunum 2005 til 2008. Á þessum árum varð títtnefndur skuldavandi heimilanna til. Fjöldi manna býr nú í húsnæði sem er veðsett langt umfram markaðsvirði. Fáir fóru þó verr út úr þessu en þeir sem þáðu boð Jóhönnu, sem þá var orðin húsnæðismálaráðherra á ný, um aukna lánamöguleika hjá Íbúðalánasjóði sumarið 2008. Vorið 2008 voru bankarnir því sem næst hættir að lána til húsnæðiskaupa. Jóhanna rýmkaði þá lánaheimildir Íbúðalánasjóðs verulega, ekki síst til að ginna kaupendur að fyrstu íbúð inn á markaðinn. Jóhanna Sigurðardóttir lokkaði þannig stóran hóp manna til kaupa á fasteign rétt áður en fasteignabólan sprakk.

Vefþjóðviljinn skilur ekki hvernig það getur talist frjálshyggjustefna að setja ríkisstofnun eins og Íbúðalánasjóð á lánafyllerí. Hvorki árið 2004 né árið 2008. Enda fagnaði Jóhanna og bar beinlínis ábyrgð sem þingmaður og ráðherra á þessum lánatúrum Íbúðalánasjóðs. Ekki var hún að hrinda „öfgafullri frjálshyggjustefnu“ í framkvæmd?

Það er svo sérstakt furðuverk að þingmaður og ráðherra sem á svo myndarlegan þátt í að eyðileggja fjárhag fjölda heimila skuli hafa verið hækkaður í tign að því loknu og gerður að formanni Samfylkingarinnar og forsætisráðherra sem lýsir því um leið yfir að enginn megi hafi hærri laun en hún sjálf! Lady hvað?

En þrátt fyrir að Jóhanna segi að hér hafi vaðið uppi öfgafrjálshyggja í tuttugu ár virðist hún einnig trúa því að Ísland sé eitt besta land í heimi. Ólafur Ragnar Grímsson væri fullsæmdur af lýsingu hennar á landinu með ferskasta vatnið og öllum hinum merkjunum um vanmetakennd.

Jóhanna minnist ekki á þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave sem meirihluti landsmanna tók þátt í. Kosningum til stjórnlagasilfursins, sem minnihluti kjósenda lét sig varða, lýsir hún hins vegar sem heimsmeti á við ferska vatnið. „Þar erum við Íslendingar að stíga mjög merkilegt skref í þróun lýðræðis og stjórnskipunar sem vakið hefur mikla athygli erlendis.“

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra minnist ekki frekar en Jóhanna á Evrópusambandið í sinni áramótagrein. Ritstjórn Morgunblaðsins er oddvitum stjórnarflokkanna hins vegar afar hugleikin og augljóslega mikið áhyggjuefni að einhver fjölmiðill skuli gagnrýna ríkisstjórnina af og til. Af Ríkisútvarpinu og Fréttablaðinu hafa þau engar áhyggjur. Þau mál eru að vonum í góðum farvegi í menntamálaráðuneytinu og ríkisbankanum.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins gerir það að meginefni áramótagreinar sinnar hvernig ríkisstjórnin þvælist fyrir framtaki einstaklinganna í landinu með skattahækkunum, höftum, ríkisafskiptum og miðstýringu.

Við Íslendingar megum ekki gleyma því að við erum gæfusöm þjóð. Þjóðfélagsúrbætur síðustu áratuga hafa lagt grunn að lífsskilyrðum hér á landi sem jafnast á við það sem best gerist meðal þjóða heims. Nú eigum við, eins og svo margar aðrar þjóðir, við efnahagsvanda að etja. Það er tímabundið ástand, ef rétt er á málum haldið. Við eigum möguleika umfram flestar aðrar þjóðir til að vinna okkur tiltölulega hratt upp að nýju. Nýlega bárust jákvæð tíðindi af ástandi fiskistofnanna umhverfis landið. Við eigum vel menntað fólk, öflug atvinnutæki, endurnýjanlegar náttúruauðlindir og það er eftirspurn eftir okkar verðmætu afurðum. Þar liggja tækifæri okkar.

Þau áföll sem hér hafa orðið í efnahagslífinu mega ekki verða til þess að við missum trúna á fólkið í landinu, getu þess, þekkingu, framtak og framsýni og förum þess í stað leið miðstýringar, ríkisafskipta og hafta. Sú fátæktarleið hefur áður verið reynd.

Um allt land er að finna fólk með brennandi þörf og áhuga á því að láta til sín taka. Fólk sem hefur hugmyndir, kunnáttu og víðtæka reynslu sem nýtist því og þjóðfélaginu öllu til framdráttar. Vandinn er sá að fólkið finnur ekki viðspyrnu.